Skellur fyrir siðapostula í Samfylkingunni

Mér finnst það táknrænt að þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem mest hafa talað um gegnsæi og heiðarleika séu nú staðnir að því að hafa fengið háa styrki frá Baugi og FL Group, án þess að hafa sjálf gefið það upp. Þau eru teymd á braut sannleikans af fjölmiðlum. Þetta lyktar því miður af mútum, enda upphæðirnar háar og tengslin vekja grunsemdir.

Mér finnst samt merkilegt að þessir þingmenn hafa gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir lokað bókhald og leynivinnubrögð. Þau fá heldur betur skellinn fyrir sitt lokaða bókhald.

mbl.is Steinunn Valdís fékk fjórar milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins í RS

Staða Sjálfstæðisflokksins í einu helsta lykilvígi sínu, Reykjavík suður, undir forystu Guðlaugs Þórs er alveg skelfileg. Eðlilegt væri að þeir sem töldu í lagi að horfa fram hjá styrkjamálinu eins og ekkert hafi gerst og sætta sig við það sem þar kom fram og horfa fram á veginn sætti sig við að fólk skrifar ekki upp á þessi vinnubrögð. Ég skrifaði fjölda pistla um páskana þar sem ég sagði að mikilvægt væri að menn öxluðu ábyrgð, flokksins vegna.

Slíkt fylgishrun í því kjördæmi sem viðkomandi maður leiðir þarf því varla að koma að óvörum, enda flokkurinn að missa nærri helming fylgisins. Þessi niðurstaða hlýtur að vekja spurningar um hvað hefði verið réttast fyrir flokkinn í þessari stöðu. Vonlaust er að búast við að kjósendur skrifi upp á leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu eftir það sem á undan er gengið.

Eðlilegt er því að velta fyrir sér hvort hann verði strikaður út og færður neðar á listann af kjósendum sjálfum.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur tapar miklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hulunni svipt af styrkjum - Jóhanna styrkt af Baugi

Ég fagna því að hulunni sé svipt af leyndardómnum um styrkina fyrst stjórnmálamenn vilja ekki ganga hreint til verks og upplýsa upphæðir og helstu staðreyndir málsins. Kom mér mest á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir tók við styrki frá Baugi. Mér finnst nú heldur vera farið að slá á þá ímynd Jóhönnu að vera á móti spillingu og hún vilji allt upp á borðið. Af hverju sagði hún fólkinu í landinu ekki frá þessu sjálf í stað þess að vera teymd á braut sannleikans af fjölmiðlum?

Nú staðfestist endanlega að Guðlaugur Þór Þórðarson fékk mjög háa styrki frá stórfyrirtækjum sem kemur í viðbót við styrkjamálið í Sjálfstæðisflokknum um páskana. Enginn vafi leikur á því að staða Guðlaugs Þórs hefur veikst í þessu máli, enda vonlaust að telja fólki trú um að svo háar styrkjagreiðslur hafi ekki verið á vitorði innan framboðsins og frambjóðandinn hafi ekki vitað af þeim. Þetta lyktar því miður af því að menn hafi hreinlega verið keyptir.

Margar beinagrindur virðast vera í skápnum og æ augljósara að Samfylkingin mun eiga erfitt með að svara fyrir styrki til sinna frambjóðenda, enda heyrist lítið t.d. í þeim siðapostulum sem hæst hafa talað um siðferði en vilja ekki leggja spilin á borðið, t.d. heilagri Jóhönnu sem var styrkt af Baugi.

mbl.is Guðlaugur fékk 4 milljónir í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur Jóhanna ekki tjáð sig á ensku?

Ég er ekki undrandi á því að erlendir fjölmiðlar séu farnir að velta því fyrir sér hvers vegna Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi ekki veitt erlendum fjölmiðlum viðtöl og hafi ekki haldið blaðamannafundi á ensku. Erlendir fjölmiðlar hafa enda engu minni áhuga á stöðu mála hér nú en í haust þegar erlenda pressan sat fyrir Geir Haarde og hann varð að tala jafnt til hennar og þeirrar íslensku. Á þeim tímum þegar pólitíska forystan á Íslandi þarf að tala og reyna að byggja upp traust og endurheimta styrk á alþjóðavettvangi dugar ekki að hún sitji þögul hjá.

Miklar kjaftasögur hafa gengið um að Jóhanna sé varla talandi á ensku, hafi viljað ávarpa leiðtogafund NATÓ fyrir nokkrum vikum á íslensku en verið hafnað og hafi við svo búið hrökklast frá því að fara á fundinn. Mikilvægt er að Jóhanna afsanni þessar sögur og sýni að hún ráði við verkefnið að tala til útlendinga engu síður en okkur Íslendinga. Reyndar má deila um hversu afdráttarlaust Jóhanna hefur talað við okkur hérna heima, en mér finnst það ekki gott veganesti að talað sé um að forsætisráðherra geti ekki haldið uppi samtali á ensku.

Þessi viðbrögð Jóhönnu hleypa aðeins lífi í kjaftasögurnar um að hún sé varla talandi á ensku. Mér finnst eðlilegt að við gerum þá sjálfsögðu kröfu til forystumanna á Íslandi að þeir geti talað á ensku við fjölmiðlamenn. Slíkt er lágmarkskrafa. Margir gerðu þá kröfu til Geirs í mestu krísunni að hann talaði við erlendu pressuna og algjör óþarfi að gera minni kröfur til eftirmanns hans.


mbl.is Þögn Jóhönnu til umræðu í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn verða að leggja allt á borðið

Frétt kvöldsins um að FL Group og Baugur hafi styrkt frambjóðendur í prófkjörum árið 2006 staðfestir illan grun um óeðlileg afskipti og stjórnmálamenn hafi hreinlega verið keyptir. Mikilvægt er að þessir stjórnmálamenn og allir aðrir sem voru í prófkjörsslag í aðdraganda þingkosninganna 2007 leggi allt bókhald sitt á borðið og opni upp á gátt. Fyrr verður ekki sátt í samfélaginu um þessi mál en allt hefur verið opinbert.

Þeim stjórnmálamönnum sem nefndir eru og öðrum í hörðum og dýrum prófkjörsslag ætti að vera greiði gerður að opna allt hafi þeir ekkert að fela. Siðferðisleg skylda þeirra er að tala hreint út til kjósenda og sýna okkur á bakvið tjöldin í prófkjörsbókhaldið. Ekkert annað boðlegt í þessari stöðu.

Ef þeir vilja ekki sýna okkur bókhaldið og sverja fyrir þessa styrki eiga þeir að hugsa sinn gang. Þessi frétt opnar allavega ljót baktjaldavinnubrögð og sýnir að það er fjarri því bara tengt Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband