16.1.2007 | 19:47
Konungleg stemmning á Golden Globe
Það var konungleg stemmning í Los Angeles í gærkvöldi þegar að Golden-Globe voru afhent í 64. skiptið. Stjarna kvöldsins var breska leikkonan Dame Helen Mirren sem hlaut tvö leikverðlaun fyrir túlkun sína á tveim kjarnakonum í sögu breska konungsveldisins; Elizabeth I, í samnefndri sjónvarpsmynd sem fjallar um efri ár drottningarinnar sem ríkti árin 1558-1603, og Elizabeth II, þar sem hún túlkar drottninguna sem ríkt hefur frá árinu 1952 í kvikmyndinni The Queen, sem lýsir eftirmála dauða Díönu, prinsessu af Wales, í Frakklandi í september 1997.
Mörgum að óvörum hlaut kvikmyndin Babel verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins. Hún var tilnefnd til sjö verðlauna, en hlaut aðeins þessi einu, sem eru þýðingarmikil enda marka hana sem sterkt óskarsverðlaunaefni. Söngvamyndin Dreamgirls hlaut verðlaunin sem besta gaman/söngvamynd ársins og ennfremur fyrir leikara í aukahlutverkum; Eddie Murphy og Jennifer Hudson. Murphy, sem þótti hafa dalað sem leikari að undanförnu, á þar öfluga endurkomu og er orðaður við óskarinn og hin lítt þekkta Idol-stjarna (vann ekki árið 2004) Hudson slær í gegn sem eitt mesta nýstirni undanfarinna ára.
Leikarinn Forest Whitaker hlaut verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í dramatískri kvikmynd fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í Úganda. Er Whitaker orðaður við óskarinn, enda þykir hann eiga stjörnuleik í myndinni. Eins og fyrr segir vann Helen Mirren verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í dramatískri mynd. Leikkonan Meryl Streep vann verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki kvenna í gaman/söngvamynd í myndinni The Devil Wears Prada þar sem hún fer á hlutverkum í hlutverki kuldalega tískuritstjórans Miröndu Priestley. Sacha Baron Cohen hlaut verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í gaman/söngvamynd fyrir sprenghlægilega túlkun sína á hinum kostulega Borat.
Mörgum að óvörum tókst kvikmyndinni The Departed ekki að hljóta verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins, né tókst leikurunum Leonardo DiCaprio, Mark Wahlberg og Jack Nicholson að vinna verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Hinsvegar tókst leikstjóranum Martin Scorsese að hljóta gullhnöttinn fyrir leikstjórn sína. Scorsese hefur oft verið tilnefndur en aðeins einu sinni unnið; fyrir fjórum árum, árið 2003, fyrir kvikmyndina Gangs of New York. Scorsese er nú orðaður við leikstjóraóskarinn og DGA-leikstjóraverðlaunin sem afhent eru skömmu fyrir afhendingu óskarsverðlaunanna. Scorsese hefur aldrei hlotið óskarinn á löngum leikstjóraferli og þykir mörgum vera kominn tími.
Kvikmynd Clint Eastwood, Letters from Iwo Jima, hlaut verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins. Eastwood var tilnefndur fyrir leikstjórn sína í henni og Flags of Our Fathers (sem var að stórum hluta tekin hérlendis). Kvikmyndin The Queen var verðlaunuð fyrir besta kvikmyndahandrit ársins. Í myndinni er lýst eftirmála dauða Díönu prinsessu, fyrir tæpum áratug, er hún var syrgð um allan heim. Krafa fólksins var að drottningin sýndi henni virðingu og þrýstingurinn neyddi hana til þess. Atburðunum er lýst með lágstemmdum og hlutlausum hætti með gríðarlega góðum hætti og handritið er einn megingrunnur myndarinnar, utan leiksins. Lag Prince í kvikmyndinni Happy Feet var valið kvikmyndalag ársins.
Elizabeth I var valin besta sjónvarpsmynd ársins og aðalleikkona myndarinnar Dame Helen Mirren valin besta leikkonan í sjónvarpsmynd. Bill Nighy var valinn besti leikarinn í sjónvarpsmynd fyrir leik sinn í Gideon´s Daughter. Ugly Betty var valin besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi og aðalleikkona þáttanna, America Ferrera, var valin besta leikkonan í gamanþætti. Alec Baldwin var valinn besti leikarinn í gamanþætti fyrir 30 Rock. Grey´s Anatomy var valinn besti dramatíski þátturinn í sjónvarpi. Hugh Laurie var valinn besti leikarinn í dramaþætti fyrir leik sinn í House og Kyra Sedgwick besta leikkonan fyrir Closer. Aukaleikarar í sjónvarpi voru valdir Jeremy Irons fyrir Elizabeth I og Emily Blunt fyrir Gideon´s Daughter.
Leikarinn og leikstjórinn Warren Beatty hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda sem litríkur leikari og stórtækur leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann flutti gríðarlega góða þakkarræðu er hann tók við verðlaununum. Beatty alltaf góður. Sem minnir mig á að ég verð að fara að rifja upp kynnin af mynd hans, Bonnie and Clyde, frá árinu 1967, þar sem hann lék á móti Faye Dunaway, og bestu kvikmyndinni sem hann gerði sjálfur, Reds, árið 1981. Umdeild en ógleymanleg kvikmynd um ævi John Reed, sem hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir árið 1982.
Kvikmyndahluti Golden Globe gefur oft vísbendingar um Óskarsverðlaunin sem afhent eru í febrúarlok, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar í næstu viku. Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Babel og Dreamgirls, svo fátt eitt sé nefnt.
Allar upplýsingar um Golden Globe 2007
Babel og Dreamgirls valdar bestu myndirnar á Golden Globe hátíðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Hverjum kom það á óvart að Babel hafi unnið? Kom það þér á óvart?
GK, 16.1.2007 kl. 20:44
Já, ég taldi að The Departed myndi fá verðlaunin. Babel var myndin með flestar tilnefningar en fékk aðeins þessi einu, en svo sannarlega stór sigur bara með því. En Babel er að fá góða dóma og væntanlega munu margir spá henni og Brad Pitt óskar í næsta mánuði.
Stefán Friðrik Stefánsson, 16.1.2007 kl. 22:40
Já, ég held að hún eigi eftir að gera það gott en Pitt fær ekki óskarstilnefningu...
Ég hafði fulla trú á Babel þó að ég "héldi með" The Departed eins og margir aðrir... :)
GK, 16.1.2007 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.