Guðlaugur Þór dregur flokkinn með sér í svaðið

Augljóst er að atburðarás helgarinnar hefur í engu klárað styrkjamálið í Sjálfstæðisflokknum, eins og ég spáði í gær. Þetta bara versnar og versnar fyrst ekki var tekið afdráttarlaust á málinu strax. Vandséð er hvernig flokksbundnir sjálfstæðismenn geti sætt sig við að Guðlaugur Þór Þórðarson leiða lista flokksins í Reykjavík suður eftir allt sem á undan er gengið, ef heill og hagur flokksins á að vera í fyrirrúmi.

Mér þykir tengslin við REI-málið orðin ansi augljós og eina leiðin til að slá á efasemdir um tengsl Vilhjálms og Guðlaugs er í raun að opna prófkjörsbókhaldið, ef þeir vilja hreinsa sig alveg. Þessi augljósa spilling og efasemdir um mútur munu ekki verða hreinsaðar af Sjálfstæðisflokknum svo glatt. Sukk og svínarí nokkurra manna og efasemdir um verklag þeirra hefur rýrt traust á flokknum umtalsvert.

Guðlaugur Þór fer með mál sitt til Ríkisendurskoðunar. Stóri vandi hans og Sjálfstæðisflokksins er þó sá að alþingiskosningar verða eftir tólf daga. Það er ekki tími til annars en taka stórar ákvarðanir og klára málið fumlaust, eitthvað sem átti að gera um helgina en mistókst því ekki var gengið hreint til verks.

mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiður og siðferði verður undir í siðleysinu

Ég er sammála Birni Bjarnasyni um að heiður Sjálfstæðisflokksins verður ekki metinn til fjár. Í gegnum áttatíu ára flokkssögu hafa kjósendur treyst forystumönnum hans fyrir því að leiða íslensk stjórnmál. Ofurstyrkirnir hafa reynt á siðferði þeirra sem treyst var fyrir heiðri flokksins á undanförnum árum en stóðu ekki undir því trausti, því miður, og skilja við flokkinn í mjög vondri stöðu.

Vissulega er þetta mál dapurlegt fyrir flokksheildina en það afhjúpar því miður spillt og rotin vinnubrögð sem eru engum til sóma, allra síst þeim sem fjöldi sjálfstæðismanna um allt land treysti af heilindum og einlægni. Margir styðja sjálfstæðisstefnuna af hugsjón og hafa lagt mikið á sig fyrir þennan flokk á þeim forsendum en ekki til að flækjast inn í sukk og svínarí nokkurra manna.

Pistill Björns er annars áhugaverð samantekt á atburðarás helgarinnar og setur hlutina í gott sjónarhorn. Sérstaklega fannst mér merkilegt að lesa sjónvarpsviðtölin við Guðlaug Þór, sjá áherslurnar og tjáninguna á vissum stöðum á prenti. Stundum er betra að lesa viðtöl en hlusta á þau.

En að öðru; ég hló aðeins þegar ég opnaði páskaeggið mitt í dag. Málshátturinn var: Margur verður af aurum api. :)

mbl.is Heiður Sjálfstæðisflokksins ekki metinn til fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband