Napur endasprettur hjá Tony Blair

Tony BlairÞað líður að lokum stjórnmálaferils Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur verið við völd í Downingstræti 10 í áratug, en hefur boðað brottför sína þaðan fyrir sumarlok. Það er greinilegt að hinn umdeildi "Cash-for-honours"-skandall mun elta hann uppi lokamisseri valdaferilsins. Í dag var Levy lávarður, náinn pólitískur samherji Tony Blair, handtekinn öðru sinni vegna málsins og alls hafa fjórir verið handteknir vegna rannsóknarinnar.

Um fátt hefur verið meira talað í breskum stjórnmálum undanfarið árið en að Verkamannaflokkurinn hafi þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir þingkosningarnar árið 2005. Fullyrt var að þessir sömu auðmenn hefðu með þessu verið að kaupa sig inn í góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif með því. Umræðan fór af stað á vondum tíma fyrir Verkamannaflokkinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í maí í fyrra og hefur skaðað Blair og nánustu samherja hans mjög.

Í nýjustu könnun Telegraph sem birt var á sunnudag segjast aðeins 26% landsmanna bera traust til forsætisráðherrans nú á þessari stundu. Hefur hann sjaldan eða aldrei verið óvinsælli á stjórnmálaferli sínum. Hann hefur leitt Verkamannaflokkinn í 13 ár, eða síðan í júli 1994 og verið forsætisráðherra síðan 2. maí 1997, eða í áratug í vor. Er hann fyrir nokkru orðinn sá leiðtogi Verkamannaflokksins sem lengst hefur ríkt í Downingstræti 10. Í september varð hann vegna þrýstings innan flokksins að tilkynna að hann léti af völdum innan árs.

Rúm 70% landsmanna telja ríkisstjórn Tony Blair og Verkamannaflokksins nú vera jafnspillta eða misheppnaðri en ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir og hún missti flugið með eftirminnilegum hætti. Skv. nýjustu skoðanakönnun Telegraph hefur Íhaldsflokkurinn nú sjö prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Staða hans virðist mjög slæm við lok valdaferils Blairs. Þetta hneykslismál vofir nú yfir forsætisráðherranum eins og mara. Tilkynning hans og Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, um héraðskosningar á N-Írlandi í mars á blaðamannafundi þeirra síðdegis í Downingstræti féll gjörsamlega í skugga fregna um handtöku Levys.

Það stefnir í napran endasprett fyrir forsætisráðherrann og nánustu samverkamenn hans nú örfáum vikum fyrir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins. Það er öllum ljóst að verði nánustu samverkamenn og pólitískir félagar forsætisráðherrans ákærðir með formlegum hætti vegna þessa máls gæti það flýtt pólitískum endalokum Blairs sem virðist ekki munu yfirgefa embættið með þeim eftirminnilega hætti sem spunameistarar hans höfðu stefnt að síðustu árin.


mbl.is Náinn vinur og ráðgjafi Blairs handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband