Þulurnar kveðja

Vissulega eru það tímamót þegar þulurnar kveðja í Sjónvarpinu - verða sparnaði ríkisrisans að bráð. Sumir hafa talið það einn helsta aðal Ríkissjónvarpsins að hafa þulur á skjánum, fagrar konur til að kynna dagskrána, í stað þess að hafa bara dagskrárrödd eins og hinar stöðvarnar hafa. Jóhanna Vigdís Arnardóttir, leikkona, mun eflaust sinna sínu nýja hlutverki vel við að vera rödd Sjónvarpsins. Endalokin hjá þulunum er tákn um nýja tíma og aðrar áherslur - líka að það er verið að spara.

Þulurnar hafa fengið á sig ljómakenndan blæ í gegnum árin. Flestar þeirra hafa líka orðið landsþekktar í kjölfarið; nægir þar að nefna Sigríði Arnardóttur, Ásu Finnsdóttur, Ellý Ármanns, Ragnheiði Clausen, Guðmundu Jónsdóttur, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigurlaugu Jónasdóttur, Evu Sólan og Rósu Guðnýju Þórsdóttur. Sennilega mun þó Rósa Ingólfsdóttir verða þeirra allra eftirminnilegust, þegar hún braut upp formfast hlutverkið: fékk sér t.d. kaffi í beinni.

Einkareknu stöðvarnar hafa farið aðrar leiðir og haft rödd, oftar en ekki karlmanns sem aðalrödd. Stöð 2 hefur í tæpa tvo áratugi haft söngvarann Björgvin Halldórsson sem rödd stöðvarinnar og hefur hann sett svip á dagskrána með kynningum sínum, beitt röddinni bæði milt og léttilega og ennfremur talað með draugalegum hætti sérstaklega þegar að kynntar eru spennu- eða draugamyndir. Ólafur Darri Ólafsson var rödd Skjás 1 þar til Valur Freyr Einarsson tók við.

Að mínu mati voru þulurnar tákn síns tíma, liðins tíma, þó vissulega hafi verið gaman að horfa á fallegar konur lesa dagskrána. Þetta var skemmtilega gamaldags og sjarmerandi upp að vissu marki. Þó er augljóst að tími þulanna á skjánum minnkaði mjög eftir því sem árin liðu. Þær vöktu ekki fram yfir miðnættið eftir dagskrárlokum um helgar og byrjuðu seinnipartinn á vakt, fylgdu ekki lengur dagskránni alla daga frá byrjun. Þær voru þó á vakt á stórhátíðisdögum.

Þulurnar lifðu af tímana tvenna. Þórhallur Gunnarsson stóð vörð um þær og réði síðustu þulurnar fyrir nokkrum árum og varði þá hlutverk þeirra með sérstöðunni, hlutverki þeirra frá upphafi. En nú kveðja þær. Hvernig væri nú að Sjónvarpið heiðraði þulur liðinna tíma og sýndi vel valdar klippur með þeim, svona í kveðjuskyni.

mbl.is Þakka þjóðinni samfylgdina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband