L-listinn gefst upp - sterk staða fjórflokksins

Ég er ekki undrandi á því að L-listinn hafi gefist upp á þingframboði. Í kappi við tímann er nær vonlaust fyrir ný framboð að taka slaginn við rótgróin framboð og þarf mikla maskínu, bæði mannafla og peninga til að taka þann slag. Kannanir gefa til kynna að þetta verði kosningar fjórflokksins. Þeir muni styrkjast á kostnað fimmta flokksins sem verið hefur á þingi síðustu tíu árin og nýju framboðin nái engu flugi. Þegar er Borgarahreyfingin t.d. farin að dala í könnunum, hvað svo sem síðar verður.

Þegar safna þarf rúmlega 2500 meðmælendum á landsvísu á nokkrum vikum og ná 126 manns í framboð þarf mjög trausta maskínu. Grasrótarsamtök eða framboð virðast eiga erfitt með að ná þeim stuðningi. Eftir því sem ég heyri gengur misjafnlega að safna meðmælendum fyrir nýju framboðin. Þeir sem áður töluðu um að það yrði lítið mál eru þegar farnir að kvarta yfir því að það gangi brösuglega.

Mér sýnist að þessar kosningar muni mun frekar snúast um hvernig styrkleikahlutföll breytast meðal fjórflokksins frekar en hverjir aðrir nái inn í þá mynd. Við sjáum hvað setur. Það eru aðeins 22 dagar til kosninga og lítill tími til stefnu fyrir ný nöfn í nýjum framboðum að stimpla sig inn. Ákvörðun L-listans er fyrsta veruleikamerkið um það.

mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt forstjóraval - móða og stórfiskar

Ég verð að viðurkenna að val ríkisstjórnarinnar á Gunnari Andersen sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins kom mér nokkuð á óvart. Enda hafði ég eins og fleiri átt von á að ríkisstjórnin tæki pópúlismann á þetta og myndi velja Vilhjálm Bjarnason sem forstjóra. Gunnar er mun minna þekktur og t.d. það lítið þekktur að engin nógu stór mynd er til af honum enda er hann í móðu bæði á fréttavef Moggans og vísis.is.

Vona samt að Gunnari gangi vel. Hans bíða mikil verkefni hjá Fjármálaeftirlitinu, eftir að síðasti viðskiptaráðherra skildi FME eftir nær stjórnlaust fyrir nokkrum vikum. Ég vona að Gunnar muni hafa annað að gera en nornaveiðar á fjölmiðlamönnum. FME hlýtur að geta elt uppi stærri fiska í sjónum en þá.

mbl.is Gunnar Andersen forstjóri FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlegur flótti á Suðurnesjum

Ekki er hægt annað en kenna eilítið í brjósti um lögreglumennina á Suðurnesjum sem misstu belgíska fangann úr varðhaldi. Þetta er mjög neyðarlegt klúður. Þessi flótti er ekki síður vandræðalegur en þegar löggan í Reykjavík missti Annþór Karlsson úr haldi með miklum mistökum. Vonandi tekst að handsama fangann og ljúka þessu máli með sóma.

Lögreglan getur vissulega gert mistök. Mistök hennar verða þó neyðarlegri en ella í svona tilfellum. Vonandi tekst þó að leysa úr þessari vandræðalegu flækju.

mbl.is Enn leitað að Belganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband