Sviptingar í Íhaldsflokknum - Boris ekki í framboð

Öllum að óvörum hefur Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri í London, ákveðið að gefa ekki kost á sér sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Ótrúlegar sviptingar, einkum í ljósi þess að Boris var helsta andlit Brexit-hópsins sem sigraði kosninguna um ESB-aðild Bretlands og leiddi baráttuna mikilvægasta sprettinn. Hann tók slaginn gegn David Cameron, forsætisráðherra, og hafði sigur í harðvítugri rimmu og lék lykilhlutverk í ósigri forsætisráðherrans, sem féll á sverðið eftir baráttuna.

Síðustu daga hafði verið sjálfgefið að Boris myndi rúlla upp leiðtogakjörinu og verða næsti forsætisráðherra og hafa betur gegn Theresu May, innanríkisráðherra. May hefur verið lykilmanneskja í ráðuneyti Cameron, innanríkisráðherra öll sex valdaár hans og verið mjög farsæl og setið lengst allra í ráðuneytinu í rúm 100 ár. Hún hefur mikinn stuðning í kjarnanum og sameinar andstæðinga Boris.

En pólitík er lúmsk og vika er langur tími í pólitík. Michael Gove sem stóð við hlið Boris í Brexit-baráttunni hafði verið talinn augljós arkitekt kosningabaráttu Boris og kandidat hans í fjármálaráðuneytið. Gove sneri baki við David Cameron með forystu sinni í Brexit hópnum og alkul í samskiptum þeirra, en Gove hafði verið náinn honum og guðfaðir Ivan, sonar forsætisráðherrans.

Þáttaskil í slagnum urðu er Gove og Boris náðu ekki saman um strategíu til að vinna úr sigri Brexit. Gove tilkynnti sjálfur um framboð og stakk Boris í bakið. Cameron og Osborne hafa greinilega leikið þátt í þessari fléttu og ná með því að slá Boris niður - óþægilegan keppinaut sem gerði út af við feril þeirra beggja.

Sigurvegararnir í þessari fléttu eru tveir:

Theresa May sem skyndilega er orðin líklegust til að hreppa hnossið og verða önnur konan á forsætisráðherrastóli á eftir Margaret Thatcher. Ný járnfrú gæti verið á leið í Downingstræti. Hún virðist samkvæmt könnunum njóta mikils fylgis og gæti orðið ansi öflugur forsætisráðherra.

George Osborne fjármálaráðherra gat ekki gefið kost á sér sjálfur til forystu. Hans pund féll með sterlingspundinu og stefndi í pólitísk endalok. Með því að splitta upp Gove og Boris hefur honum tekist að eygja von á að vera lykilmaður áfram með Gove eða May í Downingstræti. Áhrif hans virðast tryggð áfram hvernig sem fer. Hann hefði aldrei haldið embættinu hjá Boris.

Þetta verður hörð barátta og getur farið á hvorn veginn sem er. Theresa May og Michael Gove munu berjast um hnossið. Gove minnir um margt á John Major, hinn þögli kandidat sem sprettur fram úr skugganum og nær fullum völdum þvert á spár.


mbl.is Johnson gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband