25.3.2009 | 20:02
Pólitískar ofsóknir gegn Vigdísi í ASÍ
Framkoma Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, við Vigdísi Hauksdóttur, þegar hann neitaði henni um launalaust leyfi vegna framboðs hennar, er lágkúruleg í alla staði. Þetta eru pólitískar ofsóknir af grófu tagi. Fjöldi vinstrisinnaðra starfsmanna ASÍ hafa farið í þingframboð og ekki hefur verið hróflað við þeim. Svo virðist vera sem það sé allt í lagi fyrir fólk á kontórnum hjá ASÍ að fara í framboð fyrir Samfylkinguna, en þeir eigi ekki séns hafi þeir flokksskírteini í öðrum flokkum upp á vasann og vilji pólitískan metnað þar.
Aumt yfirklór Gylfa í dag er ekki trúverðugt. Varla er hægt að afsaka ákvörðunina um að láta Vigdísi velja milli framboðs og starfsins síns á forsendum þess að leiðtogasæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður sé öruggt þingsæti. Jónína Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, var síðast í þessu leiðtogasæti og tókst ekki að komast á þing þó sitjandi ráðherra væri. Framsókn getur ekki gengið að neinu vísu í Reykjavík, þó þeir séu í borgarstjórnarmeirihluta. Framboð þar er alltaf áhætta.
Ekki er hægt að útskýra þessa niðurstöðu öðruvísi en sem það sé óeðlilegt fyrir starfsmenn ASÍ að hafa áhuga á framboði fyrir aðra flokka en Samfylkinguna. Þetta feilskot Gylfa færir okkur nýja sýn á hið margfræga lýðræði í Samfylkingunni. Hræsnin er mikil í því lýðræði.
![]() |
Leit á þátttöku sem uppsögn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 16:00
Geir kveður
Vissulega eru það tímamót í íslenskum stjórnmálum þegar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, kveður starfsvettvang sinn á Alþingi síðustu 22 árin og víkur af hinu pólitíska sviði. Geir hefur verið mjög áberandi í pólitískri þátttöku sinni síðustu þrjá áratugina, fyrst sem formaður SUS og síðar sem alþingismaður og forystumaður innan Sjálfstæðisflokksins, auk þess að vera ráðherra samfellt í rúman áratug.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur á pólitískum krossgötum nú þegar Geir Haarde kveður pólitíska forystu og Alþingi Íslendinga, sem hefur verið vinnustaður hans og vettvangur í rúmlega tvo áratugi. Hvað svo sem segja má um Geir Hilmar Haarde og forystuhæfileika hans er varla hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur.
Geir hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli og verið lykilþátttakandi í bæði farsælum og umdeildum verkum í forystusveit ákvarðanatöku í eldlínunni. Endalok ferilsins voru erfið fyrir hann og fjölskylduna, en ég vona að hann muni ná að sigrast á því meini sem hann berst við.
Fróðlegt verður að sjá hver pólitísk arfleifð Geirs Hilmars Haarde verði í sögubókum framtíðarinnar. Að mörgu leyti mun hún ráðast af niðurstöðu rannsóknarnefndar um bankahrunið og því hvernig gert verður upp við hina örlagamiklu tíma í vetur þegar samfélagið tók á sig höggið mikla.
Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Geir, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir. Ég óska honum allra heilla.
![]() |
Geir kvaddi á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 11:34
Sofið á verðinum í Icesave-málinu
Í fréttum undanfarna daga hefur verið vitnað í ummæli ráðamanna í aðdraganda hrunsins. Þar er sagt að ekkert hefði verið hægt að gera. Á hálfu ári hefði margt verið hægt að gera - það er aldrei til góðs að sofa á verðinum þegar þörf er á að fólk standi sig.
![]() |
Gátu sparað 444 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 02:29
Er Obama að missa tökin á ástandinu?
Ég hef sjaldan eða aldrei séð Obama forseta eins vandræðalegan og þegar Ed Henry, fréttamaður CNN, spurði hann hreint út á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld af hverju hann hefði beðið í nokkra daga með að fordæma bónusgreiðslurnar margfrægu í AIG. Svarið var: "It took us a couple of days because I like to think about what I'm talking about before I speak". Þvílíkt klúður.
Obama virðist vera að missa tökin á eigin flokki vegna efnahagstillagnanna. Gagnrýnin eykst þar dag frá degi. Kent Conrad var ekki að spara stóru orðin í gagnrýni sinni í dag. Þingleiðtogar demókrata eru að færa sig upp á skaftið í sínu hlutverki í þinginu og sýna æ meira sjálfstæði í garð forsetans.
Annars vakti mesta athygli við blaðamannafundinn að Obama sleppti að nota teleprompter, sem hafa orðið einkennismerki hans, enda fylgja þeir honum hvert sem hann fer. Hann virðist hafa fengið nóg af gríninu um að hann sé forseti telepromptera og notaði í staðinn í kvöld stóran skjá í salnum til að hjálpa sér við tjáninguna. Þvílíkt og annað eins.
Þegar líða tók á blaðamannafundinn sást þegar Rahm Emanuel, starfsmannastjóri Hvíta hússins, og Valerie Jarrett, ráðgjafi forsetans, létu Blackberry-síma ganga á milli sín til að slá inn texta á skjáinn fyrir forsetann. Það gerist margt bakvið tjöldin hjá þessum forseta.
Varla furða að Bill Bennett sagði eftir blaðamannafundinn að Obama hefði helst viljað fara að sofa eftir spurningu Ed Henry sem hitti hann illa fyrir. Mér sýnist að ástarsambandi fjölmiðla við Obama sé formlega lokið.
![]() |
Obama hringdi út í geim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)