Stockholm syndrome

Shawn Hornbeck Ein stærsta spurningin vestanhafs þessa dagana snýst um hvernig að hinum 41 árs gamla Michael Devlin tókst að halda hinum 15 ára Shawn Hornbeck í haldi sínu í fimm ár. Svarið að flestra mati er Stockholm syndrome. Það virðist vera kaldhæðnislega rétt. Eftir því sem leyndarhjúpurinn í kringum málið minnkar hægt og rólega virðist koma sífellt betur í ljós að unglingurinn hafði fjöldamörg tækifæri til að sleppa úr haldi Devlins og fór jafnvel út í hjóltúra einn síns liðs og var jafnvel í tölvusambandi á þessum tíma.

Margar spurningar hafa vaknað um málið vegna framkomu Shawns. Svo virðist sem mannræninginn hafi kynnt strákinn sem son sinn og hafi verið skráður sem slíkur sem íbúi í leiguíbúð hans undir nafninu Shawn Devlin. Naprasta staðreyndin er þó sú að einhver undir nafninu Shawn Devlin hafi heimsótt vefsíðu Akers-hjónanna (móður og stjúpföður Shawn) um hvarf stráksins og skrifað innlegg með spurningu um af hverju foreldrarnir ætli eiginlega að leita að honum. Síðar skrifaði hann aftur og baðst afsökunar á fyrri skrifum og birti ljóð með.

Nágrannar Devlins í fjölbýlishúsinu í Kirkwood í Missouri hafa ennfremur komið með fjöldann allan af sögum um strákinn og það sem gerðist þar. Ef marka má þær sögur var frjálsræði hans þó nokkuð mikið og greinilegt að hann hefur verið algjörlega undir ægivaldi mannsins og heilaþveginn af honum. Sumar sögurnar eru fróðlegri en aðrar. Þeim er gerð ítarleg grein á fréttavef CNN. Í einu orði sagt kemur aðeins eitt upp í hugann þegar að lýsingarnar eru lesnar og litið yfir þær sögur sem að ganga. Það er Stockholm syndrome. Þau einkenni bera öll merki þess sem virðist vera tilfellið í þessu máli.

Fyrir þá sem ekki vita á nafngiftin fyrirmynd sína í bankaráninu í Kreditbanken í Stokkhólmi í ágúst 1973. Þar héldu bankaræningjar fjölda fólks sem gíslum sínum í fimm daga. Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi. Það má svo sannarlega fullyrða að fyrst að hægt sé að heilaþvo fólk í gíslingu eftir fimm daga yfirráð sé staðan enn verri þegar að fimm ár eru liðin. Það er alveg greinilegt að Michael Devlin hélt unglingnum rígföstum í greipum sínum.

Í fyrra slapp unglingsstelpan Natascha Kampusch úr haldi manns sem hafði haft hana sem gísl sinn í heil átta ár. Hún var svo þungt haldin af Stokkhólms heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og Shawn Hornbeck í langan tíma. Hún var undir stjórn viðkomandi og heilaþvegin af drottnun hans. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar. Drottnun af þessu tagi er skelfileg og umhugsunarverð að öllu leyti.

Eitt frægasta fórnarlamb Stokkhólms heilkennisins er auðjöfraerfinginn Patty Hearst. Henni var rænt og haldið sem gísl í þónokkurn tíma. Hún varð svo heilaþvegin að hún gekk til liðs við þá sem rændu henni og var þátttakandi í ráni með þeim. Sorgleg örlög. Eftir því sem púslin koma betur heim og saman í tilfelli unglingsins Shawn Hornbeck kemur sífellt betur í ljós einkenni Stokkhólms heilkennisins sorglega. Vond örlög það. Eflaust eiga fleiri sögur og atburðir enn eftir að fylla upp í þá mynd.

mbl.is Týndur piltur setti hugsanlega inn skilaboð á heimasíðu foreldra sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband