Líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair

Tony Blair Öruggt má telja að árið 2007 verði viðburðaríkt í breskum stjórnmálum. Tvennt stendur upp úr nú þegar: tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins þann 2. maí nk. og endalok stjórnmálaferils Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, en hann mun yfirgefa Downingstræti 10 fyrir sumarlok. Tony Blair hefur átt stormasaman áratug í embætti. Hann kom fyrst í Downingstræti á bylgju velvildar kjósenda og var táknmynd heiðarleika gegn spillingu íhaldsstjórnanna undir lokin en fer þaðan sem táknmynd þess sama og hann tók við.

Þegar að pólitískur ferill Tony Blair verður rakinn mun Íraksmálið verða þar ofarlega á baugi. Það er eitt stærsta mál hans ferils og grafskriftin sem því fylgir er öllum ljós. Oftar en þrisvar á fjórum árum Íraksstríðsins var hann nærri kominn að því að hrökklast frá embætti. Tæpast stóð hann sumarið 2003 þegar að vopnaeftirlitsmaðurinn dr. David Kelly fyrirfór sér. Hann stóð það mál af sér, með naumindum þó, og hvítþvottaskýrslan var svo augljóslega lituð og undarleg að enn er um talað. Íraksstríðið eyðilagði pólitíska arfleifð Blairs, það blasir við öllum.

Hvað er hægt að segja um Blair þegar að hann fer? Hann hafði jú vissulega níu líf kattarins og tókst svipað oft að sleppa frá afsögn og skammarlegum pólitískum endalokum. Hann reddaði sér fyrir horn síðast í september er litlu sem engu munaði að hallarbylting yrði gerð. Sá hristingur afrekaði þó að tímasetning fékkst upp úr Blair með hvenær að hann myndi hætta. Hann beygði sig undir óvildarmennina og varð að gefa upp dagsetningu til að hann næði valdaafmælinu í maí. Það var eina ambítíón Blairs er þar var komið sögu að geta staðið brosandi vígreifur í dyragættinni í Downingstræti, rétt eins og Thatcher árið 1989. Hann fer þó þaðan eins og Thatcher; skaddaður og rúinn í gegn.

Einu sinni fannst mér Tony Blair vera einhvers virði, ég viðurkenni það fúslega. Mér fannst John Major aldrei spes. Það að Thatcher skyldi ekki þekkja vitjunartíma sinn var mikill pólitískur harmleikur og öflugur eftirmaður kom ekki til sögunnar. Major dugaði, en ekki hótinu meira en það. Hann virkaði á mig og flesta aðra sem meinleysislegt grey sem reyndi sitt besta og tókst hið ómögulega; að vinna kosningarnar 1992. En honum var sturtað út fimm árum síðar. Þó að ég vonaði lengi að Major hefði það fannst mér ferskleiki yfir innkomu Blairs, enda var hann byrjun á einhverju nýju. Hann hlýtur að hafa valdið mestu stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.

Þeir segja spekingarnir sem ég met mest hjá Guardian að Gordon Brown sé enn nógu sterkur til að halda það lengi út að geta tekið við af honum Blair fyrir haustvindana. Það hafa orðið sættir milli hans og helstu Blair-istanna og Brown fær að öðlast lyklavöldin þegar að Blair fer loksins. Brown hefur beðið í árafjöld eftir tækifærinu. Fær hann að blómstra í embættinu? Er hann ekki orðinn einn þeirra krónprinsa sem biðu of lengi? Getur hann blómstrað í slag við David Cameron? Þetta er stóra spurning breskra stjórnmála nú.

Nú stendur nefnilega Brown blessaður og fellur með arfleifð Blairs. Hann tekur hana nefnilega í arf með öllu því vonda og beiska sem henni fylgir. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að skotinn plotteraði stendur undir þeirri arfleifð er Teflon-Tony keyrir inn í sólsetrið í eftirlaununum á besta aldri.

mbl.is Blair: Skynsamlegt að fjölga í liði Bandaríkjamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband