2.5.2009 | 18:28
Hver mun gefa eftir í Evrópumálunum?
Mér finnst það gott dæmi um veruleikafirringu stjórnarflokkanna að þeir hafi varið heilli viku í að reyna að semja um Evrópumálin þegar einstaklingar og atvinnulífið kalla eftir aðgerðum til lausnar vandanum í samfélaginu. Reiptogið um Evrópumálið virðist ætla að taka sinn tíma ef marka má þær sögusagnir að gefa eigi þessu viku til tíu daga í viðbót.
Eftir ummæli Olli Rehn í vikunni um að Ísland fái engar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og enga sérmeðferð er þó vandséð hvaða haldreipi sé í að eyða tímanum í Evrópublaðrið. Samfylkingin hefur þó Evrópumálin sem hálfgerð trúarbrögð á dagskrá sinni og virðist algjörlega blind fyrir þeirri vegferð, þó ekki hafi þeir útlistað nein samningsmarkmið.
Ég get ekki séð að hægt sé að bíða með alvöru aðgerðir til lausnar vandanum í íslensku samfélagi. Ekki örlar þó á neinu plani vinstriflokkanna í þeim efnum. Viku eftir vinstrisigurinn er ráðaleysið algjört og eiginlega ekki fjarri lagi að hugleiða hvort sé ekki stjórnarkreppa í landinu.
En væntanlega verður eitthvað barið saman varðandi Evrópumálin þó ljóst sé orðið að ekkert sé til Brussel að sækja eftir að Olli Rehn sló Samfylkinguna utan undir og gekk endanlega frá spunanum um að hægt sé að semja sig inn í hvað sem er.
Hver mun að lokum gefa eftir? Er hægt að finna sameiginlegan flöt og brúa sjónarmið VG og Samfylkingar? Er ekki himinn og haf þar á milli?
![]() |
Stjórnarsáttmáli í smíðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.5.2009 | 12:20
Þolinmæðin gagnvart ríkisstjórninni á þrotum
Ég er ekki undrandi á því að þolinmæði fólksins í landinu gagnvart ríkisstjórninni sé að taka enda. Eftir að hafa hummað af sér í þrjá mánuði, þar af kosningabaráttuna alla, að koma með tillögur til lausnar á vandanum í samfélaginu fer að verða komið nóg. Stjórnarflokkarnir hafa nú dúllað sér saman í heila viku að semja um málefnin, það smotterí sem gleymdist í janúarlok þegar plottað var um kosningabandalag og aðgerðir til að koma vinstriflokkunum saman.
Flokkarnir töluðu sig frá hvor öðrum í kosningabaráttunni og voru aldrei heilsteypt kosningabandalag, mun frekar valdabandalag. Svör félagsmálaráðherrans í moggafréttinni eru frekar vandræðaleg. Eðlilega er fólki nóg boðið eftir þriggja mánaða frasablaður um ekki neitt. Spurt er um forystu, það sé bógur í stjórnvöldum til að taka ákvarðanir og hafa málefnin í fyrirrúmi í stað plottsins.
Nú þarf að fara að stjórna þessu landi. Það þarf að taka ákvarðanir. Fólk sættir sig ekki við dúllulega fundi í viku til tíu daga í viðbót á meðan samfélagið fuðrar upp.
![]() |
Margir íhuga greiðsluverkfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.5.2009 | 01:13
Vinstristjórnin mynduð á leynifundum án ISG
Ég er ekki undrandi á þeirri uppljóstrun að vinstristjórnin hafi verið mynduð á leynifundum heima hjá Lúðvík Bergvinssyni í janúar á meðan Ingibjörg Sólrún var veik á spítala í Stokkhólmi og reynt var að telja sjálfstæðismönnum trú um að samstarfið væri enn heilsteypt. Árásin á þinghúsið, spuninn mikli, og bifreið Geirs Haarde verður mun heilsteyptari þegar þessi brot raðast saman. Augljóst er að samstarfinu var í raun lokið í jólaleyfi þingmanna og Össur Skarphéðinsson hafi í raun myndað stjórnina á meðan Ingibjörg Sólrún var fárveik og enginn gat tekið völdin af honum.
Augljóst er að krafa Samfylkingarinnar um forsætisráðuneytið á fundum heima hjá Geir Haarde eftir þessa fundi dagana áður og þegar ISG var komin heim var hreinn skrípaleikur. Samfylkingin hafði bundið enda á samstarfið en vildi ekki slíta því og setti því fram algjörlega óraunhæfa kröfu til að Sjálfstæðisflokkurinn færi út og það á þeim forsendum að þeir væru að verja forsætið á meðan augljóst var að Samfylkingin hafði flúið samstarfið og þorði ekki að taka óvinsælar ákvarðanir.
Þegar þessi púsl raðast saman verður enn hjákátlegri sú ákvörðun Björgvins G. Sigurðssonar að segja af sér. Hann vissi að stjórnin væri fallin og tók pópúlíska ákvörðun um að fara þegar örlög stjórnarinnar voru ráðin. Hann var aðeins að bjarga sér mjög ódýrt úr mjög erfiðri aðstöðu, því að vera viðskiptaráðherrann sem svaf á vaktinni og var ekki hafður með í ráðum, var vantreyst fyrir því að taka lykilákvarðanir þegar mest á reyndi.
Þetta var allt leikrit hið mesta. Sett upp af Samfylkingunni undir stjórn Össurar, sem í raun stýrði Samfylkingunni í nokkra mánuði á meðan Ingibjörg Sólrún var fjarri vegna veikinda og í raun alls ófær um að sinna sínum störfum. Össur er guðfaðir þessarar ríkisstjórnar og hann er í raun sá sem felldi stjórnina sem var í raun óstarfhæf mjög lengi, vegna þess að ráðherrar hennar þorðu varla að taka neinar ákvarðanir og taka af skarið.
Fyndnast af öllu er að í raun er stjórnarkreppa í landinu nú. Vinstriflokkarnir, sem þó fóru saman sem bandalag í kosningunum, ná sér ekki saman um málefnin og sitja nú dögum saman meðan samfélagið brennur, fyrirtæki og einstaklingar fara á hausinn, og ekki er tekið á málum og leyndarhjúpur yfir öllu. Gegnsæið hjá þessum stjórnvöldum er ekkert. Dýrmætum tíma er varið í að berja saman ósamstæðan hóp.
Hvað hefur breyst síðan í janúar? Fyrir utan það að ný andlit eru á stjórnarbekkjum. Ráðaleysið er algjört. Flóttinn frá ákvarðanatöku blasir við öllum. En ég fagna því í og með að sagnfræði janúarmánaðar er að afhjúpast. Valdataflið þar er að verða augljósara. Sérstaklega er mikilvægt að það komi fram, sem flestum grunaði, að Samfylkingin hafði myndað nýja stjórn, um ekki neitt nema völd, áður en hin féll endanlega.
Hvar eru málefnin? Er ekki fyrst núna verið að semja um þau? Hvað var samið um í janúar? Fyrir utan kannski að taka við völdum og skipta um áhöfn í Seðlabankanum? Hvað hefur breyst til hins betra síðan í janúar? Er búið að taka á vandanum í samfélaginu? Svari hver fyrir sig á meðan setið er í Norræna húsinu og loksins samið um einhver málefni í hálfgerðri stjórnarkreppu.
![]() |
Hlé á viðræðum í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)