Að loknum alþingiskosningum

Það er ekki ofsögum sagt að miklar sviptingar hafi orðið í alþingiskosningunum um helgina - pólitískur jarðskjálfti þegar tveir vinstriflokkar, annar þeirra einn af gömlu rótgrónu fjórflokkunum á pólitíska ásnum, hrökkva upp af með tilþrifum og elsti flokkur landsins verður um leið aðeins svipur hjá sjón. Sjálfstæðisflokkurinn náði miklum varnarsigri miðað við allar kannanir lengst af baráttunnar og var í lokin aðeins rúmu prósentustigi frá því að halda stöðu sinni sem stærsti flokkur landsins og missti aðeins tvo þingmenn þegar margar kannanir höfðu gefið til kynna að hann gæti misst um eða yfir helming fylgisins. Gríðarleg endurnýjun verður í þinginu, helmingur þingsins eru nýliðar með afar ólíkan bakgrunn í pólitík og þjóðmálum.

Bjarni Benediktsson gerði rétt með því að rjúfa þingið og stokka upp spilin þegar erindi fráfarandi ríkisstjórnar hafði þrotið með svo áberandi hætti fyrir langa löngu. Sjálfstæðisflokkurinn tekur högg í úrslitunum en átti í fullum færum að bæta sinn hlut á góðum lokasprett baráttunnar og hefði mögulega náð enn betri árangri hefði baráttan verið örlítið lengri. Það var gott að finna kraftinn í grasrótinni þegar á reyndi og vondar kannanir hrúguðust upp að það væri svo fimlega hægt að snúa vörn í sókn. Það ræðst svo hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær í stjórn eður ei, en hvernig sem það fer er uppbygging hafin með öflugum þingflokk sem lætur til sín taka í þinginu hvoru megin stjórnarþátttöku hann lendir, þó ég hefði viljað Jón og Brynjar inn, að ógleymdri Ingveldi sem hefði verið fersk viðbót í þingið.

Samfylkingin mældist í könnunum með allt að 32% fylgi þegar mest var en í lokin hafði það dregist verulega saman - tvöfaldast frá kosningum 2021. Vinstrivængurinn er þó brotinn. VG náði ekki að spyrna sér frá feigðarósi, átti ekki innistæðu til að endurnýja sig með nýjum andlitum í bland við ráðherrana sem vildu ekki sitja áfram í starfsstjórn. Það voru afdrifarík pólitísk mistök þegar VG hafnaði þeirri stjórnarsetu - Svandís fór í fýlu yfir því að ná ekki að slíta á undan Bjarna. Þá fór vatnið úr baðkarinu og ekki aftur snúið. Píratar höfðu hátt í stjórnarandstöðu og spiluðu djarft í orðum og pólitískri aðgerðarsemi en uppskáru ekki. Þeir höfðu misst pönkið og djúsinn. Feigð allra þriggja flokka, bæði rótgróins grundvallarflokks úr ranni harðra sósíalista, og nýju sossanna og pírataáhafnarinnar er þungt högg á vinstriarminn.

Viðreisn tókst að poppa sig upp í kjördæmiskjör um allt land. Þar bjó flokkurinn klárlega að víðtækri pólitískri reynslu Þorgerðar Katrínar sem þrátt fyrir að vera starfsaldursforseti þingsins er enn á besta pólitíska aldri og spriklandi hress. Henni tókst að finna nýjan þráð nú þrátt fyrir sín fyrri pólitísku áföll í hruninu og vonbrigðum í tveimur síðustu þingkosningum. Ný andlit hjálpuðu til við það en einnig um leið lánleysi annarra. Flokkur fólksins styrkir sig verulega með nýjum þingmönnum, bæði yngri og eldri undir röggsamri forystu Ingu. Það er hressandi að sjá Jónínu Óskarsdóttur, gamalreynda pólitíska kempu frá Ólafsfirði á fyrri tíð, koma aftur í miðpunkt stjórnmála sem andlit eldri borgara, hóps sem flokkurinn höfðaði til með miklum sóma. Inga var einbeitt, djörf og hress í baráttunni. Alþýðutaug hennar styrkleiki í stóru sem smáu. En nú þurfa verkin að tala - vandi fylgir jú vegsemd hverri fyrir Ingu.

Framsóknarflokkurinn fær sögulegt afhroð, sitt lægsta fylgi og um leið fámennan þingflokk sem er brotinn í ólgusjó í lokaspili fallinnar ríkisstjórnar. Flokkurinn þurrkast út á höfuðborgarsvæðinu og missir alla ráðherrana sem þar sitja á þingi fyrir borð og rýrnar verulega á landsbyggðinni. Þrátt fyrir þungt bylmingshögg flokksins lifir formaðurinn Sigurður Ingi annan dag og stendur þrátt fyrir allt eftir með pálmann í höndunum, hann varð eins og gamalt ljós með nýtt batterí í miðjum umræðuþætti þegar hann náði kjöri að nýju og mun stýra enduruppbyggingu flokksins fyrsta spölinn hið minnsta og fær fullan frið við það. Bíbí Ísaksen sú eina sem ógnar honum í þeirri uppbyggingu og er allt í einu orðin vonarstjarna flokksins. Halla Hrund er veikari en ella fyrst SIngi fór inn og skaddaðist í baráttunni, það er einfalt mál. En um leið var það varnarsigur fyrir flokkinn að halda bændakempunni Tóta inn á þingi.

Miðflokkurinn nær aftur svipuðum þingstyrk og slagkraft og hann fékk í þingkosningunum 2017. Sigmundur Davíð safnaði til sín fólki úr ólíkum áttum en einbeitt í því að láta til sín taka í pólitíkinni. Af nýju þingmönnunum finnst mér mest áhugavert að fylgjast með pólitískri endurkomu Siggu Andersen, vinkonu minnar, sem missti bæði ráðherrastól og þingsæti í kjölfarið í kröppum dansi innan Sjálfstæðisflokksins í veirutíðinni og dómarahasarnum, og Nönnu systur Sigmundar Davíðs sem hefur verið ein af sterkustu stoðum Simma í sinni pólitík. Snorri verður líka spriklandi hress í þinginu. Svo auðvitað vekur athygli í feigðarför VG að Lilja Rafney á endurkomu í þingið undir merkjum Flokks fólksins. Hún verður eina rótgróna rödd VG sem lifir blóðtökuna af með nýjan gulan fána í hendi.

Við sjálfstæðismenn í Norðaustur getum glaðst yfir því að Njáll Trausti náði góðu endurkjöri þrátt fyrir að sögulega höfum við alltaf verið veikari hér og gátum búist við þungum róðri í þessu árferði. Það var mikils virði að Njalli naut sinna góðu verka í þinginu þó óneitanlega væri það þungt högg að missa oddvitastólinn í kjördæminu. Jens Garðar kemur sterkur til leiks. Hann er hress og einbeittur í sinni pólitík. Við Jenni höfum átt samleið síðan í ungliðapólitíkinni og eigum sömu góðu ræturnar frá Eskifirði einnig sameiginlegar. Það er góður bakgrunnur fyrir landsbyggðarþingmann að eiga rætur við sjóinn. Jenni og Njalli eiga eftir að vera góð blanda saman í flokksstarfinu í kjördæminu, bæta hvorn annan upp með styrkleikum sínum.

Að lokinni snarpri og líflegri baráttu er komið að stóra örlagadansinum. Mynda þarf ríkisstjórn til að taka á fjölda brýnna verkefna, það gæti orðið líflegur tangó að fá þrjá til að dansa saman í gegnum dramað sem bíður - vinna úr pólitískum óskalista ólíkra flokka. Það er eitt að mynda stjórn og annað að hún lifi í pólitískum ólgusjó með færri flokka inn á þingi og mismunandi skoðanir þar sem þrjá þarf að borðinu svo þjóðarskútan fúnkeri í gegnum sjóferðina sem bíður.

Það verður áfram líf og fjör í pólitíkinni þó þjóðin hafi fellt sinn dóm og kosið nýtt þing - hvort sem við fáum kvennastjórn, stjórn með borgaralegum gildum eða þriðja kost, djarfari bræðing.


mbl.is Útiloka ekki Samfylkingu: Meiri samleið með Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband