Skandall á skandal ofan í Byrginu

Byrgið Þeir voru ekki öfundsverðir fráfarandi og settur forstöðumaður Byrgisins að verja óráðsíuna og skandalana sem þar hafa viðgengist í viðtölum í sjónvarpi og útvarpi í dag. Það er erfitt að verja eitthvað á borð við það sem gerst hefur, enda var skýrsla Ríkisendurskoðunar svo svört að maður man varla annað eins. Þetta er mikill áfellisdómur yfir Byrginu, ég held að nær allir geti verið sammála um það.

Þessi skýrsla var miklu dekkri og drungalegri en mér hefði eiginlega órað fyrir. Það er svo margt gruggugt þarna að mann setur hljóðan hvernig þetta gat viðgengist öll þessi ár. Það er sérstaklega dapurlegt að ríkisfé hafi streymt þarna inn og ekkert verið fylgst með því hvernig því var varið. Þessi Byrgis-skandall hlýtur að kalla á uppstokkun allra vinnubragða við ríkisstyrkveitingar af þessu tagi og nánari eftirgrennslan þess hvernig fénu sé varið og í hvaða verkefni það í raun fari. Þessi skýrsla er áfellisdómur yfir vinnuferlum félagsmálaráðuneytisins.

Þessi mál eru á könnu félagsmálaráðuneytisins, enginn vafi á því. Það er algjörlega ótækt annað en leitað verði viðbragða þeirra félagsmálaráðherra sem sátu á þeim tíma sem um er að ræða; eftir skýrsluna 2001 sem var vond fyrir Byrgið, en er eins og englablíða miðað við það svartnætti og þá bókhaldsóreiðu sem við blasir. Páll Pétursson og Árni Magnússon voru félagsmálaráðherrar meginþorra þess tíma sem um ræðir. Páll var á þeim stóli í tvö ár eftir að fyrri skýrsla kom út og Árni í þrjú ár. Það er ekki hægt annað en leita viðbragða þeirra á þessum skandal.

Heilt yfir skiptir máli að vel verði haldið á málefnum þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þó að Byrgið hafi fengið þetta náðarhögg og þeir sem stjórnað hafa því má ekki gleyma að veita þarf fólki í neyð vegna fíknar sinnar og óreglu hjálparhönd. Það er gott að félagsmálaráðuneytið hafi leitað til Samhjálpar og þar verði unnið vel á öðrum grunni. Hvað Byrgið varðar er til skammar hversu lengi því tókst að vinna með þeim hætti sem það gerði í fjárhagslegu tilliti.

mbl.is Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Já skýrslan var dökk, en líklega á hún eftir að dökkna. Viðtalið við Guðmund í dag þar sem hann var að klóra yfir og þetta væri öðrum að kenna ekki honum, var honum ekki til málsbóta.

 En með vinnuferli félagsmálaráðuneytisins, þá ætti nú að kanna þær vinnureglur. Ég efast um að þeir yfirmenn sem þarna starfa og ættu að hafa nasasjón á því sem þar fer fram  séu hæfir.

Sigrún Sæmundsdóttir, 16.1.2007 kl. 02:23

2 identicon

Ég tel það nauðsynlegt að öll félög sem eru ríkisframlögum þurfi að minnsta kosti að telja fram ársskýrslu og gera grein fyrir því í hvað peningarnir hafa farið.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 09:38

3 Smámynd: Birna M

Ég er enn að melta það sem ég hef heyrt síðan í gær og er að skoða skýrsluna en almáttugur minn góður. Þetta lítur út fyrir að vera mesta hneyksli síðustu ára og þó lengra væri leitað. Ég veit ekki hvað mér finnst, er bara gáttuð og enn að jafna mig, held að mjög mörgum sé svipað farið.

Birna M, 16.1.2007 kl. 12:13

4 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Ef þetta var raunin þarna, hvað er þá mikið af launum okkar að fara í svona vitleysu annars staðar?

Ólafur Örn Nielsen, 16.1.2007 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband