Magnús og Valur vilja ekki vera í vinstrifarsanum

Ég er ekki hissa á því að Magnús Gunnarsson og Valur Valsson afþakki að leiða ríkisbankana við þær aðstæður sem uppi eru. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lýsti í raun yfir algjöru vantrausti á þá í þingumræðum á mánudag og miklu betra fyrir þá að labba út frekar en bíða eftir því að þeim verði skipt út. Magnús og Valur eru traustir og vandaðir menn sem voru sóttir til verka eftir starfslok sín því þeir nutu trausts og þóttu geta leitt verkefnið vandað og afgerandi. Enginn hefur getað bent á annað.

Eftirsjá er því af þeim. Mun meiri sómi væri að íhuga stöðuna í Landsbankanum þar sem Ásmundur Stefánsson skipaði sjálfan sig sem bankastjóra Landsbankans með samþykkt Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, sem reyndar er líka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra enda greinilega svo lítið að gera í fjármálaráðuneytinu. Steingrímur J. reyndi að halda þeim Magnúsi og Val í sínu hlutverki en þeir ganga auðvitað út eftir ummæli Jóhönnu.

Þessi vinstristjórn hefur setið við völd í rúmlega tíu daga. Hún hefur ekkert gert nema hrekja menn úr störfum og standa fyrir pólitískum hreinsunum. Ekki örlar á neinni framtíðarsýn eða afgerandi verkum. Allt á að skoða og kanna, eins og forsætisráðherrann sagði í langhundi um ekki neitt í Kastljósi í síðustu viku.

mbl.is Standa við afsagnir sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför Jóhönnu að Ingimundi og Eiríki

Aðför Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að seðlabankastjórunum Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni sem hluta af augljósri pólitískri hefndarför að Davíð Oddsssyni er nauðaómerkileg. Litið er algjörlega framhjá því að Eiríkur og Ingimundur eru vel menntaðir hagfræðingar, grandvarir og heiðarlegir menn, og hafa starfað í Seðlabankanum áratugum saman; Eiríkur frá árinu 1969 og Ingimundur frá árinu 1972. Aldrei hefur komið fram af hverju þeir eiga að víkja og rökstuðningurinn er vægast sagt þunnur þrettándi og ekki tækur í raun.

Jóhanna sagði sjálf í vikunni að þeir hefðu staðið sig vel í embætti og ekki væri verið að finna að störfum þeirra. Hverju er þá verið að finna að? Hvers vegna eru hagfræðingar í fremstu röð sem hafa lengi unnið í bankanum hraktir út án þess að fyrir því séu einhver rök og haldbær málatilbúnaður. Vinnubrögð og verklag Jóhönnu er til skammar, enda er lágmark að fyrir ákvörðunum séu ástæður sem eru haldbærar en ekki blaður út i bláinn.

Því miður eru þetta hreinsanir og þær fara fram vegna haturs og hefnigirni í garð eins manns. Ekkert annað býr að baki.

mbl.is Vill að Eiríkur hætti strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn fer langt yfir strikið - embættið í rúst

Ólafur Ragnar Grímsson fór langt yfir strikið með því að tala um málefni Kaupþings í viðtali við þýsku útgáfu Financial Times, burtséð frá því hvað hann sagði. Blaðið stendur reyndar við umfjöllun sína og tekur ekkert mark á yfirlýsingum forsetans um að rangt hafi verið eftir honum haft. Eflaust væri réttast að blaðamaðurinn birti upptökur af viðtalinu svo við fáum að heyra. Mér finnst það eðlilegt næsta skref að allt liggi fyrir og þetta mál sé klárað hreint út en ekki með misvísandi yfirlýsingum forseta og blaðamanns.

Enginn vafi leikur á því að forsetinn er að leggja forsetaembættið í rúst með vanhugsuðum yfirlýsingum sínum og dómgreindarleysi. Þeir tímar eru löngu liðnir að forsetaembættið njóti virðingar og sé sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Á örfáum árum hefur Ólafur Ragnar lagt í rúst gott orðspor þess, einkum frá forsetatíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur, forseta sem risu yfir dægurþrasið og sameinuðu þjóðina jafnt á örlagatímum sem og í hversdagslegum aðstæðum.

Ólafur Ragnar ætti alvarlega að íhuga að segja af sér embætti til að lágmarka skaðann sem hann hefur valdið þjóðinni á alþjóðavettvangi með vanhugsuðu tali sínu.

mbl.is Skapstóri forsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hávær en fámenn mótmæli við Seðlabankann

Mér sýnist mótmælin við Seðlabankann vera mjög fámenn en hávær ef marka má myndir af vettvangi. Ég er reyndar alveg hissa hvað Sturla Jónsson hefur komist upp með það lengi að vera með hávaða úr loftlúðri sem yfirgnæfir allt í kringum hann. Þetta getur varla verið gott fyrir heyrnina hjá þeim sem eru að mótmæla, enda sýnist mér hundurinn sem neyddur er til vistar í þessum mótmælum flýja inn í bankann eftir skjóli frá hávaðanum.

En fámennur hópur getur vissulega framkallað mikinn hávaða og þetta er örugglega eitt besta dæmið um það í seinni tíð.

mbl.is Sturlu bannað að þeyta lúðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband