Pólitískar vendingar með hækkandi sól

Sjálfstæðisflokkurinn er á leið í stjórnarandstöðu eftir ellefu og hálft ár samfleytt við stýrið á þjóðarskútunni - jafnlangur tími og Margaret Thatcher sat sem forsætisráðherra Bretlands. Rétt eins og hjá Thatcher hefur þessi tími einkennst af miklum áskorunum og erfiðum ákvörðunum á örlagatímum en um leið traustum myndugleik. Það var töff tími að stýra málum í því árferði sem verið hefur í gegnum veiruna, náttúruhamfarir og fjölda annarra áfalla á slíkum örlagatímum. Þetta hefur verið afar viðburðaríkur áratugur í stóru sem smáu.

Bjarni Benediktsson og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta farið keikir frá borði eftir að hafa staðið vaktina með miklum sóma. Sjálfstæðisflokkurinn verður öflugt forystuafl í stjórnarandstöðu og bæði endurnýjar þar erindi sitt sem pólitískt hugsjónaafl og þéttir raðirnar í flokksstarfinu við breyttar aðstæður; fara í ræturnar og finna nýjan byr til forystu síðar meir. Það er verkefni sem verður gaman að taka þátt í með öflugum þingflokki og forystu flokksins sem verður kjörin á næsta landsfundi.

Það er öllum flokkum hollt að starfa í stjórnarandstöðu og fara í þá innri vinnu sem fylgir því að veita ríkisstjórn verðugt aðhald. Nýrri ríkisstjórn fylgja tímamót. Kristrún Frostadóttir verður yngsti forsætisráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu, í fyrsta skiptið eru einungis konur formenn stjórnarflokka og mikill fjöldi nýrra ráðherra sitja við borðið. Um hrein stjórnarskipti er að ræða rétt eins og 2013 þegar aðeins nýjir ráðherrar tóku sæti í ríkisstjórn. Það var í fyrsta skiptið frá 1971 sem hrein stjórnarskipti urðu.

Stjórnarsáttmálinn og áherslur í honum vöktu eðlilega athygli mína og fleiri. Útgjöld allan hringinn - það á að gera margt og mikið fyrir fjölda fólks, kynningin virkaði eins og óskalisti fyrir jólasveinninn sem á allur að rætast í heild frekar en fullmótað og niðurnjörvað plan. Svolítið rýrt eftir þrjár vikur í stjórnarmyndunarviðræðum. Það vantaði í mörgu nákvæmar útfærslur og fjármögnun á óskalistanum. Það verður gaman að sjá hvernig staðið verður að því en líklega verður um týpískar skattahækkanir að ræða, skattlagningu á atvinnuvegi og þær stoðir sem standa undir hagvexti og samfélaginu í heild. Um ESB hefur aðeins náðst sú samstaða að vera ósammála, það gildir um fleiri mál ef að er gáð. Þrátt fyrir fögur fyrirheit valkyrjanna glittir í sprungur á skelinni.

Engu er líkara en hrært hafi verið í þessa jólaköku til þess að hún yrði til um jólin frekar en vanda meira til verka. Það hvarflar að manni að það hafi legið á að koma þessu á koppinn fyrir áramót svo Bjarni Benediktsson flytti ekki áramótaávarp. Að öllu gamni slepptu verður framhaldið mun áhugaverðara en þetta start. Hvernig gangi að koma þessum óskalista í framkvæmd. Í öllu falli er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar í stjórnarandstöðunni munu veita verðugt aðhald og passa upp á þessa vetrarsólstöðustjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum í stjórnarandstöðu. Engu að síður stendur flokkurinn vel. Hann náði mun betri kosningu en kannanir gáfu lengst af til kynna, missti aðeins tvö þingsæti og er öflugt forystuafl í stjórnarandstöðu. Forysta flokksins er vel mönnuð. Að baki Bjarna eru einnig öflugar konur sem munu njóta sín í stjórnarandstöðu og finna kraft í komandi verkefni rétt eins og aðrir þingmenn flokksins munu eflast við að losna úr fjötrum í erfiðu samstarfi um langt skeið.

Með hækkandi sól mun Sjálfstæðisflokkurinn styrkjast enn meir til framtíðar - aldargamall flokkur sem hefur staðið vaktina með sóma bæði í forystu stjórnar og stjórnarandstöðu mun ekki eiga erfitt með að finna hugsjónum sínum farveg í baráttunni gegn valkyrjustjórninni.


mbl.is Beint: Ný ríkisstjórn tekin við völdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband