Atburðarásin í styrkjamálinu skýrist

Mér finnst mjög mikilvægt að það sé orðið opinbert að hvorki Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir né Kjartan Gunnarsson hafi vitað af styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Mér finnst það mjög alvarlegt mál að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri hans hafi vélað um þessi mál án þess að hafa aðra í forystunni með í ráðum og reynt að hylma yfir slóðina, eins og skilja má af fréttaflutningi síðustu daga. Atburðarásin í málinu skýrist því óðum og nöfn þeirra sem höfðu frumkvæði að styrkjunum og voru milliliðir hafi komið fram.

Þetta mál tengist aðallega Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem leitaði eftir því að styrkjum yrði aflað og ennfremur voru formaður flokksins og framkvæmdastjóri greinilega vel meðvitaðir um hvað var að gerast, án þess að aðrir í forystusveitinni fengju að vita af því. Mér finnst þessi vinnubrögð vægast sagt ámælisverð. Þetta er siðleysi af verstu sort og mér finnst þeir ekki beint merkilegir sem höfðu aðild að málinu. Þetta er siðlaus verknaður og auðvitað er talað um að þetta hafi verið mútur eða óeðlilegar greiðslur. Tengslin inn í REI tryggja það.

Mér fannst kattaþvottur Geirs H. Haarde fyrir nokkrum dögum með hreinum ólíkindum. Þeir hljóta að vera eitthvað veruleikafirrtir sem töldu að slíkur kattaþvottur hafi getað tekið á málinu og klárað. Fréttaflutningur Morgunblaðsins var líka til sóma, enda fæ ég ekki betur séð en fréttaskrif Agnesar Bragadóttur hafi verið algjörlega rétt og fréttin vel unnin hjá henni, enda rétt.

Það var mjög mikilvægt að almennir flokksmenn væru upplýstir um þetta alvarlega siðleysi sem átti sér stað á vaktinni hjá Geir Haarde og þeim sem unnu í umboði hans. Ábyrgð Guðlaugs Þórs er öllum ljós og í raun má segja að það sé flokknum til vansa að hann hafi ekki vikið með heill og hag flokksins að leiðarljósi.

mbl.is Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkjamálið eltir flokkinn í kosningabaráttuna

Enginn vafi leikur á því að styrkjamálið mun hundelta Sjálfstæðisflokkinn inn í kosningabaráttuna. Þar sem ekki var gengið hreint til verks og málið klárað algjörlega tekur forysta flokksins í Reykjavík og á landsvísu talsverða áhættu, ekki aðeins fyrir sig heldur og frambjóðendur í baráttusætum um allt land, til að þóknast nokkrum mönnum sem sumir telja ekki hægt að fórna þó þeir hafi staðnir að tvískinnungi og því að fara ekki rétt með mikilvæga þætti atburðarásarinnar og verið teymdir út á braut sannleikans í erfiðu máli á viðkvæmum tíma.

Vel má vera að einhverjir telji rétt að taka þessa áhættu vitandi að hún getur farið á versta veg, ekki aðeins fyrir þá sem komu ekki hreint fram heldur flokksheildina sem slíka. Þeir sem taka svona á málum hafa gleymt hinum margfrægu orðum fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins að enginn einn maður sé merkilegri en sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn. En það er kannski eftir öðru að það gerist aftur. Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson klikkaði sem leiðtogi flokksins í borgarmálunum var löngum tíma varið í að reyna að bjarga honum án árangurs.

Ég er einn af þeim sem þykir mjög vænt um Sjálfstæðisflokkinn, hef verið þar lengi flokksbundinn og lagt honum margt til, bæði persónulega í innra starfinu með trúnaðarstörfum, að mörgu leyti óeigingjörnum, og ég hef kosið hann og talað máli hans árum saman í góðri trú. Vægt til orða er tekið að ég sé hundfúll með hvernig staðið var að málum. Ég er þó líka ósáttur við niðurstöðuna. Það er skítalykt af henni.

Ég er ekki sannfærður um að styðja Sjálfstæðisflokkinn að þessu sinni. Þeir sem geta ekki gengið hreint til verks eiga ekki að auglýsa sig undir því slagorði.

mbl.is Nöfn fyrirtækja ekki rædd í miðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband