Kirkjuráð stígur mikilvægt skref

Mér finnst kirkjuráð stíga mjög mikilvægt skref í að bæta fyrir alvarleg mistök þjóðkirkjunnar í kynferðisbrotamáli Ólafs Skúlasonar, biskups, með því að biðja Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur afsökunar. Yfirlýsingin tekur mjög afgerandi á málinu, þar er viðurkennt að alvarleg mistök voru gerð og beðist fyrirgefningar. Þetta er mjög virðingarvert og ber að hrósa því sem vel er gert.

Mér finnst þjóðkirkjan vera að feta rétta leið með því að gefa út þessa yfirlýsingu í nafni kirkjuráðs og með rannsókn sem verður gerð á málinu öllu af aðilum ótengdum þjóðkirkjunni. Mikilvægt er að allar staðreyndir, hversu erfiðar og sorglegar þær eru, fari upp á borðið og þetta mál verði hreinsað alveg burt svo allir hlutaðeigandi geti unað sáttari við en ella.

Þó verður aldrei algjörlega bætt fyrir mistök fortíðar. Þau tilheyra liðnum tíma. En það er hægt að reyna að gera sitt besta með því að slá leyndarhjúpnum af. Þetta er erfitt mál fyrir þjóðkirkjuna og alla hlutaðeigandi.

En það er mikilvægt að sú staðreynd að kynferðisbrotamaður var biskup á Íslandi verði viðurkennd. Aldrei verður bætt fyrir þau mistök en það er hægt að reyna að gera hið rétta í vondri og erfiðri stöðu.

mbl.is Kirkjuráð biðst fyrirgefningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð munu standa

Ein af verstu ákvörðunum yfirstjórnar Ríkisútvarpsins af mörgum afleitum í kreppunni var að slá af hinn frábæra útvarpsþátt Orð skulu standa, í umsjón Karls Th. Birgissonar. Fyrir utan Óskastundina og Framtíð lýðræðis var þetta eini útvarpsþátturinn sem ég passaði alltaf upp á að hlusta á. Enda var hann virkilega vandaður og skemmtilegur, auk þess að vera áheyrilegur og stóð vörð um íslenskt mál.

Ansi er nú illa komið fyrir Ríkisútvarpinu þegar ákveðið er að slá af eina þáttinn sem er í útvarpi beinlínis til að huga að málrækt og huga að íslenskunni. Sumir í Efstaleitinu ættu nú að fara að hugsa sinn gang og velta fyrir sér hvort frekar sé hugsað um yfirbyggingu eða dagskrárgerð á þeim bænum.

En fátt er svo með illu illt að ei boði nokkuð gott, eins og sagði í laginu með Vilhjálmi og Elly Vilhjálms um árið. Frábært að hugmyndin af þættinum sé útfærð upp á nýtt og færð á svið. Svo er bara að vona að hann fái sitt rými aftur á dagskrá þegar menn hafa séð að sér.

mbl.is Þátturinn skal standa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband