Áhugavert uppgjör Geirs Haarde við pólitíkina og lífsins áskoranir

Í góðra vina hópi sjálfstæðismanna á Akureyri hitti ég Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, á aðventunni þar sem hann kynnti nýútkomna ævisögu sína og áritaði hana. Það var ánægjulegt að ná að hitta Geir og eiga samtal við hann um farinn veg og þau álitaefni sem fylgja uppgjöri við merka ævi hans og starf á ólíkum vettvangi. Sjálfan bókarlesturinn geymdi ég til jóla og naut þess að lesa mig í gegnum skrifin þar sem Geir hélt sjálfur um pennann og fór afar skilmerkilega gegnum æviskeið sitt.

Í gegnum lesturinn skín afar skært hversu mikill sómamaður Geir er. Það er mikill styrkleiki fyrir bókina að Geir skrifar hana sjálfur og hleypir lesandanum að innstu kviku sinni. Bókin einkennist af mikilli næmni, hlýju og einlægni í uppgjöri jafnt við sjálfan sig í blíðu og stríðu og samferðarmenn sína í ólíkum verkefnum á löngu æviskeiði. Í bókarbyrjun lýsir Geir æsku sinni og uppvexti, jafnt hlýjum minningum þar sem hann lýsir hverfinu sínu í vesturbænum og Reykjavík á miklu breytingaskeiði eftir stríð og um leið þeim ljúfsáru á fyrri hluta sjöunda áratugarins sem fylgja miklum ástvinamissi á viðkvæmum tíma þegar faðir hans og bróðir, og einnig afi hans og amma kveðja, þar sem barn fullorðnast og þarf að horfast í augu við breytta lífsumgjörð.

Bókin hefst á andláti afa Geirs, Steindórs bílakóngs, árið 1966 sem markaði mestu þáttaskilin þegar æskuheimilið í Sólvallagötu, þar sem fjölskyldan átti sinn mikla miðpunkt í lífi og starfi, líður undir lok og hann herðist sem einstaklingur áleiðis inn í unglingsárin og finnur sjálfan sig þroskast áleiðis í pólitískri þátttöku þar sem hann blómstrar í félagsstarfi þar sem allir kostir hans sem persónu skína svo ljúflega í gegn og gerði hann að forystumanni áleiðis til krefjandi verkefna í stjórnmálum. Þessum breytingum lýsir Geir af hlýju og einlægni og hlífir sér ekki. Það er áhugavert að sjá úr hversu heilsteyptum og mannlegum rótum Geir rís upp til afreka í verkum sínum innan Sjálfstæðisflokksins sem vel menntaður maður í sínu fagi yfir í formennsku í SUS, þingmennsku og ráðherrasetu.

Geir kemur inn á þing 1987 í miðjum átökum og uppgjöri Sjálfstæðisflokksins undir forystu Þorsteins Pálssonar við Albert Guðmundsson þegar hann hrökklast af ráðherrastóli og stofnar ný stjórnmálasamtök, Borgaraflokkinn, þar sem Albert fer inn á þing við sjöunda mann í eftirminnilegum pólitískum vendingum. Geir lýsir Albert afar vel enda áttu þeir náið samstarf þar sem hann var aðstoðarmaður bæði Alberts og Þorsteins í fjármálaráðuneytinu allt kjörtímabilið fyrir uppgjörið. Litlu munaði að Geir næði ekki inn á þing í þeim kosningum vegna fylgistapsins í Reykjavík en hann fór inn sem jöfnunarmaður. Það er áhugavert að lesa hvernig Geir gerir upp við tíma sinn sem aðstoðarmaður hjá þessum tveimur mönnum ólíkra kynslóða og starfshátta í pólitísku starfi.

Geir varð í kjölfarið einn af lykilmönnum í uppbyggingu Sjálfstæðisflokksins innan og utan ríkisstjórnar áleiðis í stórsigurinn mikla 1991 þegar 26 þingmenn náðu kjöri af hálfu flokksins - upphafið á átján ára stjórnarsetu flokksins þar sem Geir var fyrst þingflokksformaður í sjö ár og síðan ráðherra í rúman áratug; fyrst fjármálaráðherra í önnur sjö ár undir pólitískri forystu Davíðs Oddssonar og síðan formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrst sem utanríkisráðherra um stund og síðan forsætisráðherra eftir að Halldór Ásgrímsson hrökklaðist úr pólitík við illan leik þegar Framsóknarflokkurinn réði ekki við hita og þunga forsætisráðuneytisins. Það skín í gegnum fyrri hluta forsætisráðherrafrásagnar Geirs hversu þreytt samstarfið við Framsókn var orðið.

Þessum vendingum lýsir Geir afar vel og færir lesandann beint inn í miðpunkt erfiðra ákvarðana og þeirra pólitísku áskorana sem fylgdu þessu blómlega skeiði í sögu flokksins sem kórónast í miklum kosningasigri Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs 2007. En sigrum fylgja oft brátt sorgir og þungir straumar. Það mátti Geir svo sannarlega reyna þegar íslenska bankakerfið óx um einum of djarflega og sogaðist loks inn í alþjóðlegu fjármálakrísuna haustið 2008. Það var svo sannarlega lán þjóðarinnar að grandvar og heiðarlegur maður á borð við Geir sat við stýrið þegar pólitíska lognið umbreyttist í örlagaríkan öldudal. Geir átti sín fleygustu orð þegar ríkið tók innlendan hluta bankanna í fangið en lét erlend umsvif fyrir róða í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar sem lauk með eftirminnilegri kveðju - Guð blessi Ísland.

Líklega er þetta eftirminnilegasta ávarp íslensks þjóðarleiðtoga fyrr og síðar - augnablik sem greypt er í minni allra sem horfðu á Geir flytja þjóðinni váleg tíðindi í mildri umgjörð sem fylgdi einlægni og hlýju mannsins við stýrið á þjóðarskútunni. Það er enginn vafi á því að það var lán þjóðarinnar að Geir og samstarfsmenn hans innan og utan Stjórnarráðsins tóku fumlaust í stýrið og færðu þjóðinni neyðarlögin sem reyndust sterk haldreipi íslensku þjóðarinnar til uppbyggingar við breyttar aðstæður þar sem bankarnir störfuðu áfram, kortin virkuðu áfram og landið fór ekki í algjört frost. Það er afrek sem vert er að halda til haga og skiptu sköpum í Icesave-málinu síðar meir þegar þjóðin hafði sigur í frægu dómsmáli.

Þegar gert var upp við þennan tíma reyndust fjandmenn Geirs það eitt hafa á hann að hafa ekki haldið nógu marga ríkisstjórnarfundi. Geir fer afar vel yfir þessa miklu örlagatíma og það er í raun mikil upplifun að lesa af hversu mikilli einlægni hann fer yfir þessa örlagatíma þegar þjóðin lenti í öldudalnum og pólitískur óstöðugleiki bættist brátt í önnur krefjandi verkefni þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar brast eftir plottvendingar forystumanna á vinstrivængnum til að koma í raun bæði Geir og Ingibjörgu Sólrúnu frá. Þau veiktust bæði illa á þessum tímum þegar vinnuálagið varð bæði ómanneskjulegt og harðneskjulegt. Þeim svikráðum lýsir Geir með virðingarverðum hætti þar sem hann talar af miklum drengskap um umskiptin sem fylgdu heilsubrest og því að missa forsætið í ríkisstjórn, þegar hann gaf eftir formennskuna í Sjálfstæðisflokknum og hætti þátttöku í stjórnmálum.

Fjandmenn Geirs létu ekki þar við sitja heldur drógu hann einan úr hópi ráðherra á þessum örlagatímum og settu hann á sakamannabekk í frægu landsdómsmáli þar sem pólitisk undirmál og skítleg vinnubrögð höfðu betur gegn sanngjörnu mati í uppgjöri við bankahrunið. Pólitísk réttarhöld sem einkenndust af hefnd lítilla kalla við einn mann sem gerður var að blóraböggli, látinn standa reikningsskil af meintum brotum þegar alþjóðleg efnahagsleg krísa gekk yfir allan heiminn. Á meðan sluppu formaður hins stjórnarflokksins á tíma hrunsins og viðskiptaráðherrann við þetta uppgjör - þeim var komið í skjól af flokksfélögum sínum og vildarvinum í nýju stjórnarsamstarfi á þingi. Vægast sagt undarlegt "réttlæti" og skakkt uppgjör sem þarna var í spilunum og lítur æ verr út í sögubókum framtíðar. Allir veikleikar landsdóms opinberuðust í þessu ferli.

Eftir stóð í yfirferð málsins að rétt var haldið á málum á örlagastundu. Mun verr hefði getað farið. Undir forystu þeirra sem réðu málum var tekið skynsamlega á málum. Neyðarlögin og gjaldþrot bankanna var rétta leiðin úr þessum ógöngum. Auðvitað var skaði Íslands nokkur, en bæði tímasetning hrunsins reyndist heilladrjúg og aðferðin til lausnar krísunnar var sú rétta. Undarlegast við þennan skrípaleik allan, eins skrautlegur og hann reyndist, var skortur á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, og svo þaðan til landsmanna allra. Aðeins var boðið upp á twitter-skrif úr réttarsal. Engu líkara var en réttarhöldin væru haldin um miðja 20. öld eða jafnvel nítjándu öld og aðeins hægt að skrifa fréttir í dagblöð morgundagsins.

Fornaldarbragurinn á landsdómi reyndist algjör. Skortur á miðlun upplýsinga, staðsetning pólitísku réttarhaldanna og yfirbragðið frá a-ö var til skammar. Geir gerir hressilega upp við þá sem hrærðu í þennan vonda kokteil; guðföður görugu vinstristjórnarinnar, Össur og Steingrím J. og fylgisveina þeirra á vondri leið. Hann fer fimlega yfir allt málið og hvernig það var lagt og sendir beittar pillur til þeirra sem hlóðu upp þennan misráðna pólitíska bálköst. Steingrímur J. fær mikla útreið og greinilegt að hefndarþorsti hans eftir að Geir vildi ekki starfa með honum að afloknum kosningum 2007 og í þjóðstjórn 2008 var ráðandi í hversu harkalega hann sótti að Geir þegar á reyndi.

Þarna átti að taka æruna af Geir Haarde en þegar málið var gert upp stóð ekkert eftir nema sýknudómur en klínt á hann vægum sökum um of fáa ríkisstjórnarfundi en honum ekki gerðar sakir fyrir það. Þetta voru pólitískar nornaveiðar af ógeðfelldri sort. Geir hefur eðlilega engu gleymt eftir þennan darraðardans og gerir upp við þá sem héldu um valdatauma í þessu vonda ferli. Geir varð í kjölfarið sendiherra Íslands í Washington og fulltrúi hjá Alþjóðabankanum.

Það var mikilvægt að Geir fengi uppreist æru eftir landsdómsmálið og fengi góð ár til annarra verka eftir að hann náði heilsu að nýju og hafði unnið úr landsdómsmálinu. Sá bókarkafli snart mig sennilega minnst en það er greinilegt að ný og krefjandi verkefni eftir sáran tíma þar sem hann var dreginn að ósekju á sakamannabekk var mikilvægt skeið fyrir Geir til að sýna styrkleika sína í orði og verki. Inn í söguna blandast góðar sögur sem krydda bókina, t.d. bankarán á fjarlægri slóð sem Geir lenti í fyrir tilviljun.

Ævisaga Geirs er heilsteypt og mikilvæg úttekt á merki æviskeiði forystumanns í félagsstörfum og pólitískri starfi á sinni tíð, manns sem hefur alltaf látið gott af sér leiða og skipt sköpum í því að taka farsælar ákvarðanir á krefjandi tímum jafnt í logni sem og stormi. Á þeim tímum þegar vandaðar ævisögur hafa verið að hopa í jólabókaflóðinu er afar dýrmætt að fá eina svo vandaða og heilsteypta rétt eins og viðfangsefnið hefur reynst í gegnum árin.

Þetta er algjör skyldulesning fyrir þá sem unna stjórnmálum og vilja heiðarlegt uppgjör við menn og málefni sem skipt hafa sköpum í íslenskri stjórnmálasögu. Geir sýnir með skrifum sínum hversu traustur hann reyndist í sinni pólitík og um leið einlægur í styrkleikum sínum sem persónu og landsföður á örlagatímum. Það hefur sýnt sig á ritdómum um bókina að hér er haldið fimlega á penna og í engu ýkt eða skreytt til góðs eða ills.

Þegar ég hitti Geir hér á Akureyri og hann áritaði bókina fyrir mig fann ég vel hversu sárt það var að við nytum ekki lengur forystu hans eftir hrun og hann fengi tækifæri til að stýra flokknum og þjóðinni áfram, fengi að fara frá við betri aðstæður hið minnsta. En ég tel að Guð hafi fylgt honum í gegnum allar áskoranir hans rétt eins og hann blessaði þjóðina í frægum orðum og mér fannst rétt að Geir áritaði bókina með þessum fleygu orðum hans sem hafa reynst svo heilladrjúg til lengri tíma litið.

Þetta er uppgjör sem bæði kveður að og reynist sanngjarnt í stóru sem smáu - stærsti styrkleiki bókarinnar og þeirri umgjörð sem fylgir viðfangsefninu.


Bloggfærslur 30. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband