Guðjón Arnar styður Magnús Þór

Guðjón og Margrét Það stefnir í harðvítug átök á landsþingi Frjálslyndra um aðra helgi. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndra, hefur nú með afgerandi hætti lýst yfir stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson, sitjandi varaformann, í átökum við Margréti Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra flokksins, um varaformennskuna. Mjög afgerandi skilaboð teljast þetta eftir fyrri væringar.

Það kom mér svolítið að óvörum að Guðjón Arnar skyldi gefa út svo afgerandi stuðningsyfirlýsingu við Magnús Þór. Þeir hafa unnið mun skemur saman í flokknum en hann og Margrét Sverrisdóttir. Margrét og hann hafa verið saman í flokknum síðan fyrir þingkosningarnar 1999 í gegnum súrt og sætt, en Magnús Þór hefur aðeins unnið fyrir flokkinn frá árslokum 2002 að mig minnir. En afgerandi skilaboð vissulega til Margrétar er þetta. Það sýnir bara að hún þarf að berjast gegn báðum forystumönnunum, en ekki bara varaformanninum eingöngu. Erfið barátta það.

Það er öllum ljóst að Sverrisarmurinn fær þungan og harðan skell tapi Margrét varaformannskjörinu. Gerist það munu vindar snúast með þeim hætti að flokkurinn haldi frá arfleifð Sverris Hermannssonar innan flokksins sem hann sjálfur stofnaði fyrir áratug. Tapi dóttir stofnandans þessum fyrsta alvöru slag sínum mun það veikja stöðu hennar umtalsvert og vandséð hvernig að hún gæti verið áfram framkvæmdastjóri flokksins hafandi tapað varaformannsslag. Það er því fyrirséð að hún berst fyrir öllu eða engu í æðstu forystu nú.

Kannski er það svo að Guðjón Arnar meti Margréti skeinuhættari sér innbyrðis en Magnús Þór. Vel má vera. Öllum má þó ljóst vera að flokkurinn er skaðlega settur af innbyrðis væringum og harður slagur verður yfirskrift þessa varaformannsslags. Allt tal um að þetta sé kosning milli valkosta er út í Hróa hött, eins og sagt var í mínu ungdæmi, og öllum ljóst að barist er um allt eða ekkert í veigamiklum forystuembættum. Með þessari yfirlýsingu sendir formaðurinn forvera sínum fingurinn með áberandi hætti svo sannarlega.

Þetta er flokkur sem er illa þjáður af innbyrðis ólgu sýnist manni. Fróðlegt að sjá á hvorn veginn það færi. Það verður auðmýkjandi fyrir formanninn tapi varaformaðurinn og Margrét fær upphækkun í forystunni eftir allt sem á undan er gengið og Sverrisarmurinn mun verða snupraður tapi dóttir höfðingjans sjálfs slagnum. Fróðlegt verður þetta vissulega. Klassísk átök um völd og áhrif.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband