Ævintýralegur lokasprettur

Langt síðan ég hef séð jafn ævintýralegan og magnaðan lokasprett í knattspyrnuleik hérna heima og var í Kópavogi í kvöld þegar FH tók þrjú stig á síðustu sekúndunum þegar Blikar höfðu náð jafntefli. Þvílíkt högg fyrir Kópavogsmenn. Alveg geggjað mark, vægast sagt. Hlýtur að vera mikil gleði í Firðinum núna.

Ég gafst upp á að horfa á ruglið og orðablaðrið, frasana í Samfylkingunni og starfsþjálfun Borgarahreyfingarinnar í valdaplotti, á Alþingi. Sá hinsvegar vinstri grænir létu höggin dynja á Samfylkingunni í Evrópuumræðunni. Þvílík niðurlæging fyrir Jóhönnu. Ekki fer mikið fyrir hjónabandssælunni.

mbl.is Söderlund tryggði FH sætan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holur hljómur í vinstristjórn án framtíðarsýnar

Á þeim tímum þegar mestu skiptir fyrir Ísland og fólkið í landinu að við völd sé fólk sem hafi pólitíska stefnu, lausnir á vandanum og framtíðarsýn að leiðarljósi flutti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, eina innihaldslausustu stefnuræðu forsætisráðherra í íslenskri stjórnmálasögu. Á rúmum tuttugu mínútum tókst henni að tala án þess að hafa nokkuð nýtt fram að færa - engar eru lausninar, sofið er enn á verðinum og ekki að sjá að gegnsæi hafi fundist enn í dulkóðuðum bakherbergjum ríkisstjórnarinnar.

Helst var að skilja á Jóhönnu Sigurðardóttur að Evrópusambandið væri eina lausnin sem hún og Steingrímur Jóhann hafi fram að færa. Hún lét þó, sem betur fer, þau orð falla skömmu síðar að Evrópusambandið væri nú engin töfralausn á vandanum. Hver talaði þar? Var það sködduð samviska vinstri grænna sem sveik hugsjónir sínar fyrir ráðherrastóla og völdin eða bara prívatsamviska Steingríms Jóhanns? Varla hefur það verið Samfylkingarhluti stjórnarinnar, enda lítur hún þannig á að leiðin til Brussel sé lausnin eina.

Mikill ábyrgðarhluti er að tala til þjóðarinnar með svo holum hljómi nú þegar heimilin og atvinnulífið eru að fuðra upp í skuldabálinu sem allt sligar. Við heyrðum ekkert nema gamla frasa og almennt blaður forsætisráðherrans - blaður sem við höfum öll heyrt oftar en við kærum okkur um. Er þetta fólk steinsofandi eða ætlar það að leiða þjóðina út í algjört hrun, sem eflaust er handan við hornið bráðlega, að óbreyttu?

Við eigum betra skilið en þetta innihaldslausa kjaftæði atvinnustjórnmálamannsins á forsætisráðherrastóli, sem hefur verið á þingi í yfir þrjá áratugi og er andlit liðinna tíma. Hversu lengi getur þetta lið talað til þjóðarinnar eins og það sé allt í lagi og engin þörf á neinni framtíðarsýn eða lausnum? Hvenær mun þjóðin rísa upp aftur - fær nóg af blaðrinu?


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningadraumur Steingríms J. rætist

Við þau tíðindi að ríkið hafi yfirtekið tæplega helming í Icelandair er ekki óeðlilegt að hugleiða mánaðargömul ummæli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á kosningafundi á Egilsstöðum. Þar sagði hann að Icelandair kæmist í hendur ríkisins brátt og þegar svo væri komið þá myndi Icelandair hefja beint millilandaflug frá Egilsstöðum.

Ummælin láku út og fóru í fjölmiðla, eðlilega. Steingrímur neitaði þeim opinberlega og lét fjármálaráðuneytið meira að segja senda út sérstaka tilkynningu til að afneita því, þó öllum væri ljóst hvað hann sagði og hver áherslan var. Steingrímur slapp ótrúlega billega frá þessu eins og fleiru undir lok kosningabaráttunnar.

Steingrímur J. nýtur sín vel núna. Flest fyrirtæki í landinu eru annað hvort að hrynja eða komin á hausinn. Ástandið er gríðarlega erfitt. Sofandagangur stjórnvalda er algjör. Ólafur Arnarson hefur hvað best orðað stöðuna á mannamáli undanfarna daga og ritað fjölda góðra greina og farið í sjónvarp til að tjá hinn kalda sannleik.

Steingrímur J. er örugglega himinlifandi með að krumla ríkisins sé að taka allt yfir. Hvað ætli verði langt í að kosningaloforðið á Egilsstöðum um millilandaflugið rætist? Þetta sem hann vildi aldrei kannast við opinberlega.


mbl.is Bréfin tekin af Nausti og Mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er siðferðislega rétt að eignast börn um sjötugt?

Enginn vafi er á því að Elizabeth Adeney muni hljóta heimsfrægð fyrir að verða ein elsta móðir heims. Ákvörðun hennar að eignast barn vekur siðferðislegar spurningar, um margt sígildar í seinni tíð. Mér finnst það varla siðferðislega rétt að konur eignist börn um sjötugt, með aðstoð læknisvísinda, og ætli að helga sig barnauppeldi komið á ellilífeyrisaldur.

Fyrst og fremst er réttast að vorkenna börnunum sem á táningsaldri eiga þá foreldra um eða yfir áttrætt. Eðlilega er spurt hver tilgangurinn sé með því að eignast börn svo seint á æviskeiðinu. Hvort hugsar foreldrið frekar um barnið eða sjálft sig?

Er ekki viss sjálfselska sem felst í þeirri ákvörðun að vera á sjötugsaldri og vilja eignast barn? Er þetta ekki gott dæmi um hugsunarhátt neyslusamfélagsins? Ég tel svo vera. En kannski vilja sumir einfaldlega komast í fréttirnar og í metabækurnar.

Hver er ástúðin í því að gefa börnum sínum þá vöggugjöf að vera við fermingaraldur með foreldra á níræðisaldri?

mbl.is 66 ára og verðandi móðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband