Verður Kristinn H. forstjóri Tryggingastofnunar?

Kristinn H. Gunnarsson Mikill orðrómur er um það nú að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, verði forstjóri Tryggingastofnunar. Eftir að hann varð undir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi hefur mikið verið rætt um pólitíska framtíð hans. Hann missti þar öruggt þingsæti úr höndunum. Mestu vangaveltur hafa verið um það hvort að hann taki þriðja sætið, sem er öllum ljóst að er varaþingsæti, eða fari í framboð á eigin vegum eða annarra. Möguleikinn á því að hann verði settur yfir Tryggingastofnun er einn þeirra sem heyrst hafa og óvarlegt að útiloka hann algjörlega.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, mun skipa forstjóra Tryggingastofnunar ef að því kemur fyrir þingkosningar. Fyrirséð er að forstjóraskipti verði þar fljótlega, enda er Karl Steinar Guðnason, sem verið hefur forstjóri stofnunarinnar allt frá árinu 1993, nú að nálgast sjötugt. Skipan Karls Steinars í forstjórastól Tryggingastofnunar fyrir einum og hálfum áratug var umdeild og þótti til marks um vandræðalegar skipanir í embætti af hálfu Alþýðuflokksins. Umræðan um hana varð mikil og enn heyrast þær raddir að Karl Steinar hafi fengið stöðuna til að rýma til fyrir ráðherrakapli og öðrum málum í stjórnmálum. Um hafi verið að ræða dúsu.

Sé einhver framsóknarmaður í aðdraganda þessara kosninga sem flestir framsóknarmenn telja rétt að gefa dúsu og embætti til að rýma til í vondum aðstæðum er það Kristinn H. Það er ekki óvarlegt a ætla að hann komi til greina í þessa stöðu enda er hann formaður stjórnar Tryggingastofnunar og hefur verið á þessu kjörtímabili. Vangaveltur um stöðu Kristins H. er væntanlega mikið til umræðu innan stjórnmálalitrófsins í Norðvesturkjördæmi. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn að afstýra sérframboði eða klofningi sem yrði með brotthvarfi Kristins H. Enn liggur ekkert fyrir en það blasir við að niðurstaða fáist í málið, enda stutt í kjördæmisþing flokksins þar sem samþykkja á endanlegan lista.

Kristinn H. hefur verið miðpunktur átaka innan Framsóknarflokksins nær allt frá fyrsta degi innan flokksins, en þó umfram allt á þessu kjörtímabili. Hann missti formennsku þingflokksins strax eftir kosningarnar 2003, missti allar nefndasetur sínar með eftirminnilegum hætti haustið 2004 vegna átaka við Halldórsarminn, var tekinn í sátt í ársbyrjun 2005 en hefur haldið uppi andstöðu og beittum efasemdum gegn forystu flokksins. Hann hefur þó virst rólegri í þeim efnum eftir að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaþátttöku. Fari hann til verka í Tryggingastofnun blasir við öllum af hverju það verður.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristinn H. er prýðilegur stærfræðingur og á því erindi í embættið en hvað fær þá Jón Kristjánsson?

rta (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 18:44

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Mér skilst að Jón ætli bara að fara að taka því rólega austur á fjörðum. Hann er reyndar formaður stjórnarskrárnefndar og verður í því eitthvað, en hann er eflaust kominn með góð eftirlaun eftir sex ár sem ráðherra og yfir tvo áratugi á þingi.

mbk

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.1.2007 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband