Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt

Golden Globe Í nótt verða Golden Globe-kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin afhent í 64. skipti við hátíðlega athöfn í Los Angeles. Margar virkilega áhugaverðar kvikmyndir eru tilnefndar og eftirtektarverðar leikframmistöður. Ýmsar þessara mynda hafa verið sýndar hérlendis eða eru á leiðinni í bíó á næstu vikum. Golden Globe hafa löngum verið talinn góður vitnisburður um það sem koma skal þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í febrúarlok.

Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvaða myndir fái Gullhnöttinn. Kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, eða sjö, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood er með tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.

Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. sem besta myndin í flokki gamanmynda og söngleikja, fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine er svo með fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.

Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu síðar í þessum mánuði, en óskarsverðlaunatilnefningar verða kynntar eftir rúma viku, þann 23. janúar nk. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe í nótt, fyrir sinn langa leikara- og leikstjóraferil.

Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna og hvet sem flesta til að fylgjast með þessu. Alltaf gaman af kvikmyndaverðlaununum. Svo má heldur ekki gleyma að sjónvarpið er verðlaunað líka og margt athyglisvert í þeim flokkum, þó ég fari ekki yfir það hér. Væri gott að heyra í lesendum með það hvernig þeir telja að verðlaunin fari hafi þeir á því skoðun hér. Ég tel að Dreamgirls og The Departed fái myndaverðlaunin og Scorsese leikstjóraverðlaunin. Ég vona að þetta verði loksins árið hans Scorsese.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband