Vinstrisælan dvínar - barist um ESB-áherslur

Augljóst var að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru ekki beint í sæluvímu yfir sögulegum sigri vinstriaflanna í Sjónvarpinu í kvöld, sem geta í fyrsta skipti í lýðveldissögunni unnið saman án aðkomu annarra. Lítið var um bros og gleði í andlitum vinstrileiðtoganna. Augljóst er að Evrópumálin verða mjög erfitt viðfangsefni í stjórnarmyndunarviðræðum og greinilegt að VG ætlar að berjast fyrir sínum áherslum og taka slaginn við Samfylkinguna.

Á meðan minnir Jóhanna á afarkostina sem mótaðir voru innan flokksins og nefnir aðra valkosti til að niðurlægja vinstri græna. Hún getur myndað sob-stjórn með Framsókn og Borgarahreyfingu. Slík stjórn yrði þó aldrei mynduð um annað en ESB og myndi ekki verða langlíf en myndi þjóna sínum tilgangi, einnota tilgangi, fyrir Samfylkinguna um ferðina til Brussel, mekka Samfó.

Nú ræðst hvor verður að gleypa stoltið. Ekki verður bæði sleppt og haldið þegar um afarkosti frá báðum áttum er að ræða. En kannski er það nú bara svo að vinstrimenn geta ekki unnið saman, frekar en fyrri daginn og spili þessum sigri út úr höndunum á sér. Þeir gerðu það 1978 og eru sérfræðingar í að spila tromp af hendi.

mbl.is Getum valið úr öðrum kostum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrún fellur af þingi - bjartur punktur í myrkri

Bjartasta ljósið í myrkrinu í þessum þingkosningum er að mínu mati fall Kolbrúnar Halldórsdóttur af Alþingi. Aðrar kosningarnar í röð fellur umhverfisráðherra af þingi. Margir stjórnmálaáhugamenn hljóta að gleðjast yfir því að Kolbrún kveður þingið og málflutningur hennar hverfi úr þingsölum. Kemur svosem varla að óvörum, enda hefur hún verið að veikjast í sessi, ekki síst innan eigin flokks, og mældist nýlega óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Auk þess klúðraði hún sínum málum endanlega með yfirlýsingunni um Drekasvæðið.

Þetta kemur í kjölfarið á varnarstöðu hennar gegn álverum og tali gegn atvinnusköpun tengdri stóriðju síðustu vikurnar sem umhverfisráðherra þar sem hún gleymdi sér í eigin heift gegn uppbyggingu á landsbyggðinni og atvinnusköpun frá 101 sjónarhorninu. Langt er síðan einn ráðherra hefur beitt sér jafn mikið gegn augljósum meirihlutavilja í þinginu. Þar talaði hún gegn uppbyggingu á Austurlandi, álverinu í Helguvík og því að horfa til vilja íbúanna í Húsavík og nærsveitum.

Ég fann það síðustu dagana að Kolbrún var orðin landlaus í pólitík, ekki aðeins andstæðingar hennar í pólitík heldur og líka samherjar hennar sneru við henni baki. Kannski er það henni að þakka að Sjálfstæðisflokkurinn varð stærri en VG. Vinstri grænir eru reyndar sérfræðingar í að klúðra kosningabaráttu og þeim tókst það hjálparlaust í síðustu vikunni. Við þökkum Kolbrúnu fyrir sitt framlag í þessari útkomu.

mbl.is Ráðherra féll af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Særindi Vilhjálms - uppgjörið á landsfundi

Ég skil vel særindi Vilhjálms Egilssonar frá landsfundi þar sem Davíð Oddsson gagnrýndi hann harkalega og sparaði ekki stóru orðin í persónulegu uppgjöri við hann. Mikil og barnaleg einföldun er þó að telja að Davíð Oddsson hafi tapað þessum kosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Forystan sem Geir H. Haarde leiddi í flokknum brást algjörlega, ekki aðeins trausti flokksmanna heldur og þjóðarinnar. Sú forysta fékk afgerandi umboð í kosningunum 2007 en glutraði því algjörlega niður.

Eitt get ég svosem sagt um gagnrýni Villa Egils. Davíð gekk of langt í orðavali um Villa og störf endurreisnarnefndarinnar. Uppgjör þeirrar nefndar var mikilvægt, ekki aðeins nú heldur til framtíðar. Þar var fortíðing gerð upp. Það var ekki aðeins nauðsynlegt, heldur lykilatriði til að ná trúverðugleika á komandi árum. En það er aðeins fyrsta skrefið. Mikið og langt verkefni tekur við hjá nýrri forystu að hreinsa til eftir þá forystumenn sem brugðust sjálfstæðismönnum og landsmönnum öllum.

mbl.is Davíð eyðilagði landsfundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrisveifla - sögulegt afhroð Sjálfstæðisflokks

Úrslit kosninganna eru gríðarlegur rassskellur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann glataði trausti landsmanna á síðustu tólf mánuðum og fær að mörgu leyti verðskuldaðan skell, sem er skellur fyrrum forystu flokksins og tilheyrir röngum ákvörðunum og siðleysi hans eins og ég hef áður farið yfir í bloggfærslu hér. En í myrkri sögulegs afhroðs felast samt mikil tækifæri sem þarf að nýta. Nú reynir á nýja forystu og leiðsögn hennar til flokksmanna og hvort henni tekst að endurvinna traust til flokksins.

Samfylkingin vinnur sögulegan sigur, sigur sem að mínu mati er persónulegt afrek Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún dró vagninn fyrir flokk sinn og uppsker mjög ríkulega. Landsmenn treysta henni og vilja fela henni leiðsögn. Nú reynir á hina 67 ára gömlu Jóhönnu og hvort hún stendur undir umboðinu og hafi styrkleika til að færa þjóðinni trausta forystu.

Vinstri grænir ná ekki þeim sigri sem var í kortunum fyrir þá lengst af. Þeir klúðruðu sínum málum í lokavikunni. Enn einu sinni mistekst þeim að klára kosningarnar sér í vil. Steingrími J. mistekst ætlunarverkið þó hann hafi unnið stóran sigur hér á heimavelli. Þetta er súrsætur sigur fyrir hann í raun.

Framsókn stimplar sig inn og fer nærri því að endurheimta þann styrk sem Halldór Ásgrímsson hafði í kosningunum 1999 og 2003. Sigmundur Davíð fær umboð á höfuðborgarsvæðinu sem er honum og flokknum mikilvægt.

Borgarahreyfingin fær umboð á höfuðborgarsvæðinu en mistekst að stimpla sig inn á landsbyggðinni - Frjálslyndi flokkurinn deyr. Simple as that. En við bíðum leiðarlokanna. Enn getur margt gerst.

Heildarmyndin er þó skýr. Vinstristjórn tekur við með afgerandi umboð, en nú reynir á gamalgróna liðið í forystunni þar. Þau voru þreytulegt vinstraparið í kvöld og ekki líkleg til afreka.

mbl.is Þorgerður: Tvö til hægri og eitt til vinstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband