Austfirskir framsóknarmenn missa tvo þingmenn

Valgerður, Birkir Jón, Höskuldur, Huld og Jón Björn Það er óhætt að segja að söguleg tímamót felist í lista framsóknarmanna hér í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Þar er enginn Austfirðingur í vænlegu sæti. Flokksmenn að austan missa tvö þingsæti með vali þessa framboðslista. Síðast fengu Akureyringar í flokksstarfinu nokkurn skell en nú er sá kaleikurinn Austfirðinga. Það eru athyglisverð tíðindi.

Alla tíð frá stofnun Framsóknarflokksins hefur flokkurinn haft afgerandi og sterka leiðtoga fyrir austan. Allir þekkja Halldór Ásgrímsson eldri, Eystein, Vilhjálm frá Brekku, Tómas Árnason, Halldór Ásgrímsson yngri og Jón Kristjánsson. Dagný Jónsdóttir varð svo síðasta vonarstjarna þeirra og hún var mest allra kynnt í kosningunum 2003. Jafnskjótt og hún kom hvarf hún. Þessir menn mörkuðu sögu Framsóknarflokksins að fornu og nýju. Gleymum því ekki. Þeirra hlutur í sögu flokksins er og hefur alla tíð verið talinn afgerandi.

Það eru merkilegustu tíðindi þessa vals að enginn kemur í staðinn. Austfirðingar áttu engan til að fylla skörð Jóns og Dagnýjar, sem bæði hætta í pólitík, þó stjórnmálamenn tveggja ólíkra kynslóða séu. Það var fyrirsjáanlegt að svona myndi fara, en þó taldi ég ólíklegt að Austfirðingar færu neðar en í fjórða sætið. En svo fór sem fór. Það vantaði einhvern einn forystumann til að fara fyrir svæðinu. Hann var ekki fyrir hendi að þessu sinni. Þetta er rothögg fyrir þetta gamalgróna vígi framsóknarmanna sem Austfirðirnir voru.

Eysteinn Jónsson var pólitískur lærifaðir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann mótaði hann manna mest. Sömu áhrif hafði hann á Tómas og Halldór Ásgrímsson hinn yngri. Eysteinn mótaði heila kynslóð framsóknarmanna fyrir austan. Hann hafði mikil áhrif. Það er bjargföst trú mín að þessi gamli baráttumaður og forni forystumaður austfirskra framsóknarmanna snúi sér við í gröfinni vitandi að enginn framsóknarmaður verður á þingi að austan kjörtímabilið 2007-2011.

En framsóknarmenn nyrðra geta glaðst. Framsóknarmenn á Akureyri eygja nú von á sínum fyrsta þingmanni síðan að Ingvar Gíslason sat á þingi. Hvort að Höska tekst að komast á þing skal ósagt látið, en í versta falli verður hann varaþingmaður og áberandi í þingsölum. Ég má til með að samfagna framsóknarmönnum hér í bænum við fjörðinn fagra með árangurinn sem þeir hafa beðið eftir í tvo áratugi, eða síðan að Ingvar fór.

En austur sendi ég samúðarkveðjur. Þær eiga vel við, enda tel ég að margir séu hryggir fyrir austan með þetta. Fyrir fjórum árum var fögnuður með árangur Dagnýjar. Nú er enginn til að gleðjast yfir. Merkileg örlög í þessu forna vígi sem er ekki fagurt á að líta nú.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Lítill verður pilsaþytur maddömunnar eystra næstu fjögur árin.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.1.2007 kl. 10:00

2 identicon

Fer nú Helga Jónsdóttir (Skaftasonar) bæjarstýra Fjarðabyggðar að skoða feltið?

rtá (IP-tala skráð) 14.1.2007 kl. 11:04

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, það kæmi svosem ekki að óvörum ef að Helga nýtti sér bæjarstjórastólinn fyrir austan sem stökkpall í landsmál. Manni skilst að hún sé að standa sig ágætlega í Fjarðabyggð. Eða það væri svosem gott að heyra í einhverjum um hana ef einhver les sem vill tjá sig. Annars heilt yfir er þetta gríðarlegt áfall fyrir austfirska framsóknarmenn. Hverjum hefði annars órað fyrir meðan að Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra og síðar utanríkisráðherra og sterkur kjördæmaleiðtogi þeirra að flokkurinn ætti engan þingmann að austan? Söguleg tíðindi, einfalt mál.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.1.2007 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband