Ingibjörg Sólrún sótti styrki til fyrirtækja

Mér fannst holur hljómur í iðrun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, þegar talið barst að styrkveitingum til Samfylkingarinnar. Hún sótti jú sjálf styrki til fyrirtækja og hafði milligöngu um að vinna í þeim málum, eitthvað sem Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði ekki. Þó vinnubrögðin í Sjálfstæðisflokknum séu ámælisverð, enda hef ég gagnrýnt þau æ ofan í æ, gekk Ingibjörg Sólrún mun lengra en Geir gerði nokkru sinni. Mér finnst hálfskrítið að hlusta á það núna að þetta hafi verið óheppilegt.

Ég get ekki skilið hvernig siðferðið hefur breyst á þessum tíma. Það sem er rangt núna og siðlaust hlýtur að hafa verið siðlaust og ómerkilegt að öllu leyti á þessum tíma sem um ræðir, á árinu 2006. Mér finnst siðferði ekki eiga að vera tískustraumur. Annað hvort gera stjórnmálamenn hlutina vel og fylgja sannfæringu sinni og hafa siðferðið í lagi eða þeir eru handónýtir og nauðaómerkilegir. Iðrun núna breytir afskaplega litlu þegar siðferðið er annars vegar. Annað hvort standa stjórnmálamenn í lappirnar eða falla flatir niður.

Siðferði á ekki að vera aukaatriði í stjórnmálum.

mbl.is Ingibjörg: Styrkir til flokksins óeðlilegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum

Augljóst er af skoðanakönnun Gallups í Reykjavík norður að fylgið er að hrynja af Sjálfstæðisflokknum eftir atburði síðustu dagana. Fólk sættir sig ekki við þau vinnubrögð sem tengjast nokkrum mönnum innan Sjálfstæðisflokksins og hugsar sér til hreyfings, hvort sem það eru almennir kjósendur úti í bæ eða fólk sem hefur verið flokksbundið í Sjálfstæðisflokknum lengi.

Þetta eru alvarleg skilaboð til forystu Sjálfstæðisflokksins, sem mikilvægt er að hugsa vel um áður en næstu skref verða ákveðin. 

mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór á að opna prófkjörsbókhaldið

Þá er ljóst það sem öllum mátti ljóst vera strax í gær. Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild til að taka út störf Guðlaugs Þórs hjá Orkuveitunni. Þessi tilraun til að þvo af sér skítinn virkaði ekki, enda fyrirfram dæmd til að ganga ekki upp að því leyti að klára málið. Eina leiðin fyrir Guðlaug Þór til að bjarga sjálfum sér er að leggja sjálfur spilin á borðið. Hann á að opna prófkjörsbókhaldið frá árinu 2006 og sýna hverjir voru helstu bakhjarlar hans á þeim tíma í persónulegri pólitískri baráttu. Á meðan svo er ekki mun vafinn naga bæði hann og flokkinn inn að beini.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ákaflega litla þolinmæði fyrir því að horfa á svona skítabix halda áfram að versna og versna þegar ellefu dagar eru til þingkosninga. Þetta er átakanlegt mál fyrst og fremst fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst alveg óþarfi að vera að hugsa um einstaka persónur umfram flokkshag. Að þeir sem komnir eru í svona fúafen skuli leyfa sér að draga flokkinn með sér í því falli eru ekki merkilegir í mínum augum.

Þetta mál þarf að klára fljótt og vel. Geti Guðlaugur Þór ekki opnað bókhaldið og sýnt á sín spil strax á hann að sjá sóma sinn í að víkja, flokksins vegna.

mbl.is Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband