Magnús gjaldþrota - hörð lending auðmanna

Magnús á góðri stundu með forsetahjónunum
Ég undrast ekki að Magnús Þorsteinsson hafi fengið skellinn mikla í Héraðsdómi Norðurlands eystra hér í dag. Lögheimilaflutningarnir og tilraunin til að bjarga sér frá skuldadögunum var ekki sannfærandi og eðlilegt að auðmaðurinn sé tekinn til gjaldþrotaskipta. Þessi harkalegu endalok ættu ekki að koma honum að óvörum.

Mér finnst felast í þessari niðurstöðu að auðmenn geti vænst erfiðra tíma þegar þeir fara fyrir dóm og bú þeirra verða gerð upp síðar meir. Þeir hafa ekki í mörg skjól að venda nú þeir menn sem áður voru fastagestir í kokteil á Bessastöðum.

mbl.is Fallist á gjaldþrotakröfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á milli bresks leiðtoga og formanns

Gordon Brown og Harriet Harman
Eitt fer jafnan óendanlega mikið í taugarnar á mér í umfjöllun um bresk stjórnmál - sú staðreynd að sumir íslenskir fjölmiðlar þekkja ekki muninn á leiðtoga og formanni. Furðulegt er að sjá sjóaða fjölmiðla nefna Gordon Brown formann breska Verkamannaflokksins og Harriet Harman sem varaformann. Eins og allir ættu að vita er titillinn leader, það er leiðtogi.

Í breskum stjórnmálaflokkum er enda tvennt ólíkt að vera formaður eða leiðtogi. Leiðtogi er sá sem er andlit flokksins og leiðir hann út á við, er auðvitað forsætisráðherra sé flokkurinn í ríkisstjórn og er talsmaður hans út á við og inn á við. Formaðurinn er hinsvegar sá sem stjórnar innra starfinu og heldur í þræði þess sem gerist þar mun frekar en leiðtoginn.

Í Bretlandi er því staða mála gjörólík því sem við venjumst hérna heima. Því kannski skiljanlegt að sumir ruglist á þessu en það er samt sem áður vandræðalegt. Reyndar eru bresk stjórnmál ólíkt meira völundarhús og meira kerfisbákn en þau íslensku og skiljanlegt að þar sé málum skipt öðruvísi niður en í smáu landi og kerfi á við okkar.

Hvað varðar það að Harman neiti að hafa plottað gegn Gordon Brown er það auðvitað bara rugl. Eðlilegt að þar sé plottað á fullu bakvið tjöldin. Þeir stæðu betur ef Brown hefði verið sparkað í haust. Hann hefur ekki náð að snúa vörn í sókn. Tilraun hans til að upphefja sig á íslenska bankahruninu var dæmd til mistakast.

Allt bendir til að David Cameron verði forsætisráðherra bráðlega og Brown kafsigli kratana og endi í svipaðri stöðu og íhaldsmenn árið 1997.

mbl.is Harman: Vill ekki formannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðalaus ríkisstjórn á vaktinni meðan allt hrynur

Afskaplega sorglegt er að fylgjast með hinni ráðalausu ríkisstjórn sem er á vaktinni á meðan einstaklingar og atvinnulífið stefna í þrot. Lausnirnar eru mjög fátæklegar og framtíðarsýnin engin. Jóhanna Sigurðardóttir hótaði í kvöldfréttum þeim sem hætta að greiða af lánunum að þeir fengju ekki greiðsluaðlögun. Ekki veit ég hver á að taka það að sér að fá út hver hættir að borga viljandi eða óviljandi. Þarna birtist jafnaðarmennskan holdi klædd hjá heilagri Jóhönnu. Sofandagangurinn og veruleikafirringin er algjör.

Jóhanna og viðskiptaráðherrann hennar, Gylfi Magnússon, hafa gleymt einni staðreynd í öllu frasaflóðinu sínu. Staðan er sú hjá fjölmörgu fólki að skuldir þeirra eru meiri en eignir og greiðslugetan til að "þjónusta" lánin er einfaldlega ekki til staðar. Fólk er víða einfaldlega strandað og kallar eftir aðstoð. Væri þetta fólk í jarðskjálftarústum væri örugglega verið að reyna bjarga því. Nú er ekkert gert.

Ég skynja að fjölmargir sem treystu vinstriflokkunum séu að átta sig á að vanmáttur þeirra til að taka á vandanum er algjör. Þar er ekkert nema hótanir til almennings og ráðaleysið hefur tekið öll völd. Nú er farið að hóta almenningi með innheimtulögfræðingum. Ætli það sé ekki viðeigandi að rifja upp fleyg orð; Guð blessi Ísland.


mbl.is Öllum starfsmönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband