Jóhanna lætur undan þrýstingi spunameistaranna

Eftir miklar áskoranir og þrábeiðni flokksfélaga sinna hefur Jóhanna Sigurðardóttir, væntanlega af skyldurækni og tilneydd, skipt um skoðun og ákveðið að sækjast eftir flokksformennsku í Samfylkingunni. Fá ef nokkur dæmi eru um það í seinni tíð að einhver sækist eftir flokksformennsku án þess að vilja það í raun og veru og aðeins til að þóknast öðrum. Þetta eru fyrirsjáanleg endalok á hinum mikla spuna í Samfylkingunni um að Jóhanna taki að sér bráðabirgðaformennsku til að lægja öldur í flokknum, koma í veg fyrir að hann logi sundur og saman í ófriði.

Greinilegt er að allir óvinsælu foringjar Samfylkingarinnar ætla að komast á leiðarenda með því að svífa á vinsældum Jóhönnu. Hún á að leiða allt óvinsæla og gamla liðið, í ríkisstjórn á síðustu tveimur árum, aftur til valda. Þetta er svolítið kostulegt plott en mjög fyrirsjáanlegt, enda hefur enginn annar þennan styrkleika. Upphaflega átti að láta hana vera í hliðarhlutverki; fara í þingforsetaembættið á þessu ári og klára kjörtímabilið og ferilinn þar.

Nú er hún orðin ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar og sú sem getur leitt vagninn, hefur vinsældirnar sem hjálpar öllum þeim óvinsælu, t.d. Össuri sem fékk rassskell í prófkjörinu í Reykjavík, fékk aðeins þriðjung atkvæða í annað leiðtogasætið í Reykjavík. En Jóhanna er að verða 67 ára gömul, orðin greinilega svolítið þreytt og hugsar til pólitískra endaloka.

Hún verður því aðeins uppfyllingarefni um stund, á meðan valdabaráttan um forystuna er í raun geymd fram á næsta kjörtímabil. Jóhanna er hinsvegar gamalt andlit í pólitískri baráttu - hefur setið á þingi frá vinstrisveiflunni árið 1978, fór á þing með Vilmundi Gylfasyni, arkitekt þeirrar sveiflu, og hefur mikla reynslu að baki.

Slíkt er bæði kostur og galli á breytingaári í stjórnmálum. Við skulum samt ekki gleyma því að á meðan Jóhanna er klöppuð upp til forystu eru valdaátökin undir niðri. Þeim er ætlað að vera í aukahlutverki. Við skulum því hafa fókusinn á sviðinu öllu hjá Samfylkingunni.

Um leið og gamla baráttukonan er klöppuð upp til forystu, gegn vilja hennar, hefst baráttan um hver leiði flokkinn á næstu árum. Jóhanna verður aðeins biðleikur eftir þeirri forystu.

mbl.is Jóhanna svarar kalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Natasha Richardson látin - Redgrave-ógæfan

Natasha Richardson (1963-2009)
Þá er breska leikkonan Natasha Richardson, eiginkona leikarans Liam Neeson, látin, aðeins 45 ára að aldri. Þetta eru afar sorgleg endalok, en haldið var um stund í þá veiku von að hún myndi ná sér. Natasha Richardson var ekki aðeins heimsþekkt leikkona og gift frægum leikara, einum af þeim bestu í kvikmyndabransanum, heldur afkomandi þekktra leikara.

NR og Neeson
Móðir hennar er óskarsverðlaunaleikkonan Vanessa Redgrave, sem þekktust er fyrir óskarstúlkun sína í Juliu árið 1977, auk Agöthu og Howards End, og pólitíska þátttöku og umdeildar skoðanir, og faðir hennar var leikstjórinn Tony Richardson, sem hlaut leikstjóraóskarinn fyrir kvikmyndina Tom Jones árið 1963 og gerði t.d. ennfremur Blue Sky í upphafi tíunda áratugarins.

Vanessa Redgrave
Vanessa var eitt sinn í sambúð með Bond-leikaranum Timothy Dalton, og er auðvitað dóttir hins fræga breska leikpars Michael Redgrave (sem var einn besti leikari Bretlands fyrr og síðar) og Rachel Kempson. Natasha lék sjálf talsvert og átti ágætis feril, lék t.d. í myndinni um Patty Hearst og Nell (hún kynntist Neeson við gerð hennar) og Parent Trap.


Hún var samt alltaf í skugga systur sinnar, Joely, sem þekkt er fyrir leik sinn í Nip/Tuck og fjölda kvikmynda. Redgrave-ógæfan er orðin margfræg. Þó fjölskyldan hafi verið mjög fræg og verið ein sú traustasta í breskri leiksögu og orðið heimsfræg hefur hún orðið fræg fyrir persónulega erfiðleika og ólán í einkalífinu. 

Sjálf neitaði Natasha þessu oft og sagði þetta þjóðsögu. Sorgleg örlög hennar fær eflaust marga til að hugsa um Redgrave-ógæfuna.

mbl.is Natasha Richardson látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband