Hörð skot á milli Kristjáns Þórs og Jóhannesar

Jóhannes og Kristján Þór Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag tókust Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, og Jóhannes Bjarnason, leiðtogi Framsóknarflokksins, harkalega á og settu átökin mark sitt á síðasta fund Kristjáns Þórs sem bæjarstjóra. Var deilt um rammasamning vegna byggingar Vaxtarræktarinnar inn á lóð Sundlaugar Akureyrar, sem gerður var fjórum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor er meirihluti flokkanna sat enn.

Fullyrti Jóhannes að samningurinn hefði verið gerður án vitundar Jakobs Björnssonar, fyrrum bæjarstjóra, sem var leiðtogi flokksins fram til kosninganna í fyrravor. Jóhannes, sem var bæjarfulltrúi flokksins á síðasta kjörtímabili í meirihluta flokkanna, fullyrðir að hann hafi ekki vitað um málið og sama segir Gerður Jónsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknar, sem var ennfremur í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili, en féll í kosningunum í fyrravor. Kristján Þór vísaði þessu á bug á fundinum og sagði að Jakob hefði vitað um málið. Fluttu þeir harðorðar ræður gegn hvorum öðrum á fundinum.

Rætt var um málið á fundi bæjarráðs í morgun, að fjarstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni, en hann situr nú ekki lengur fundi bæjarráðs, enda ekki lengur bæjarstjóri og ekki bæjarráðsmaður af hálfu Sjálfstæðisflokks. Þar var rammasamningurinn endanlega staðfestur í ljósi afgreiðslu á deiliskipulagsbreytingum á sundlaugarsvæðinu á þriðjudag. Jóhannes lagði þar fram harðorða bókun gegn samningnum. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, og bæjarfulltrúar flokksins í bæjarráði; Elín Margrét Hallgrímsdóttir, varaformaður bæjarráðs, og Hjalti Jón Sveinsson svöruðu með ályktun þar sem þau vísa á bug að rammasamningurinn sé ólöglegur.

Deilur um málið hafa verið nokkrar í bænum og sundfélagið Óðinn haldið úti harðri baráttu gegn því að byggt sé á reitnum og skiptar skoðanir meðal bæjarbúa. Sitt sýnist hverjum. Það verður fróðlegt að sjá hverjir eftirmálar verða, en sundfélagið hefur látið í veðri vaka að kæra það að byggt verði á þessum reit og að afgreiðslan hafi verið óeðlileg á sínum tíma. Átök verða því áfram um málið þó það hafi verið afgreitt af bæjarstjórn og bæjarráði í vikunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband