Barack Obama í forsetaframboð?

Barack Obama Barack Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Nú virðist nær öruggt að hann gefi kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna. Um það framboð hefur verið talað mánuðum saman. Fyrir jól fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram eftir nákvæmlega ár, og fékk gríðarlega sterkar viðtökur. Sagt er að pólitísk stjarna sé komin til sögunnar.

Segja má að Barack Obama hafi í ferð sinni til New Hampshire fengið mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkenndi könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlaut að einkenna hugsanir Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanns og fyrrum forsetafrúar, og stuðningsmanna hennar.

Nú er Obama kominn af stað með könnunarnefnd forsetaframboðs, sem er afgerandi vísbending um framboð. Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.

Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa út formlega tilkynningu fyrr en síðar, en fréttir af vinnu bakvið tjöldin við að kanna grundvöll framboðs gefa skýrar vísbendingar. Búast má við að bæði Hillary og Obama taki af skarið innan mánaðar.

Það yrðu stórtíðindi færi Barack Obama fram og Hillary Rodham Clinton færi í slaginn ennfremur og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband