Valgerður leiðir - Birkir og Höskuldur næstir

Valgerður Sverrisdóttir Listi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi liggur nú fyrir. Valgerður Sverrisdóttir, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þór Þórhallsson skipa efstu þrjú sæti framboðslistans, en Huld Aðalbjarnardóttir, kennari á Kópaskeri, er í fjórða sætinu. Það kemur engum á óvart að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, skipi leiðtogasæti framboðslistans. Hún hefur setið á þingi frá árinu 1987 og verið kjördæmaleiðtogi af hálfu Framsóknarflokksins frá árinu 1999. Hún er nú fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Valgerður er afgerandi forystumaður Framsóknarflokksins og verið áberandi forystumaður innan flokksins, hún var þingflokksformaður 1995-1999 og verið ráðherra frá 31. desember 1999, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en varð fyrst kvenna utanríkisráðherra í júní 2006. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, hlýtur afgerandi kosningu í annað sætið, sem kemur engum að óvörum í ljósi þess að hann var eini sitjandi þingmaðurinn í framboði, utan Valgerðar. Hann er formaður fjárlaganefndar og sveitarstjórnarmaður í Fjallabyggð fyrir flokkinn og hefur sterka stöðu. Birkir kom inn síðast sem eitt af framtíðarefnum flokksins og er nú næstur Valgerði og líklegur eftirmaður hennar síðar meir.

Höskuldur Þórhallsson hlýtur kosningu í þriðja sætið. Hann var augljós fulltrúi Akureyringa í fremstu röð á listann, en Akureyringar náðu aðeins efst fimmta sætinu á kjördæmisþingi fyrir fjórum árum, en þá varð Þórarinn E. Sveinsson í því sæti. Höskuldur hefur lengst af sinnar ævi búið í Hörgárdal og Akureyri, en faðir hans, sr. Þórhallur Höskuldsson var sóknarprestur á Möðruvöllum 1968-1982 en á Akureyri 1982-1995, er hann lést langt fyrir aldur fram. Höskuldur hefur eflaust farið mjög langt á verkum sínum sem kosningastjóri flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum, en flokkurinn vann þá glæsilegan sigur og hlaut yfir 30% atkvæða og fjóra þingmenn.

Athygli vekur að efsti Austfirðingurinn á listanum er Jón Björn Hákonarson í fimmta sætinu. Það var fyrirséð að Austfirðingar ættu erfitt uppdráttar nú, þó að þeir hefðu jafnan haft sögulegt séð sterka stöðu austur á fjörðum og lykilforystumenn. Þeir áttu engan afgerandi forystumann eftir að Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, sitjandi alþingismenn, ákváðu að draga sig í hlé úr stjórnmálum nú að vori. Austfirðingar lenda því í sömu stöðu nú og Akureyringar síðast að eiga ekki þingmann.

Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti.

mbl.is Valgerður í fyrsta sæti á lista framsóknar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Mig tekur sárt til minnar heimabyggðar Austurlands. Ekki verður það baráttumál hjá þeim fyrir austan hver fer í þriðja sæti á Akureyri.

Þótt Austurland sé landfræðilega stórt en ekki með ýkja mikinn fólksfjölda þá munar Framsókn um atkvæðin. Einu sinni var austurland gróið framsóknarfylgi.

Nú er öldin önnur og Ólöf Nordal í baráttusæti fyrir D-listann. Spái henni góðum sigri, það er sigurinn  fyrir Austurland, sem verður farsælt þegar fram í sækir.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 13.1.2007 kl. 23:22

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heil og sæl Sigríður Laufey

Já, það er af sem áður var hjá framsóknarmönnum fyrir austan. Er handviss um já að Ólöf mun fljúga inn á þing.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.1.2007 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband