Þrír kjördæmaleiðtogar Frjálslyndra farnir burt

Margrét SverrisdóttirMeð ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur um að ganga úr Frjálslynda flokknum gerast þau merku tíðindi að þriðji kjördæmaleiðtogi flokksins í alþingiskosningunum 2003 er genginn á dyr og farinn í aðrar áttir. Varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi hefur ennfremur nú gengið úr flokknum. Jafnframt má búast við að stofnandi flokksins, Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem kom flokknum á legg eftir afsögn sína úr Landsbankanum í apríl 1998 horfi í aðrar áttir.

Það er vissulega mjög athyglisvert hversu mjög hefur kvarnast af virku trúnaðarfólki í þessum flokki á kjörtímabilinu. Snemma árs 2004 gekk Sigurður Ingi Jónsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Reykjavík norður, úr flokknum vegna ósamkomulags við Magnús Þór Hafsteinsson. Skömmu áður hafði Magnús Þór látið t.d. falla ummæli á málefnin.com um að sprengja undirritaðan, Halldór Blöndal og Björn Bjarnason "til helvítis" svo frægt varð. Þá hvessti í flokknum og bar fyrst í raun á ósamkomulagi Magnúsar Þórs við trúnaðarmenn í flokknum.

Vorið 2005 gaf Gunnar Örn Örlygsson, sem leiddi lista frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi, kost á sér til varaformennsku í flokknum gegn Magnúsi Þór. Hann tapaði kosningunni. Skömmu síðar gekk hann til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Frjálslyndir voru mjög ósáttir við það og vændi forysta flokksins hann um svik og að flokkurinn ætti sætið. Nú undir lok kjörtímabilsins hefur vakið mikla athygli að sami flokkur og hneykslaðist yfir vistaskiptum Gunnars hefur tekið við þingmanni sem flúði úr Samfylkingunni og gert hann nú að sínum.

Nú hefur Margrét Sverrisdóttir gengið úr flokknum. Sigurlín Margrét, varaþingmaður Gunnars Arnar, hefur fetað sömu slóð og væntanlega mun Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, gera slíkt hið sama. Merkileg ólga innan eins flokks á ekki lengri tíma. Það að þrír kjördæmaleiðtogar flokks í kosningum fyrir innan við fjórum árum hafi gengið á dyr segir allt um forystu flokksins.

Það gleður mig að Margrét Sverrisdóttir og stuðningsmenn hennar sjá nú með afgerandi hætti hvern mann Magnús Þór Hafsteinsson hefur að geyma og hversu súrt pólitískt veganesti hans er. Þessu ber að fagna, lesendur góðir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Tveir hanar, Magnús Þór og Jón Magnússon!!!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.1.2007 kl. 00:53

2 Smámynd: Ragnar Ólason

Já merkilegt að Frjálslyndir taki við þingmanni úr Samfylkingunni þar sem þeim fannst ekki rétt að Gunnar gæti gengið í Sjálfstæðisflokkin. Það er greinilega komið annað hljóð í strokkinn.

Ragnar Ólason, 30.1.2007 kl. 01:00

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já þetta er alveg kostulegt Ragnar, ekki annað hægt að segja. Sýnir bara tvöfaldan standard. Annars virðist nú benda til að þessi kjörinn þingmaður SF leiði þá í kraganum (SV) enda er Sigurlín Margrét sem var varaþingmaður farin úr flokknum með Margréti.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.1.2007 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband