Jóhanna laug að þingi og þjóð

Nú er endanlega staðfest að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, laug að þingi og þjóð um launakjör Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Því verður ekki neitað lengur að hún lofaði honum sömu launakjörum og fyrri bankastjórar höfðu og þar með 400.000 króna launahækkun, sem enginn vildi síðar kannast við. Þá féll Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans, á sverðið fyrir Jóhönnu vinkonu sína þó öllum mætti ljóst vera að hækkunin væri loforð úr forsætisráðuneytinu.

Jóhanna hefur sloppið ótrúlega billega frá þessu máli. Ekki er eðlilegt að forsætisráðherra ljúgi að þingi og þjóð um mál af þessu tagi. Furðulegt er að aldursforseti þingsins, sjálfur forsætisráðherrann, hafi lagst svona lágt til að þagga málið niður en það kemur nú allhressilega í bakið á henni.

Jóhanna Sigurðardóttir var sem stjórnarandstöðuþingmaður mikill og sjálfskipaður siðferðispostuli sem þóttist öllum öðrum fremur geta dæmt menn og málefni. Nú ætti hún að taka það til fyrirmyndar og ákveða næstu skref sín, hvort svo sem hún segir af sér eða reynir að snúa staðreyndum á hvolf.

Sé hún sjálfri sér samkvæm hlýtur hún að segja af sér embætti. Hún er reyndar þegar orðin ansi völt í sessi eftir sveitarstjórnarkosningarnar þar sem Samfylkingin galt afhroð á landsvísu en lafir samt enn á völdunum.

Hún ætti kannski að taka annan lame duck á forsætisráðherrastóli, Halldór Ásgrímsson, sér til fyrirmyndar, en í dag eru fjögur ár síðan hann sagði af sér forsætisráðherraembættinu, mæddur og sár.


mbl.is Már og Jóhanna ræddu launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stólapólitíkin lifir góðu lífi í Reykjavík

Pólitíkin er skrítin tík. Fjórflokkurinn fékk útreið í kosningum í Reykjavík og grasrótarframboð komst í oddastöðu - nýtti sér það ekki til að stokka pólitíkina upp og stofna til þjóðstjórnar á sínum forsendum heldur fór beint í faðm þess sem tapaði kosningunum. Skellur Samfylkingarinnar í Reykjavík var mikill og í raun með ólíkindum að Dagur B. Eggertsson hafi ekki þegar sagt af sér, enda rúinn trausti og fjarri því sá sem borgarbúar vildu að stýrðu málum í Reykjavík.

Jón Gnarr komst til valda og áhrifa á þeim forsendum að fólk vildi eitthvað nýtt. Síðasta atkvæðið hafði varla verið talið þegar þeir voru komnir í eltingaleik við Samfylkinguna og samdi um stólana. Málefnin hafa varla komist á blað. Blaðamannafundur Jóns og Dags í gær fjallaði aðeins um völdin og stólaskiptin, málefnin voru ekki til umræðu og þeir hafa ekki sýnt á spilin sín hvað málefnin varðar.

Þetta er í takt við myndun hundrað daga meirihlutans árið 2007 þegar enginn málefnasamningur var gerður og þau sett síðast á dagskrá. Samið var um stólana og valdahlutföll en málefnin sett til hliðar. Þetta var afar leitt. Nú á þessum tímum hefði ekki veitt af uppstokkun. Láta átti stólapólitíkina lönd og leið - henni var jú hafnað í kosningunum um síðustu helgi, ekki satt?

Mynda átti þjóðstjórn allra framboða og ráða faglegan borgarstjóra. Lengi vel hélt ég að Besti flokkurinn væri algjört grín. Fyrst farið var með brandarann alla leið átti Jón Gnarr að sjá sóma sinn í því að standa fyrir því að ráða faglegan borgarstjóra og kalla eftir samstarfi allra sem sitja í borgarstjórn. Með því hefði verið lagður grunnur að nýjum tímum og samvinnu allra aðila.

Ekki var byrjunin góð. Dagur og Jón litu út eins og tveir vonlausir trúðar í Kastljósi gærkvöldsins. Þeim gekk illa að útskýra framtíðarsýn nýs meirihluta. Stólar og völd voru eina umræðuefnið sem þeir gátu svarað. Nýjabrumið af þessum meirihluta er lítið og brandarinn er orðinn frekar súr. Nú verða menn að fara að sýna á spil sín og taka erfiðar ákvarðanir. Þetta er enn eftir.

Ég hef svo séð mikla umræðu um Danabrandarann hans Jóns Gnarr. Hann hefur augljóslega farið um allt í Norðurlöndunum. Þrír danskir vinir mínir á facebook og nokkrir í Svíþjóð og Noregi höfðu séð fréttina hjá Extrabladet og vildu vita meira um þennan furðulega borgarstjóra sem við hefðum eignast.

Tók smátíma að fara yfir það með þeim. Rétt eins og Silvía Nótt er þessi brandari Besta flokksins og Jóns Gnarr mjög lókal og ekki skiljanlegur á öðrum tungumálum. Versta virðist vera að hann ætlar að verða aulabrandari fyrir borgarbúa að óbreyttu. Stjórnmálin breytast lítið sýnist mér.

Stólapólitíkin sem leiddi af sér ítalska ástandið á síðasta kjörtímabili heldur áfram og vandséð hvort nokkur pólitískur stöðugleiki verði í þessum fimmaurabrandara.


mbl.is Danir rifja upp myndband með Jóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband