Loftleiðaævintýrið og hugsjónasaga Alfreðs

Ég fór í bíó áðan og sá heimildarmyndina um ævintýralega sögu Loftleiða og hugsjónamanninn Alfreð Elíasson, sem var drifkrafturinn í einu mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar. Myndin er gríðarlega vel gerð og leiftrandi af frásagnargleði og þeim krafti sem einkenndi fyrirtækið. Alfreð Elíasson var hugsjónamaður í sínum verkum, byggði upp fyrirtækið af hugviti, áræðni og næmri einbeitingu.

Sagan af Loftleiðum er eitt besta dæmið hérlendis um traust vinnubrögð, hugsjónir og einbeitingu þeirra sem leiða uppbyggingu. Með því að virkja krafta allra starfsmanna með einlægri jákvæði tókst Alfreð að gera Loftleiðir að risa á alþjóðavettvangi, fyrirtæki sem naut virðingar um allan heim og byggði upp velvild meðal viðskiptavina. Sá jákvæði andi sem einkenndi starfið innan Loftleiða er einn stærsti þáttur velgengninnar í tæplega þrjátíu ára sögu fyrirtækisins. Þar skipti leiðsögn leiðtogans öllu máli.

Endalok Loftleiðasögunnar eru mjög sorgleg, eins og allir vita sem kynnt hafa sér sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands árið 1973. Alfreð Elíasson missti heilsuna árið 1971 og náði aldrei eftir það fyrra afli og einbeitingu. Þegar Alfreðs naut ekki við var ekki haldið á málum af sömu einbeitingu og áður var og fyrirtækið missti sitt leiðarljós og leiðtogann sem var á vaktinni. Fyrirtækið var étið upp í veikindum Alfreðs étið upp af kerfiskörlum hjá ríkinu.

Sorglegast af öllu var hvernig unnið var í matinu á eignum Loftleiða og Flugfélags Íslands sem leiddi til þess að fyrirtækin voru metin svo til jafnstór í stað þess að Loftleiðir væri metið 70-75% af andvirði nýja fyrirtækisins, Flugleiða. Með rangindum voru eignir Loftleiða í raun teknar af stofnendunum, þeim frumkvöðlum sem af hugsjón og elju höfðu byggt upp stórveldi á heimsvísu. Þetta er ljót og óhugguleg saga sem þurfti að segja. Það tekst vel upp í þessari mynd.

Í hreinsunum sem einkenndu stjórnunartíð Sigurðar Helgasonar eldri á áttunda áratugnum var öllum hugsjónamönnum Loftleiðatímabilsins bolað út og beitt ógeðfelldum hreinsunum af algjörri skítmennsku. Alfreð Elíassyni, frumkvöðlinum og hugsjónamanninum var bolað út af skrifstofu sinni í húsnæði Loftleiða, sem fyrirtækið átti skuldlaust með hóteli, stöndugu millilandaflugfélagi og auk þess Air Bahama og hótel í Lúxemborg, svo fátt eitt sé nefnt.

Frægt var að Alfreð sagði þegar hann var rekinn á dyr úr eigin skrifstofuhúsnæði af þeim sem véluðu með Flugleiði "Hvað hefur gerst. Hvar er félagið mitt?". Gögn Alfreðs voru einfaldlega sett í pappakassa og hann síðan settur í horn úti á gangi í fyrirtækinu sínu. Þvílíkt níðingsverk! Þessi eignaupptaka og svívirðilega framkoma var fjarstýrð af samgönguráðherranum Hannibal Valdimarssyni sem vegna þrýstings stjórnmálamanna sá ofsjónum af sterkri stöðu Loftleiða og hirtu eignir þeirra af frumkvöðlunum sem höfðu unnið af harðfylgi fyrir sínu.

Ég hvet alla til að fara í bíó og skoða heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir. Þetta er saga hugsjónamanns sem lét ekkert stöðva sig og byggði stórveldi á alþjóðavísu. Endirinn er sorglegur. Mjög gott er þó að þau dapurlegu endalok eru sögð hreint út og ákveðið. Sigurður Helgason fær það óþvegið, verðskuldað og heiðarlega, í uppgjöri Loftleiðamanna. Ýjað er að því að hann hafi verið keyptur til sinna óheilinda við Alfreð. 

Þetta er traust mynd, sem er í sérflokki. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson á heiður skilinn fyrir vandaða og heilsteypta mynd, sem er vel klippt og gerð. Myndefnið er mjög gott, viðmælendur segja heiðarlega frá velgengni og sorglegum endalokunum og umgjörðin mjög traust. Þetta er traustur og einlægur minnisvarði um hugsjónamanninn Alfreð Elíasson og segir söguna alla, bæði björtu punktana og endalokin, sem hljóta að teljast eitt mesta rán  Íslandssögunnar.


Stjórnmálasamband við Breta mjög veikburða

Ég er algjörlega sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að það er ekkert að gera með stjórnmálasamband við Bretland ef ekki er hægt að bæta samskiptin og reyna að stöðva skítlegar árásir breska forsætisráðherrans á Ísland og þjóðina alla.

Get ekki betur séð en skoðun Sigmundar sé í takt við bloggfærslu mína hér í gær, þar sem ég sagði að slíta ætti stjórnmálasambandinu ef ekki væri hægt að tala milliliðalaust við Gordon Brown og lesa honum pistilinn. Eðlilegt, enda er þetta rétta afstaðan í málinu.

Án þessa er ekkert með samskipti við Bretland að gera með bresku kratarnir ráða þar ríkjum. Ekkert er að gera með samband við ríkisstjórn sem er staðráðin í að gera út af við orðspor Íslands og sparkar endalaust í íslensku þjóðina.


mbl.is Íhugi slit á stjórnmálasambandi við Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaut tuska framan í alla landsmenn

Krónuspá Seðlabankans er ekki aðeins blaut tuska framan í sveitarfélögin, sem standa flest mjög illa, heldur alla landsmenn. Þeir sem tóku áhættu með myntkörfulánum eiga ekki bjarta daga framundan rætist spáin algjörlega. Staða íslenskra sveitarfélaga og fyrirtækja í eigu þeirra er ekki beysin. Gott dæmi er Akureyrarbær og Norðurorka, fyrrum mjólkurkýr bæjarins. Þar er staðan grafalvarleg og ekki von á góðu.

Sveitarfélögin kveinka sér eðlilega og sumir stjórnmálamenn í verri stöðu en aðrir á kosningavetri ef ekki rætist bráðlega eitthvað úr. En allir landsmenn bera þessar byrðar og finna fyrir erfiðri stöðu. Augljóst er að sumarið verður mjög erfitt og ekki von á góðu.

mbl.is „Eins og blaut tuska“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband