11.4.2009 | 18:51
Guðlaugur Þór hvatti stjórnendur til að styrkja
Ég tel að þetta mál hafi skaðað Sjálfstæðisflokkinn gríðarlega. Fyrir öllu er að afhjúpa alla þætti þess og gera það algjörlega upp. Ég finn það þó á fjölda fólks að því finnst þetta vandræðaleg redding mun frekar en endanleg niðurstaða málsins. Mér finnst mikilvægt að menn sem tóku þessar ákvarðanir, tóku við styrkjunum og höfðu milligöngu um það axli ábyrgð. Á meðan svo er ekki vofir þetta leiðindamál yfir.
Hvað sjálfan mig varðar hef ég verið flokksbundinn sjálfstæðismaður frá árinu 1993, gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann og stutt forystumenn hans í góðri trú. Mér finnst margir hafa brugðist trausti mínu og trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins hefur beðið hnekki vegna siðleysis þeirra sem voru við völd í flokknum. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að margir hafi brugðist í þeim efnum.
Ég finn vel að þeir sem hafa stutt flokkinn og talað máli hans eru illa sviknir yfir vinnubrögðunum. Eðlilegt er að þetta fólk hafi tjáð sig afdráttarlaust og sé nóg boðið. Nú verður að ráðast hvort þessi niðurstaða sé nægileg til að forðast alvarlegan álitshnekki. Ég efast um það, satt best að segja að nóg hafi verið gert.
![]() |
Söfnuðu fé fyrir flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2009 | 15:51
Trúverðugleikinn í húfi - afhjúpa þarf málið
Mér finnst mjög mikilvægt að þessi saga verði öll afhjúpuð. Hann verður þá að gefa upp hverja hann hafði samband við og tóku þetta verkefni af sér. Þetta styrkjamál er því miður ekki eitt óútskýrt, enda er öllum ljóst að talað er um tengslin þar við REI-málið og átakapunkta þess. Þar brugðust forystumenn Sjálfstæðisflokksins og véluðu óeðlilega um lykilmál í óheillabandalagi með auðmönnum.
Um helgina verður að afhjúpa um alla þræði þessara mála og klára það með trúverðugum hætti. Kominn er tími til að nöfn verði afhjúpuð og allt lagt á borðið, ekki bara nokkrir hlutar atburðarásarinnar. Trúverðugleikinn er undir í þessu máli. Án hans á Sjálfstæðisflokkurinn ekki möguleika á að endurheimta traust almennra flokksmanna.
![]() |
Guðlaugur ítrekar fyrri yfirlýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2009 | 13:47
Göngum hreint til verks!
Ég bíð enn eftir því að forysta Sjálfstæðisflokksins gangi hreint til verks og klári styrkjamálið með sóma, fyrir flokksmenn um allt land og þá sem hafa stutt þennan flokk í góðri trú á hugsjónir og stefnumál hans í gegnum árin. Engin ró mun skapast um þetta mál á meðal almennra flokksmanna fyrr en upplýst hefur verið hvernig staðið var að málum, hverjir sóttu þessa styrki til fyrirtækjanna og höfðu milligöngu um það.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná að fóta sig sem trúverðugt afl fyrr en það er að baki og ljóst hvernig þetta var gert. Eðlilegast væri að þeir sem höfðu beina milligöngu í þessum efnum stígi fram og taki ábyrgð. Annars mun tortryggnin og efinn skaða meira en orðið er. Almennileg vorhreingerning er það sem skiptir meginmáli nú.
Ég tel mikilvægast að allir sem bera ábyrgð axli hana, flokksins vegna. Allar hundakúnstir bakvið tjöldin til að forðast það uppgjör er dæmd til að mistakast hrapallega.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |