Ævintýrið mikla í Frakklandi

Ævintýrið mikla hjá strákunum okkar á EM í Frakklandi heldur áfram með glæsibrag. Yndislegt var að sjá þá ná traustum en sögulegum sigri gegn enska landsliðinu nú í kvöld. Þar gekk allt upp en skipbrot hins forna stórveldis Englands var algjört. Samstaða þjóðarinnar hefur sjaldan náð meiri hæðum en nú - stórfenglegt að sjá hvernig strákunum hefur tekist að koma öllum á óvart með magnaðri frammistöðu sinni og stimpla sig inn sem eitt bestu liðanna í Evrópu.

Þetta er sérstaklega magnaður árangur eftir öll hin mögru ár landsliðsins forðum daga og í raun hefði engum órað fyrir slíkum árangri þegar liðið var í mikilli krísu fyrir örfáum árum og tekin var sú djarfa ákvörðun að leita til útlendings um að þjálfa liðið. Innkoma Lars Lagerback hefur verið magnþrungin, allt frá fyrsta leik hans var ljóst að þáttaskil voru í vændum og liðið blómstraði svo út í undankeppni fyrir HM 2014.

Mikil vonbrigði voru að komast ekki á HM eftir leiðinlegt tap gegn Króatíu í samanlögðu einvígi heima og utan. Freistandi var þá að óttast hið versta, að niðursveifla tæki við og uppgjöf kæmi í liðið. Öðru nær. Liðið hélt áfram að bæta sig, vann magnaða sigra, gerði nokkur jafntefli og tókst að tryggja EM sætið með sönnum bravúr, nokkrum leikjum fyrir lok undankeppninnar.

Væntingar fyrir EM hafa verið miklar, en samt voru landsmenn rétt fyrir mótið farnir að stilla sig og vonuðust aðeins eftir viðunandi lágmarksárangri, að engin yrði niðurlægingin. Strax við tvö jafntefli var vonin um að komast upp úr riðlinum fyrir hendi og sætur sigur gegn Austurríki kórónaði velgengnina. Væntingar fyrir leikinn gegn Englendingum voru því miklar. 

Strákarnir hafa staðist álagið með sóma, sýnt hversu traust heild þeir eru. Þetta mátti sjá í góðri mynd Sölva Tryggvasonar og Sævars Guðmundssonar, Jökullinn logar, þar sem saga liðsins frá lokum undankeppni EM til Frakklandsferðarinnar er rakin með bravúr, sérlega vel klippt og góð mynd. Þar sést hversu samhentur hópurinn er. Slík samstaða er forsenda fyrir árangri og gefur væntingar um fleiri sigra á komandi árum.

Ein lykilforsenda þess er góður stuðningur íslensku þjóðarinnar. Tólfan hefur verið traustur aðili í þessum árangri - sérstaklega er magnað að sjá hvernig hópurinn hefur náð að peppa upp alla áhorfendur og þjóðina með því að lyfta þjóðsöngnum okkar í hæstu hæðir og vekja gamla smellinn, Ferðalok (Ég er kominn heim) með Óðni Valdimarssyni til lífsins að nýju. Þetta er auðvitað ekkert nema tær snilld.

Nú er einvígi við Frakka í augsýn, um næstu helgi, á þjóðarleikvanginum sjálfum. Væntingar þjóðarinnar eru í hámarki og öll þjóðin fylgir liðinu okkar eftir, hvort sem er ytra eða hér heima. Samstaðan er einlæg traust og sönn. Þetta vekur athygli um alla álfuna og þó víðar væri leitað. Við erum að rita nýjan kafla í íþróttasögu okkar, sem og knattspyrnusöguna sjálfa. Litla stórþjóðin er mætt til leiks.

Við erum sigurvegarar hvernig sem fer um næstu helgi. Afrekið verður stórt hvernig sem fer og við verðum ekki vanmetin aftur. Þetta er ævintýrið okkar - megi það vara sem lengst.


mbl.is Ísland áfram eftir sögulegan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband