Kjördagur óánægju - söguleg þáttaskil á Akureyri

Vægt til orða tekið urðu þáttaskil í íslenskum stjórnmálum í sveitarstjórnarkosningunum í gær. Þetta var kjördagur óánægjunnar og pólitískra umskipta - pólitískur jarðskjálfti. Fjórflokkurinn fékk vænt kjaftshögg - enginn þeirra er sigurvegari að þessu sinni, þeir eru allir ósáttir með einum eða öðrum hætti og ósáttir við útkomuna, þó vissulega leynist einhverjir sigurvegarar í flokkskjarnanum á landsvísu. Í heildina fá flokkarnir þó allhressandi kalda vatnsgusu, sem þeir verða að taka mark á og vinna í að breyta hlutunum. Fólkið í landinu er fúlt og óánægt.

Hér á Akureyri urðu einhver mestu pólitísk þáttaskil í manna minnum þar sem grasrótarframboð Odds Helga Halldórssonar náði hreinum meirihluta, pólitískt afrek sem ég taldi að engum myndi takast satt best að segja. Kjósendur á Akureyri létu hug sinn í ljós: höfnuðu öllum hefðbundnu stjórnmálaflokkunum og sendu skýr skilaboð. Þeir hafa fengið nóg af hinni gamaldags pólitík. L-listinn skrifar nýjan kafla í stjórnmálasögu Akureyrar og landsins alls með framgöngu sinni.

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri galt sögulegt afhroð: fékk á kjaftinn í orðsins fyllstu merkingu. Ég er mjög ósáttur við útkomuna en enn ósáttari yfir því að við hefðum getað komið í veg fyrir þetta mikla afhroð með betri vinnubrögðum á síðustu árum. Mikil og víðtæk mistök hafa átt sér stað á vakt Sjálfstæðisflokksins hér á síðustu árum. Við áttum að skynja betur óánægjuna með miðbæjarskipulagið og síkið í miðbænum, bæjarstjóraklúðrið og tækla mál Sigrúnar betur.

Þetta er samt fortíð sem ekki skiptir máli að hugleiða. Við verðum að virða vilja kjósenda og læra eitthvað af honum. Þetta eru skilaboð sem við getum ekki hunsað og verðum að taka fullt mark á og sýna auðmýkt fyrir verkefninu framundan. Það þarf að taka til og við sjálfstæðismenn á Akureyri í grasrótinni verðum að skynja þau skilaboð umfram aðra.

Ekki þýðir að tala um afhroð hinna flokkanna, við verðum sjálf að taka þetta til okkar og byrja okkar grunnvinnu strax. Í þeim efnum verða hagsmunir einstaklinga að víkja fyrir hag heildarinnar.

mbl.is Ræddu við Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband