Vinstristjórn á síðasta snúningi

Jóhanna Sigurðardóttir í ham 1993
Ansi er nú skondið að fylgjast með vandlætingu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og þingmanna Samfylkingarinnar á framgöngu þremenninganna í VG í afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Sérstaklega er ómerkilegt hvernig sumir á þeim bænum níðast á Lilju Mósesdóttur. Þær árásir eru varla málefnalegar í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar ástundaði sömu vinnubrögð árum saman.

Lilja er ekki meiri villiköttur en Jóhanna Sigurðardóttir var sem ráðherra í fjárlagavinnu allra ríkisstjórna sem hún sat í meðan hún var félagsmálaráðherra fyrra skiptið 1987-1994. Þá skellti hún hurðum og hótaði öllu illu ef hún fékk ekki það sem hún vildi. Á tímum hætti hún að mæta á ríkisstjórnarfundi og hún hótaði því að styðja ekki fjárlagafrumvarp nema að uppfylltum skilyrðum.

Skopmynd Sigmunds Jóhannssonar segir allt sem segja þarf um framgöngu Jóhönnu. Annars er þetta bras með þrjá stjórnarliða fjarri því stórtíðindi að mínu mati. Þessi ríkisstjórn hefur verið minnihlutastjórn varin af órólegu deildinni í VG nær allt þetta kjörtímabil. Skilin urðu með Icesave-samningunum sumarið 2009, þegar ekki var þingmeirihluti til staðar á örlagastundu.

Afsögn Ögmundar og önnur áföll komu í kjölfarið. Í raun hefur þessi stjórn aðeins haldið velli vegna þess að enginn einn þingmaður vill drepa fyrstu tæru vinstristjórn lýðveldissögunnar. En brátt kemur að því að þetta verður ekki starfhæft. Við bíðum áhugasöm eftir því að Katrín Jakobsdóttir fari í fæðingarorlof og Guðfríður Lilja komi úr fæðingarorlofi.

Hvernig ætlar Steingrímur J. að ganga framhjá Guðfríði Lilju, leiðtoga flokksins í kraganum, við val á nýjum menntamálaráðherra? Ekki mun stemmningin batna á þessum bæ ef gengið verður framhjá henni við ráðherraval. Verður þá starfhæfur meirihluti? Þá ræður heiðurslistamaðurinn, sem leikur sinn stærsta leiksigur í hlutverki 32. þingmanns vinstristjórnar.

Skondið. Ætli völvan þurfi nokkuð að hafa fyrir því að spá ófriði á þessu stjórnarheimili þar sem hver höndin er upp á móti annarri á aðventunni. Eitt er þó fyndnara en annað. Óeiningin og hatrið milli manna innan VG beinir kastljósinu frá stóru spurningunni.

Hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar? Á þeim bænum er örugglega verið að ráða örlögum þeirrar spurningar, enda Jóhanna komin fram yfir síðasta söludag.

mbl.is Stöðugir níðpóstar um Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband