Hver slekkur á öndunarvél vinstristjórnarinnar?

Vinstristjórn Samfylkingar og VG, sem hefur verið í öndunarvél mánuðum saman, er feig. Þetta sjá allir með pólitískt nef. Hvort hún fellur á Magma-málinu eða einhverju öðru á næstu mánuðum mun þó ráðast. Skiptir í sjálfu sér litlu máli. Örlög hennar eru ráðin. Hún mun fara í sögubækurnar sem ósamstígasta og lánlausasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar, slær þar meira að segja við minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts heitins Gröndal 1979-1980.

Þessari arfaslöku vinstristjórn hefur ekki lánast að tryggja stöðugleika og byggja framtíðarsýn, þvert á móti klúðrað öllu því sem hún hefur komið nærri með sundrungu og ósætti. Þetta er mjög dapurlegt, einkum vegna þess að fjöldi fólks taldi að þessir flokkar myndu breyta stjórnmálunum, bæði í verklagi og hugsun. Þess vegna fengu þeir svo afgerandi umboð sem raun bar vitni. Þeim var treyst til að taka til hendinni. Blaður þeirra reyndist innistæðulaust með öllu.

Margir tala um hvað taki við. Talið um utanþingsstjórn finnst mér rómantísk draumsýn sem mun ekki gera sig. Stjórn þarf alltaf þingmeirihluta til verka. Það hefur vantað allt frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll. Þar var þó allavega þingmeirihluti til staðar, þó sú stjórn hafi verið afleit og staðið sig skelfilega illa, engu síður en þessari veiku stjórn. Þar var þó ekki deilt um að meirihluti væri til staðar.

Þessir tveir vinstriflokkar fengu svo afgerandi umboð í kosningunum 2009, eftir hrunið og allt sem því fylgdi, að engir flokkar aðrir hafa umboð til að fara í stjórn með góðu móti. Eina vitið eru nýjar þingkosningar þar sem spilin eru stokkuð upp og þjóðin tekur af skarið með framtíðina. Þar verða flokkarnir að koma með einhverja framtíðarsýn og tala um málefnin, hvað eigi að gera hér á næstu árum.

Þetta var ekki gert í kosningunum 2009. Þær snerust mun frekar um að refsa flokkum og stjórnmálaflokkum en málefnin sjálf. Það verður að stokka spilin núna, þegar þessi lánlausa vinstristjórn verður loks tekin úr öndunarvélinni.

En hver mun taka hana úr sambandi? Verður það Steingrímur J. sjálfur með afgerandi pólitískri framgöngu eða munu þingmenn í óánægjuhópnum, sem hefur verið séraðili að þessu samstarfi frá Icesave-klúðrinu, gera það?

Mun Ögmundur taka það verkefni að sér? Fáir hafa verið meiri örlagavaldar í þessu samstarfi en Ögmundur, sem hefur veitt Steingrími J. hverja skráveifuna eftir aðra, fórnaði meira að segja ráðherrastól á sínum tíma.


mbl.is Gæti ógnað ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband