Valgerður skammar Geir - sundrung í Evrutali

Valgerður Sverrisdóttir Það er ekki ofsögum sagt að ummæli Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, á Stöð 2 í kvöld hafi verið skammartónn í garð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og sýni vel hversu mikil gjá er milli ráðherra ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Geir og Valgerður tala fjarri því sama tungumál í málefnum Evrunnar. Geir telur að tal um upptöku Evrunnar sé óraunhæft og í raun vísar þar m.a. á ummæli Valgerðar, sem nú svarar honum svo fullum hálsi. Það er greinilegt að þetta ríkisstjórnarsamstarf er að verða mjög þreytulegt, enda virðist það feigt ef marka má skoðanakannanir.

Tónninn í Valgerði Sverrisdóttur sýndi okkur mjög vel gjána sem er til staðar milli aðila. Mér finnst það mjög ótrúverðugt fyrir þessa ríkisstjórn að svona stór meiningarmunur sé til staðar milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem eru valdamestu ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Það gerir ekkert annað en að veikja þetta ríkisstjórnarsamstarf og innviði samstarfs þar á milli. Þetta er sérstaklega óheppilegt í aðdraganda þingkosninga. Sundrungarhjal milli Valgerðar og Geirs, er táknrænt og skaðlegt í meira lagi að mínu mati. Það afhjúpar að tveir valdamiklir ráðherrar eru algjörlega ósammála og þetta er varla traustvekjandi fyrir þessa stjórn.

Reyndar er ágreiningur ekki bara innan ríkisstjórnarinnar um Evrópumál. Þar eru mikil átök innan Framsóknarflokksins. Halldóri Ásgrímssyni mistókst sem forsætisráðherra að gera Evrópumálin að stórstefnumáli á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars 2005, þrátt fyrir stuðning nánustu samstarfsmanna sinna, þ.m.t. Valgerðar Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra. Þar var afgerandi andstaða. Nú styttist aftur í flokksþing og innan flokksins starfar nefnd skv. samþykktum flokksþingsins 2005 sem m.a. skilgreinir samningsmarkmið. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöður hennar. Reyndar virðist andstaðan skörp innan Framsóknarflokksins. Ekki fyrr hafði Valgerður tjáð sig fyrst en Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hafði svarað henni af krafti.

Mér finnst Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vera eins og blaktandi lauf í vindi í þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Hann virðist vera ótrúlega stefnulaus í fjölda mála og fáir vita hver pólitík þessa manns er, sem á að vera einn valdamesti maður landsins. Ólíkt Halldóri Ásgrímssyni vantar í þennan formann flokksins það að tala hreint út og vera afgerandi í tali. Það er stundum eins og maður þurfi orðabók til að skilja samræmi orða hans. Það er varla kostur fyrir nokkurn stjórnmálamann. Mér finnst þó frekar eins og hann vilji ekki ESB núna, en hann flöktir verulega mikið til, einum of fyrir minn smekk.

Mér finnst ágreiningur um Evrópumál innan þessarar ríkisstjórnarinnar vera orðinn vandræðalegur fyrir hana. Það ætti að standa forsætisráðherra nær að standa vörð á ráðherrum sínum en að fjargviðrast yfir því hvað formaður Samfylkingarinnar segir. Vandinn nú finnst mér vera ágreiningur forsætis- og utanríkisráðherra með áberandi hætti, eins og við höfum séð í gær og í dag. Þetta er algjörlega óviðunandi hringavitleysa, segi ég og skrifa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Hringavitleysan í þessu máli liggur fyrst og síðast hjá forsætisráðhr.Hann ætti að sjá til þess,að formlegar viðræður fari fram við ESB svo við getum endanlega metið kosti og galla við inngöngu í bandalagið.Það vita allir að það tekur mörg ár að aðlaga okkar efnahags - og viðskipamál að ESB.Ef við hins vegar myndum ákveða að ganga formlega í bandalagið myndum við þurfa fljótlega að taka upp ábyrga efnahagsstefnu varðandi verðbólgu,vexti o.fl.Ég er sammála þér með hringavitleysu ráðherranna,gott að hún sé lýðum ljós.Kveðja

Kristján Pétursson, 13.1.2007 kl. 23:08

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eigum við að láta Brussel ráða hafsvæði okkar sem er sjö sinjnum stærra en landið með framtíðarauð okkar?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 13.1.2007 kl. 23:12

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Við göngum aldrei í bandalagið ef við fáum ekki að ráða veiðum og magni innan fiskveiðilögsögunnar.Ég held að allir Ísl.séu á einu máli í þeim efnum.Hins vegar telja margir sem hafa kynnt sér þessi mál vel innan bandalagsins,að með samvinnu við Norðmenn verði hægt að gera frávik frá Rómarsamningnum um þetta stóra hafsvæði,svo og hversu við erum háðir fiskveiðum.Umfram allt þurfum við að láta á þetta reyna í viðræðum.

Kristján Pétursson, 13.1.2007 kl. 23:25

4 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Ég held það sé óskhyggja hjá þeim sém Kristján nefnir "marga" að íslendingar og norðmenn nái saman einhverjum frávikum frá Rómarsáttmálanum. allavega ekki meðan fiskveiðiþjóðir eins og Spánverjar og Portúgalir eru eins sterkir og raun ber vitni í sjávarútvegsmálum Evrópusambandsins. 

Svo er annað sem ég hef velt fyrir mér í gegnum tíðina varðandi þá einstaklinga sem hafa gegnt starfi utanríkisráðherra Íslands og eru ekki í sjálfstæðisflokknum. Þeir virðast allir detta á bólakaf í skrifræði Brussel og ekki líður á löngu áður en þeir fara að dásama evrópusambandið eins og ég veit ekki hvað.  Hvað er það sem veldur?  Er gaman í veislum á vegum sambandsins? Eða gæti þetta stafað af þeirri staðreynd að einstaklingar úr smáflokkum eins og Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum finnst allt í einu að þeir séu mikilvægir  og það kitli þeirra egó?

Guðmundur H. Bragason, 14.1.2007 kl. 01:10

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Guðmundur

Takk fyrir kommentið. Innilega sammála þér. Sérstaklega með síðustu setningarnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.1.2007 kl. 01:17

6 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Já ætli Guðmundur hafi ekki dottið niður á það rétta, að það sé gaman í veislum og kitlandi egó.

Sigrún Sæmundsdóttir, 14.1.2007 kl. 02:00

7 identicon

"Hann virðist vera ótrúlega stefnulaus í fjölda mála og fáir vita hver pólitík þessa manns er"
Ég er sammála þér í þessu Stefán en ég held að það skipti ekki máli þar sem ég held að hann komist ekki inn og nýr formaður verður kosinn hjá Framsókn strax eftir næstu kosningar, Birkir yrði góður fyrir flokkinn.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 14.1.2007 kl. 09:46

8 Smámynd: Egill Óskarsson

Það er ekki hægt að taka upp viðræður um inngöngu í ESB nema að það liggi fyrir að við ætlum okkur þangað inn. Hver ráðamaðurinn innan ESB á eftir öðrum hefur lýst því yfir að það sé EKKI hægt að fá undantekningar frá fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Egill Óskarsson, 14.1.2007 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband