Enn eitt fíkniefnamálið fyrir austan

Mjög vel gert hjá lögreglunni að koma upp um fíkniefnasmyglið fyrir austan. Lögregluyfirvöld eru orðin vön að taka á stórum málum af þessu tagi. Nokkur slík hafa komið upp á Seyðisfirði, stórt fíkniefnamál þar sem smyglað var dópi í skútu kom upp haustið 2007 á Fáskrúðsfirði og öll munum við eftir fíkniefnamálinu 2004 á Neskaupstað, líkfundarmálið svokallaða.

Þetta er gott dæmi um hversu mikill fíkniefnavandinn er orðinn í íslensku samfélagi. Mjög gott er að löggan standi sig og komi upp um slík mál og er þeim til mikils sóma að standa vaktina vel.


mbl.is Yfir 100 kg af fíkniefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján og Jóhanna í Dótakassanum

dotakassi samfo
Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá að myndir af Kristjáni Möller og Jóhönnu Sigurðardóttur voru komnar utan á Dótakassann, verslun sem var rekin í miðbænum hér á Akureyri.

Þessi flotta mynd Sverris Páls Erlendssonar, kennara, segir meira en mörg orð. Kristján og Jóhanna í Dótakassanum.

Hitt er svo annað mál að ömurlegt er að sjá verslun á besta stað í bænum hverfa. Það leiðir hugann að stöðunni.

Hugleiðingar um Draumalandið

Ég fór í Borgarbíó í dag og horfði á Draumalandið, mynd Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar, í boði Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna, félagi sem ég var formaður í forðum daga. Mér fannst það flott hjá Varðarfólki að bjóða fólki á þessa mynd og um leið fá Tryggva Þór til að tala um myndina frá sinni hlið, fá alvöru umræður. Þetta var mjög vel heppnað, þó það hafi greinilega stuðað vinstri græna hér á Akureyri en þeir ætluðu að fara af límingunum vegna þess að ungum sjálfstæðismönnum datt þetta í hug á undan þeim. Vel gert hjá mínum félögum í mínu gamla og góða félagi.

Mér fannst Draumalandið að mörgu leyti flott mynd - það er hugsjónaneisti í henni. Hún er vel klippt og byggð upp með traustum baráttupunktum þar sem einlæg tjáning fær notið sín. Alltaf gott að hugsjónafólk tjái skoðanir sínar og berjist fyrir einhvern málstað, ekki hægt að kvarta yfir því. Þeir sem eru ósammála eiga þá bara að feta sömu slóð og vekja athygli á sínum skoðunum. Við eigum aldrei að nöldrast yfir því að fólk hafi skoðanir, heldur þá tækla umræðuna ef við höfum eitthvað fram að færa.

Eitt fór mjög í taugarnar á mér þegar ég horfði á Draumalandið og mér fannst alveg ömurlegt að horfa á. Það var hvernig var talað niður til fólks á landsbyggðinni sem vildi uppbyggingu í sínu héraði, lagði gott til málanna og var annt um velferð síns svæðis. Barátta þeirra er vel skiljanleg, þetta er lífsbarátta sem skiptir heimamenn miklu máli. Hrein lágkúra er að gera grín eða berja á þeim sem af einlægni hafa unnið að hagsmunum landsbyggðarinnar á jákvæðum forsendum.

Mér fannst eiginlega verst af öllu að sjá viðtal við frænda minn, Sigtrygg Hreggviðsson á Eskifirði, fært upp í einhvern lélegan gamanleik og reynt að láta hann líta illa út. Diddi er mikill sómamaður með miklar skoðanir en hann hefur aldrei viljað neitt nema gott fyrir sína byggð og hann hefur verið einlægur í að tjá sínar skoðanir með málefnalegum hætti og er ekki þekktur fyrir neitt nema að vera vandaður og heiðarlegur maður.

Mér fannst vel gert að rekja sögu þessara verkefna í tímaröð og fara yfir sögu umdeildra mála. Sumt er ansi skondið og jákvætt, annað kemur út eins og kvikindisskapur. Eitt af því síðarnefnda var hvernig gert var lítið úr Guðmundi Bjarnasyni, fyrrverandi bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ég hef ekki verið sammála Guðmundi í hans pólitík, en hann hefur unnið sín verk af heiðarleika og staðið sig vel fyrir íbúa á þessu svæði.

En ég hvet alla til að sjá Draumalandið. Þar eru fallegar myndir af íslenskri náttúru. Þessi mynd fær alla til að hugsa málin frá byrjun, bæði með jákvæðum og neikvæðum hætti. Það er allt í lagi. En það er eins með þessa mynd og þær sem Michael Moore hefur gert - þær eru ágætt sjónarhorn en fjarri því hlutlausar. Þetta er hugsjónamynd með ákveðinn fókus og fjarri því hlutlaus.


Bloggfærslur 19. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband