Framsóknareinvígi í Suðurkjördæmi

Guðni Ágústsson Á morgun ræðst hver fer með sigur af hólmi í leiðtogaeinvígi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Þar berjast Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, er í huga flestra er ókrýndur höfðingi hinna sunnlensku sveita, og Hjálmar Árnason, þingflokksformaður. Guðni leiddi flokkinn í kjördæminu í síðustu kosningum og sækist eftir því áfram, enda varaformaður flokksins ennfremur. Með úrslitunum verður fylgst víða.

Það verða stórpólitísk tíðindi ef Guðni fellur úr leiðtogasæti í Suðurkjördæmi og mun verða örlagaríkt fyrir Framsóknarflokkinn á kosningavetri ef varaformaður flokksins verður snupraður með slíkum hætti. Eflaust er hér um einn anga fyrri valdaátaka innan Framsóknarflokksins að ræða. Í fyrra gat Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, ekki hætt í stjórnmálum við þá tilhugsun að Brúnastaðahöfðinginn yrði eftirmaður hans á formannsstóli í flokknum. Það var þá endanlega afhjúpað að þessir samstarfsmenn að fornu og nýju innan flokksins þoldu vart hvorn annan.

Sett var upp einhver athyglisverðasta flétta seinni tíma stjórnmálasögu hér heima þar sem að maður að nafni Jón Sigurðsson var sóttur til verka. Allt fyrir flokkinn minn og skylduræknina var mottó innkomu Jóns. Merkileg atburðarás sem fram til þessa hefur verið hálfgerð hörmungarsaa enda hefur Jóni mistekist enn sem komið er að efla flokkinn. Hann er enn á nákvæmlega sömu slóðum pólitískt og þegar að Halldór gekk inn í pólitíska sólsetrið á blaðamannafundinum á Þingvöllum á öðrum degi hvítasunnu. Merkilegt. En Eyjólfur gæti vissulega ennþá komið til. Kosningar eru ekki afstaðnar enn.

Hjálmar Árnason Mörgum að óvörum lagði Hjálmar til við Guðna. Það voru stór tíðindi á framsóknarmælikvarða, enda hefur Guðni verið einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins síðustu árin og var undir lok stjórnmálaferils Halldórs mun vinsælli en hann og er vinsælli en nýi formaður flokksins líka. Þarna lyktar af fyrri væringum og átakalínurnar virðast vera nákvæmlega þær sömu. Guðni og hans stuðningsmenn eru eflaust vel meðvitaðir um þetta.

Mér fannst fyndið að hlusta á Morgunvaktina í vikunni þar sem þeir voru og Hjálmar sagði að ef Guðni myndi tapa færi hann bara að sinna innra starfinu. Ekki virtist Guðni alsæll með það. Guðni hefur jú leitt framboðslista á Suðurlandi frá árinu 1995 en setið á þingi frá árinu 1987 og verið varaformaður flokksins í sex ár. Hjálmar hefur verið alþingismaður Framsóknarflokksins frá árinu 1995, 1995-2003 fyrir Reykjaneskjördæmi og síðan fyrir Suðurkjördæmi. Hann skipaði annað sætið á lista flokksins síðast.

Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Varla eru sunnlenskir bændahöfðingjar ánægðir með mótframboðið við Guðna og þeir hljóta að passa upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín. Það má eiga von á spennandi leiðtogarimmu milli þeirra Guðna og Hjálmars og áhugaverðu prófkjöri heilt yfir. Mesta athygli vekur að ekki eru mörk á því hvaðan að fólk megi vera sem kýs þar. Þannig getur Reykvíkingur gengið í flokksfélagið á Selfossi og kosið. Mjög undarlegt fyrirkomulag.

Það verður fróðlegt að sjá hvor verður höfðingi framsóknarmanna í kjördæminu eftir þetta prófkjör. Fullyrða má að sá sem tapi slagnum gæti fallið niður í þriðja sætið, enda munu stuðningsmenn hvors frambjóðandans fyrir sig merkja við annan valkost í annað sætið. En þetta ræðst allt. Það verða stórtíðindi í þessu prófkjöri hvernig sem fer. Ef varaformaður fellur af leiðtogastóli verður það þó mun stærri pólitísk frétt en fall þingflokksformanns í slíkri rimmu verður líka frétt. Þetta verður áhugavert leiðtogaeinvígi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband