Skuldakóngum hossað

Ég undrast ekki að fólkið í landinu hafi fengið nóg af því hvernig skuldakóngum er hossað af bönkum og lánardrottnum. Reiði almennings er mjög skiljanleg. Hvernig er hægt að búast við því að langlundargeð fólksins sé algjört gagnvart þessum fréttum af því hvernig stórskuldugir menn eru smúlaðir af ábyrgð á skuldum og endalausu sukki?

Dag eftir dag eykst undiraldan gegn þessu verklagi og skal engan undra. Þeir sem kusu til valda vinstristjórn til að taka á sukkinu hljóta að vera vonsviknir og sárir. Hvaða breytingar hafa orðið síðasta árið? Erum við ekki enn á sama reit og eftir hrun. Vonbrigðin aukast þó, enda augljóst að völdum mönnum eru rétt fyrirtækin aftur.

Við búum enn í miðju sukkinu, höfum ekki komist úr hinu ógeðslega feni lágkúrunnar. Þetta er eins og Groundhog Day, sama og sama aftur og aftur.


mbl.is Veldi byggt á skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð vinstristjórnarinnar

Engum dylst að vinstristjórnin er verulega löskuð og í raun búin að vera, hvað sem Jóhanna og Steingrímur segja í veruleikafirringu sinni. Stóri vandinn er sá að þingmeirihlutinn er ekki til staðar, enda hefur þessi vinstristjórn varla komið málum áfram í þinginu og þurft að stóla á annan stuðning í lykilmálum en í sínum röðum. Þetta ástand felur feigðina í sér. Enginn annar meirihluti er til staðar og því einsýnt að boða verði til þingkosninga haldi þetta áfram mikið lengur með þessum brag.

Stóra ástæðan fyrir vandræðagangi vinstristjórnarinnar er auðvitað sá að hún hefur aldrei haft traustan þingmeirihluta fyrir Icesave-málinu, þurft að beita hótunum og yfirgangi á vissa þingmenn sína til að fá mál í gegn og gengið með því mjög á pólitískt kapítal sitt. Nú er ljóst að skrifað var undir hina afleitu Icesave-samninga án þess að þingmeirihluti væri til staðar. Steingrímur J. Sigfússon hlustaði ekki á þingmenn sína sem voru andvígir og tók mikla pólitíska áhættu.

Tilgangslaust er fyrir þennan þvergirðing að koma nú fram og kenna öðrum um hvernig fór. Hann hlustaði ekki á þingmeirihlutann á þeim tíma, sem hefur merkilegt nokk lítið breyst. Enn er meirihluti gegn þeim samningum sem skrifað var undir, þó svo þeir hafi fengist samþykktir með tilslökunum og langri vinnu við fyrirvara sem var síðar samið af sér og aðrir viðaukasamningar fengnir í gegn með hótunum, þar til forsetinn tók málið úr höndum hans og færði þjóðinni valdið að kasta lögunum.

Úrslit síðustu þingkosninga voru skýr: vinstriflokkarnir fengu hreinan meirihluta, traust kjósenda til að vinna að sínum málum án aðkomu annarra flokka. Sjálfstæðisflokknum var sparkað frá völdum og hann fékk ekki neitt umboð í síðustu þingkosningum. Vonlaust er að kenna honum um hvernig komið er málum nú með óstarfhæfan þingmeirihluta vinstrimanna. Leiðtogum stjórnarflokkanna tókst að vinna mál áfram án þess að hlusta á óbreytta þingmenn sína og svo fór sem fór.

Ef þessi vinstristjórn með hreinan meirihluta gefst upp er ekkert ráð annað en boða til þingkosninga í sumar eða haust. Annað er ekki boðlegt. Við öllum blasir að enginn annar traustur meirihluti er fari svo að sá meirihluti sem kosinn var beint til valda, sem landsmenn treystu fyrir stjórn landsins, fellur vegna innri hnútukasta. Þá verður að stokka spilin upp á nýtt.


mbl.is Heita ekki stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband