Njáll Trausti er sigurvegari prófkjörsins

Enginn vafi leikur á að Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, er stóri sigurvegari prófkjörs okkar sjálfstæðismanna á Akureyri. Hann kemur nýr inn í pólitíkina, nær sætinu sem hann sækist eftir og hefur stimplað sig rækilega inn í bæjarmálin. Hann var með traust og góð mál sem aðalstef sinnar prófkjörsbaráttu og græðir mikið á að vera með traustan rekstur í blóma, sæluhúsin sunnan við sjúkrahúsið sem er í mikilli uppbyggingu um þessar mundir.

Sjálfur fann ég mjög fyrir því að flokksmenn vildu framkvæmdamann í öruggt sæti og vildu auk þess nýjan mann með ferskar hugmyndir og stokka hópinn upp. Þess vegna ákvað ég allavega að styðja hann í öruggt sæti. Góður árangur bæði hans og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur í fjórða sætið er traust merki þess að flokksmenn vilja stokka upp og yngja upp bæjarfulltrúahópinn, með aðra ásýnd.

Njáll Trausti er fertugur og Anna Guðný er 32 ára, enn ungliði. Síðustu árin hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir verið yngsti bæjarfulltrúinn, fædd 1966. Anna Guðný í baráttusætinu, verður væntanlega yngsti bæjarfulltrúinn ef hún nær kjöri, enda verður seint sagt að aðrir flokkar hafi raðað upp fólki undir 35 ára aldri í örugg sæti.

mbl.is Líst vel á listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elín Margrét fellur úr bæjarstjórn

Ein stærstu tíðindi prófkjörs okkar sjálfstæðismanna á Akureyri var að Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, féll niður framboðslistann, hlaut ekki stuðning í efstu sætin. Ella Magga hefur verið virk í flokksstarfinu árum saman, var lengi varaformaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar og kom sterk inn á listann síðast þegar hún varð þriðja.

Í sjálfu sér er staðan þannig að þeir sem tapa slagnum um annað sætið hrapa mjög niður listann. Tveir nýjir frambjóðendur sem börðust um þriðja sætið festa sig á eftir sigurvegaranum í hörðum slag um annað sætið. Vitað mál var að dreifing atkvæða yrði mikil.

Lengi vel taldi ég að sterk staða Ellu í flokkskjarnanum árum saman myndi tryggja hana í sessi ofar en raun ber vitni sama hvernig færi með annað sætið. Eflaust liggja margar og ólíkar aðstæður að baki þessari útkomu. Sjálf hefur hún nefnt nokkrar. Þær eru fleiri.

Eftir þetta prófkjör blasir við að Sigrún Björk ein situr eftir úr topp sex sætum á framboðslistanum 2006. Endurnýjunin er nær algjör og nýr framboðslisti er staðreynd, eftir að Kristján Þór, Doddi og Hjalti Jón ákváðu að hætta.

Ég hef unnið í flokksstarfinu árum saman með Ellu og vil þakka henni fyrir sín verk, þegar þessi skellur er staðreynd. Hún er vinnusöm og dugleg, en svo fór sem fór.

mbl.is Alltaf viss vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust umboð Sigrúnar Bjarkar í leiðtogastólinn

Mikil spenna var í Kaupangi í gærkvöldi þegar Anna Þóra, formaður kjörnefndar, las upp úrslit í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna, enda engar millitölur birtar. Sigur Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur er afgerandi og traustur og hún hefur nú fengið sterkt umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum í vor.

Sigrún Björk fékk góða kosningu í prófkjörinu 2006, fékk þá ein bindandi kosningu með Kristjáni Þór Júlíussyni og varð svo bæjarstjóri þegar hann fór í þingframboð og hefur leitt hópinn síðan, sem bæjarstjóri út þann tíma kjörtímabilsins sem ætlaður var Kristjáni Þór fyrst og leitt meirihlutann með Samfylkingunni.

Traust umboð Sigrúnar Bjarkar í leiðtogasætið gefur til kynna að almennir flokksmenn vilji að hún haldi sínum verkum áfram og fái tækifæri til að leggja verk sín í dóm kjósenda. Umboðið er líka það sterkt að hún verður væntanlega bæjarstjóraefni listans.

Hitt er svo annað mál að Sigrún hefur verið sterki leiðtoginn í bæjarstjórninni síðan Kristján Þór fór. Eftirmaður hennar sem bæjarstjóri hefur ekki slíka stöðu, enda fékk hann tvo þriðju atkvæða í leiðtogaframboði með engan keppinaut.

Sigrún Björk hefur haft afgerandi stöðu í bæjarfulltrúahópnum og í flokkskjarnanum. Úrslitin gefa til kynna að flokksmenn vilji traust akkeri í forystu listans og bjóða fram sterkan pólitískan valkost sem bæjarstjóra, eins og áður með KÞJ.

mbl.is Öruggur sigur Sigrúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband