19.5.2009 | 23:19
Er meirihlutinn í Kópavogi að falla?
Óneitanlega yrðu það mikil tíðindi ef tveggja áratuga farsælu meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi myndi ljúka vegna viðskipta Kópavogsbæjar við dóttur Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra. Mál af þessu tagi er vægast sagt mjög óheppilegt og í raun ótrúlegt að stjórnmálamenn komi sér í svona stöðu eða láti slíkar efasemdir vera um verk sín, enda er eðlilegt að telja vinnubrögðin siðferðislega röng.
Hef áður tjáð skoðun mína á þessu máli. Eðlilegt að minna á það. Vel má vera að þreyta sé komin í þetta meirihlutasamstarf. Tveir áratugir eru langur tími. Enginn vafi leikur þó á að Kópavogur hefur breyst gríðarlega í valdatíð þessara flokka til hins betra. Kópavogur hefur verið í fararbroddi í uppbyggingu á öllum sviðum og er eitt öflugasta sveitarfélag landsins.
En siðferði á aldrei að vera aukaatriði í pólitík. Mál af þessu tagi hlýtur að reyna á stoðirnar sem mestu skipta.
![]() |
Ræddu hugsanleg meirihlutaslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2009 | 15:09
Svipbrigðalaus afsögn í Westminster
Augljóst er að Martin, sem ætlaði að vera svo forhertur að leiða siðbótina á stofnun sem honum mistókst að stýra, hrökklaðist frá eftir að Gordon Brown kallaði hann á sinn fund og sagðist ekki styðja hann lengur. Martin gerir Brown ekki mikinn greiða með því að sitja áfram mánuð í viðbót. Ætli hann sé að stríða Brown með því, ætli sér að taka hann með sér í fallinu, viss um að Brown þraukar ekki af Evrópukosningarnar.
Ekki er undarlegt að breskir kjósendur vilji fá að fara að kjörborðinu. Rúmlega fjögurra ára gamalt þingið er umboðslaust með öllu orðið, heil pólitísk eilífð síðan þeir veittu Tony Blair umboð til að leiða bresk stjórnmál þriðja kjörtímabilið en fékk Gordon Brown í kaupbæti. Vandséð er hvernig kratarnir geta setið áfram án þess að skipta um leiðtoga og forsætisráðherra, velja einhvern sem er ekki andlit spillingarinnar.
Ósennilegt er að Bretar hafi þolinmæði í heilt ár í viðbót af Gordon Brown og lánleysi hans í Downingstræti.
![]() |
Forseti breska þingsins segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2009 | 12:59
Afsögn Martins - umboðslaust þing í Bretlandi
Afsögn Michael Martin, forseta neðri deildar breska þingsins, verður eflaust aðeins fyrsta skrefið í löngu og erfiðu ferli þar sem breskir stjórnmálamenn verða að ávinna sér traust að nýju eftir fríðindahneykslið. Breska þingið er umboðslaust að mestu eftir gjörningaveður síðustu tíu dagana þar sem þingmenn allra flokka hafa gerst sekir um að falla í pytt siðleysis og spillingar. Þreytan er algjör í þinghópnum.
Michael Martin er andlit spillingatímanna í þingstarfinu. Fjarstæða var að fela honum verkstjórn í siðbótinni og að fá allt upp á borðið. Hann hafði misst áhrifastöðu sína og var ekki sætt. Uppreisnarandinn í þinginu í gær þegar þingmenn stöppuðu og kölluðu fram í ræðu Martins eftir að hann neitaði að setja vantrauststillögu á dagskrá var táknrænn. Hann var einfaldlega púaður burt.
Verkamannaflokkurinn er í mestum vanda, enda hefur þetta gerst á vakt þeirra og fyrstu viðbrögð hins lánlausa forsætisráðherra var að reyna að komast að því hver hefði lekið í stað þess að taka á sukkinu og koma með nýja leiðsögn. Íhaldsmenn tóku á málinu fumlaust og David Cameron kom fram sem alvöru leiðtogi sem talaði gegn sukki og svínaríi. Hann náði frumkvæðinu.
Lánleysi Browns er algjört - æ líklegra að honum verði sparkað eftir Evrópukosningarnar 4. júní. Ekki er ósennilegt að Alan Johnson verði forsætisráðherra fari svo. Hann er táknmynd gömlu verkalýðshópanna í flokknum og hefur tengsl við fólkið í landinu. Bætir aðeins stöðu hans nú að hafa tapað fyrir Harriet Harman í varaleiðtogakjörinu 2007. Aðeins hann gæti bætt tapaða stöðu.
Rúm fjögur ár eru liðin frá síðustu þingkosningum í Bretlandi. Óralangur tími er liðinn í pólitískri tilveru frá því Tony Blair vann sinn þriðja kosningasigur á vinsældum Gordon Brown. Brown hefur verið við völd í tæp tvö ár og ekki séð til sólar síðan hann heyktist á að boða til nóvemberkosninga 2007.
Enn er ár til þingkosninga í Bretlandi. Brown ætlar að treina sér kjörtímabilið sem mest og klára öll fimm ár. Hann er eins og John Major - þorir ekki að láta kjósendur taka afstöðu fyrr en hann neyðist til. Enda er Brown eins og Major áður, algjört lame duck.
Sitji Brown áfram er líklegt að hann tryggi algjörlega eyðimerkurgöngu Verkamannaflokksins í að minnsta kosti þrjú kjörtímabil - á svipuðum skala og í valdatíð Íhaldsflokksins 1979-1997. Næstu kosningar eru altént þegar tapaðar.
Með nýjan forsætisráðherra og flokksleiðtoga gætu breskir kratar náð einhverju frumkvæði. En það verður blóðugt fyrir þá að losa sig við Brown, enda nær útilokað að hann fari þegjandi og hljóðalaust.
![]() |
Búist við afsögn Martins síðar í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2009 | 12:46
Söngur eða efnislítil smáræði í aðalhlutverki?

Fyrir Eurovision-keppnina var mikið talað um að kjóll Jóhönnu Guðrúnar gæti kostað hana mörg stig og jafnvel sætið í úrslitakeppninni. Þvert á móti náði Ísland mestum stigafjölda í 23 ára sögu sinni í keppninni og náði öðru sætinu öðru sinni á áratug. Jóhanna Guðrún stóð sig það vel, söng svo vel og tært, að fólk hugsaði einfaldlega ekkert um kjólinn hennar. Fókusinn var á lagið, söngurinn var í aðalhlutverki.
Er það ekki annars aðalatriðið? Jóhanna Guðrún sýndi það vel að kona í Eurovision þarf ekki að vera á brjóstahaldara og pínubrók til að ná árangri. Ef lagið er nógu traust og söngkonan nógu góð þarf ekki að vera í efnislitlu smáræði til að slá í gegn. Hitt er svo annað mál að kjóll Jóhönnu féll vel inn í hina notalegu bláu draumkenndu sýn sem var aðalatriðið í sviðsumgjörðinni. Allt féll vel saman.
![]() |
Líkti Jóhönnu við Scarlett Johansson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2009 | 02:01
Fær ekki Jóhanna fálkaorðuna fyrir silfrið?
Mér finnst ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort silfurstúlkan okkar, Jóhanna Guðrún, fái fálkaorðuna fyrir annað sætið í Eurovision. Hvort verði ekki verðlaunað jafnt fyrir tónlist og íþróttir. Afrek Jóhönnu er ekki lítið - sá sem fær Hollendinga og Breta til að kjósa Ísland eftir Icesave-málið er ekkert blávatn. Á hrós skilið.
En verður þá ekki Selma að fá fálkaorðuna líka? Auðvitað, enda stóð hún sig frábærlega í Ísrael árið 1999. Var 17 stigum frá því að vinna keppnina. En kannski er það bara þannig að íþróttirnar eru hærra skrifaðar hjá orðunefnd en tónlistin. Leitt er ef satt er.
Afrek Jóhönnu nú er mikils virði fyrir þjóðina eftir allt sem á undan er gengið, sérstaklega eftir þennan erfiða vetur.
![]() |
Fróðleikur um Evróvisjón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)