Kristján Þór ætlar að fljúga á milli AK og RVK

Kristján Þór Júlíusson Mesta athygli í Fréttablaðsviðtali við Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi í væntanlegum þingkosningum, vekja ummæli hans um að hann ætli ekki að flytjast búferlum til Reykjavíkur þótt Alþingi starfi þar. Í viðtalinu segir hann að á meðan Reykjavíkurflugvöllur sé þar sem hann er nú, taki ferðin frá Akureyri til Reykjavíkur ekki lengri tíma en frá Hveragerði, Reykjanesbæ eða jafnvel Mosfellsbæ.

Þetta eru nokkuð athyglisverð ummæli. Lengi hefur verið talað um búsetumál alþingismanna, auðvitað fyrst og fremst landsbyggðarþingmanna, eftir að þeir taka sæti á Alþingi. Það er nýr vinkill hér að þingmenn séu staðsettir í sínum heimabæ og hyggist jafnvel ferðast á milli daglega. Þetta er því athyglisvert sjónarhorn sem kemur með ummælum Kristjáns Þórs. Með þessu hyggst Kristján Þór væntanlega tryggja að hann verði fulltrúi landsbyggðar og sýnilegur fulltrúi hennar, ef marka má ummæli hans í viðtalinu.

Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta verður ef Kristján Þór Júlíusson verður ráðherra í næstu ríkisstjórn. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hann að fara á milli daglega ef svo býr við og hafa engan fastan samastað í höfuðborginni. Í viðtalinu segist Kristján Þór vilja reyna á hvort að það þurfi að búa á höfuðborgarsvæðinu, hann vilji ekki flytjast búferlum suður eða dveljast þar langdvölum enda sé heimili hans á Akureyri. Þetta er nýr vinkill og athyglisverður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Kristjáni Þór gangi sem þingmanni að halda fastri búsetu hér fyrir norðan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð

Þetta sannar fyrir almenningi að Reykjavíkurflugvöllur er nánast bara fyrir þingmenn og auðjöfra á einkaþotum.

Davíð, 15.1.2007 kl. 18:19

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hann ætti að hafa efni á því blessaður

Heiða B. Heiðars, 15.1.2007 kl. 18:39

3 identicon

Er flugvöllurinn nánast eingöngu fyrir þingmenn og auðjöfra??!  Ég held að þú hefðir nú gott af því (Dabbi) að kynna þér málin áður en þú ferð að tjá þig um þau.  Það er stór hópur fólks sem væri ansi illa statt ef völlurinn væri ekki þar sem hann er.  Vil ég byrja á að nefna alla þá sem neyðast til að leita sér lækninga í höfuðborginni, það er sko engin smágrúppa.  Þekki ég það af eigin reynslu, þannig að þessi ummæli eru frekar illa ígrunduð að mínu mati.

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 21:39

4 identicon

Algjörlega sammála Bjarka. Það á einnig að mínu mati að fara eftir ráðum reyndra manna í fluggeiranum sem leggja það flestir eindregið til að völlurinn verði á sínum stað.
Kveðja  

Steingrímur Páll (IP-tala skráð) 15.1.2007 kl. 22:17

5 identicon

Er ekki heldur langsótt að reikna með að bæjarstjórinn fljúgi landshluta á milli kvölds og morgna, til þess eins að sofa af sér nóttina. Umræðan um búsetu þingmanna og hvort þeir séu sýnilegir almenningir er jafnframt ósköp kjánaleg.

Mestu skiptir að fulltrúar okkar á löggjafasamkomunni setji þjóðfélaginu reglur sem eru í einhverju samræmi við vilja almennings og hann má skynja með ýmsum aðferðum. Þingmenn þurfa ekki endilega að mæta í jarðarfarir, réttir, opinberar athafnir til að nema hjartslátt og vilja þjóðarinnar. Slíkt eru fyrst og fremst hallærislegar popúlistasýningar.

Var ekki sagt að Curchill hefði manna best skynjað hvernig fólkið í lestum og strætisvögnum Lundúnaborgar hugsaði og þó ferðaðist forsætisráðherrann hvorki með lest né strætó. Nei, Curchill hafði það sjötta skilningarvit og náðarvald að geta skynjað samtímann og hagað sinni pólitik eftir því. Íslenskir stjórnmálamenn geta leikandi verið í góðu sambandi við almenning og skynjað vilja hans, hvort sem þeir sofa á nóttinni á Akureyri eða í Reykjavík

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 12:15

6 Smámynd: Hlynur Hallsson

"Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Kristjáni Þór gangi sem þingmanni að halda fastri búsetu hér fyrir norðan." Um þetta getum við verið sammála en ég spái því að Kristján Þór endist ekki lengi í því jójó-i. Ég lít frekar á þessi umæli hans sem svona tilraun til að segja hvað hann er mikill Norðlendingur og "Akureyri fallegast bærinn..." og svo framvegis hittir alltaf í mark .

Hlynur Hallsson, 16.1.2007 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband