Óþolandi neyslustýring vinstri grænna

Ef það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hafa fulltrúar vinstri grænna minnt á sig og lífsskoðanir með því að reyna að hafa vit fyrir fólki með neyslusköttum. Ömurlegt er að heyra boðskapinn frá Ögmundi Jónassyni. Þetta er ekta vinstrisinnuð pólitík, ríkið eigi að hugsa fyrir alla og setja alla í sama formið.

Henda á út í hafsauga öllum neyslustýringum. Hvað á ríkið annars með að skipta sér af því hvað þú eða ég borðar. Okkur á að vera treyst fyrir því að vega og meta sjálf hvað við látum ofan í okkur. Það getur enginn miðstýrt því hvað ég og þú borðar. Hversvegna er það þá reynt, spyr maður kæruleysislega? Muna menn annars eftir því þegar að Samfylkingin kom inn á þing með tillögu þess efnis að banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum á vissum tíma dags?

Fólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með lagarömmum. Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Burt með neyslustýringu eða aðra forræðishyggju af þessu tagi!

mbl.is Sykrað gos skattlagt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF stjórnar Seðlabankanum algjörlega

Yfirlýsing fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á Íslandi í morgun gerir í raun út af við hugleiðingar um frekari stýrivaxtalækkun í júní. Orð pólska IMF-landsstjórans staðfestir þó aðeins það sem allir hafa vitað mánuðum saman. Sjóðurinn ræður algjörlega för hér og stjórnar Seðlabankanum með góðu eða illu. Við höfum í raun enga stjórn á þeim málum sem mestu skipta.

Valdið hefur einfaldlega verið fært annað. Þeir spekingar sem töluðu fyrir því að IMF væri eina lausnin á okkar vandamálum hafa sig ekki eins mikið í frammi nú og þeir gerðu fyrir nokkrum mánuðum. Ætli sumir sjái eftir ráðleggingunum? Aðfarir IMF eru samt mjög fyrirsjáanlegar. Þetta er það sem varað var við. 

Stóra spurningin nú er hvort IMF hafi ekki verið að makka með Bretunum, eftir allt saman.

mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni fer í dýralækningar

Ég held að Árni M. Mathiesen hafi komið mörgum á óvart með því að ráða sig til starfa sem dýralækni. Sumir sögðu það í gríni að kannski færi Árni aftur í þann bransa. Miðað við viðbrögðin er greinilegt að sumir eru undrandi á þessu.

Mér hefur alltaf fundist ómerkilega vegið að Árna hvað varðar menntun hans sem dýralæknis á meðan hann var fjármálaráðherra. Ekki hefur verið neitt fundið að því að eftirmaður hans sé jarðfræðingur.

mbl.is Árni aftur í dýralækningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju má þjóðin ekki sjá ESB-tillöguna?

Mér finnst það algjörlega ólíðandi að þjóðin skuli ekki fá að heyra drög að þingsályktunartillögu um aðild að Evrópusambandinu. Hvers vegna þessi leynd? Hvað er verið að fela og hver er tilgangurinn? Þessi vinstristjórn situr á öllum upplýsingum og vill ekki miðla þeim til landsmanna. Þetta sama lið talaði fyrir nokkrum mánuðum um aukið gegnsæi og heiðarleika en situr nú á öllum gögnum - vill ekki segja þjóðinni heiðarlega frá og ganga hreint til verks.

Er það kannski tilfellið að það megi ekki kynna tillöguna því hún sé svo rýr í roðinu og snautleg? Vinstri grænir lofuðu í kosningabaráttunni að ekki yrði sótt um ESB-aðild í sumar en sviku það fyrir stólana. Og nú fær þjóðin ekki að heyra hverskonar tillögu vinstri grænir seldu hugsjónir sínar fyrir. Merkilegt lið. Væri gáfulegt fyrir það að fara að sýna gegnsæi í verki í stað þess að tala bara um það.

Svona áður en Jóhanna verður eins og konan í þáttunum Allo, Allo sem sagði alltaf: Ég segi þetta bara einu sinni....

mbl.is Ekki hvíli leynd yfir samkomulagi stjórnarflokka um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur styrkir stöðu sína - nýliðar í forystu

Forysta Framsóknarflokksins kemur nokkuð á óvart með því að velja þrjá kjördæmaleiðtoga sem allir eru nýkjörnir á Alþingi til að stýra þingflokki sínum. Flokksformaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er greinilega að styrkja tök sín á flokknum með því að velja Gunnar Braga Sveinsson sem þingflokksformann fram yfir Siv Friðleifsdóttur, fráfarandi formann þingflokksins, eða keppinaut sinn um formennskuna, Höskuld Þórhallsson. Átti fyrirfram von á því að annað þeirra hlyti hnossið. Valið hlýtur að benda til þess að Sigmundur sé að sýna að hann ráði för. 

Auk Gunnars Braga velur flokksforystan Sigurð Inga Jóhannesson, sem leiðir flokkinn í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðna Ágústssonar, og mágkonu Guðna, Vigdísi Hauksdóttur til verka. Reyndar verður ekki annað sagt en ásýnd Framsóknarflokksins sé mjög fersk þegar þing kemur saman eftir þessar alþingiskosningar. Aðeins Siv Friðleifsdóttir hefur setið á þingi lengur en sex ár; auk þess hafa aðeins Birkir Jón og Höskuldur hafa setið lengur en nýliðarnir sex í þingflokknum.

Sigmundur Davíð kom nýr inn í forystu íslenskra stjórnmála í ársbyrjun. Hann kom inn í rótgróinn þingflokk þar sem hann réð greinilega ekki alltaf för, eins og sást t.d. í stjórnarmynduninni og í eftirleiknum þegar hann átti erfitt með að sækja sér áhrif, enda utan þings. Staða hans hefur breyst mjög og nú er nýtt fólk sett yfir þingflokkinn.

Skilaboðin hljóta að teljast skýr. Nýr formaður velur nýtt fólk til verka, sitt fólk. Með því hlýtur staða hans að styrkjast innan flokksins.


mbl.is Gunnar Bragi þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband