Borgarstjórafarsinn í Reykjavík

Ansi er nú raunalegt að fylgjast með borgarstjórafarsanum í Reykjavík. Jón Gnarr er greinilega búinn að missa algjörlega tökin á því að gegna embætti borgarstjóra, getur engar ákvarðanir tekið og ræður ekki við þær skyldur sem fylgja embættinu. Hann getur ekki svarað spurningum um fjárhagsáætlun og vinnuferli hennar, þann verklagsramma sem fylgir þeirri vinnu og situr vandræðalega úti í horni eins og illa gerður hlutur. Þetta getur varla endað gáfulega.

Ekki er þetta nú burðugt og gott á þessum erfiðu tímum þegar stefnir í blóðugan niðurskurð. Auk þess tekur borgarstjórnarmeirihlutinn þá undarlegu ákvörðun að hækka laun varaborgarfulltrúa, væntanlega til að friða suma innan meirihlutans sem náðu ekki kjöri í borgarstjórn, en höfðu lagt ýmislegt undir til að komast þar inn.

Samfylkingin, sem tapaði kosningunum í vor, virðist stýra þeirri vinnu sem þó er í gangi og í raun má telja að Dagur B. Eggertsson sé yfirborgarstjóri, svipað og Alfreð Þorsteinsson innan R-listans eftir að Ingibjörg Sólrún missti þar öll völd á síðasta kjörtímabili þess bræðingsframboðs.

Jón Gnarr er vorkunn. Hann kann ekkert á prótókol og verklag þess sem stýrir einu stærsta fyrirtæki landsins, enda er Reykjavíkurborg gríðarlega stórt batterí. Þegar sá sem gegnir embættinu ræður ekki við það kemur það fljótt í ljós.

Nú þegar hveitibrauðsdögunum er lokið er gamanið tekið að kárna. Þetta gengur varla svona mikið lengur. Í raun er ótrúlegt hvað Jón hefur sloppið þó vel fram að þessu. Ef hann væri stjórnmálamaður væri pressan orðin galin.

En það hlýtur að gerast fljótlega. Svona stórt skip getur ekki verið stjórnlaus endalaust. Þegar skipstjórinn ræður ekki við verkefnið er varla pláss lengur fyrir hann í stýrishúsinu. Sama hversu absúrd brandarinn er.

mbl.is Svarar ekki fyrir fjárhaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband