Eiríkur Björn ráðinn bæjarstjóri á Akureyri

Ég vil óska Eiríki Birni Björgvinssyni innilega til hamingju með bæjarstjórastólinn á Akureyri. Hann er frambærilegur og traustur maður. Ráðning hans er þó eitt verst varðveitta leyndarmál í manna minnum og ein athyglisverðasta leiksýning sumarsins. Kjaftasögur um að hann yrði bæjarstjóri höfðu grasserað nokkru fyrir kjördag og fór aldrei á milli mála að hann væri óskakandidat L-listans í stöðuna. Allt ráðningaferlið bar þess merki að niðurstaðan væri fyrir löngu ákveðin og eflaust telja sumir umsækjendur að þeir hafi verið fíflaðir.

En hvað með það. Niðurstaðan sem talað hefur verið um síðan í maímánuði með bæjarstjórakandidatinn hafa nú loks verið staðfestar og ágætt í sjálfu sér að því sjónarspili sé lokið. Full ástæða er til að vona að Eiríki og Lista fólksins muni ganga vel í vegferð sinni í hreinum meirihluta næstu fjögur árin. Nú reynir á, enda fer hveitibrauðsdögum L-listans greinilega mjög fækkandi. Fjölskyldustemmning í nefndakerfinu ber vitni um það.

Lista fólksins vantar traust og gott akkeri til að stjórna bænum: mann með reynslu og þekkingu á viðfangsefninu. Því má treysta að Eiríkur sinni verkinu vel, enda með langa reynslu sem bæjarstjóri og hefur auk þess unnið hjá Akureyrarbæ áður, hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi í bæjarstjóratíð Jakobs Björnssonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar 1996-2002.

Nú reynir á hvort Eiríkur Björn verði með sanni bæjarstjóri allra Akureyringa og vinni heilsteypt með minnihluta jafnt sem meirihluta. Ég óska honum alls hins besta í verkefninu framundan.

mbl.is Ráðning Eiríks staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband