Pólitískt áfall Ingibjargar Sólrúnar

ISG Það hlýtur að teljast pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að Samfylkingin sé að mælast með minnsta fylgi sitt í fimm ár þegar að 100 dagar eru til alþingiskosninga. Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar fyrir tæpum tveim árum á þeim forsendum að hún væri leiðtoginn sem gæti leitt flokkinn til valda, gert hann að pólitísku mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og orðið sá foringi sem gæti leitt ríkisstjórn. Ef marka má þessa könnun er lítil pólitísk sæla framundan fyrir flokk og formann.

Þessi skoðanakönnun kemur á viðkvæmum tímapunkti fyrir Samfylkinguna. Eins og ég benti hér á fyrir stundu var Samfylkingin með tæplega 40% fylgi í könnun Gallups á sama tímapunkti fyrir fjórum árum, í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Samfylkingin er ekki lengur afgerandi forystuflokkur til vinstri ef marka má þetta. Það er varla við því að búast að VG og Steingrímur J. Sigfússon tali fyrir því að ISG sé einhver leiðtogi stjórnarandstöðunnar í þessari stöðu og vilji byggja kosningabandalag undir hennar stjórn. Staðan virðist mjög skýr - þessi könnun staðfestir aðeins fyrri mælingar á því að Samfylkingin er í frjálsu falli fylgislega séð!

Kaffibandalagið er reyndar í huga margra steindautt. Ætla annars Samfylkingin og VG að leiða Frjálslynda flokkinn til valda og áhrifa í ríkisstjórn eins og staðan er nú? Þetta er stór spurning sem þarf að fá afgerandi svör við. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur svarað þessari spurningu með nokkuð afgerandi hætti. Það er ekki fýsilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hans mati að vinna með frjálslyndum og hann telur slíkt samstarf óraunhæft við núverandi aðstæður. Það er mikilvægt að heyra meira af afstöðu annarra leiðtoga stjórnarandstöðunnar við þessu. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta bandalag sé enn til staðar og sé valkostur eftir áhersluskerpu Frjálslyndra í innflytjendamálum.

Þessi könnun hlýtur að valda samfylkingarfólki verulegum vonbrigðum. Þrátt fyrir stjórnarandstöðu undanfarinna ára hrynur fylgið af flokknum. Það virðist ekki vera vilji þjóðarinnar að Samfylkingin fari til valda, ekki ef marka má tæplega tíu prósentustiga tap frá kosningunum 2003. Ef þetta verður niðurstaðan fær Samfylkingin væntanlega 14 þingsæti og er að tapa að minnsta kosti sex þingsætum. Flokkurinn fékk 20 þingmenn í kosningunum 2003 en hefur reyndar misst einn þeirra fyrir borð og til Frjálslynda flokksins, en Valdimar Leó Friðriksson sem tók sæti við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar hefur gengið til liðs við flokkinn og verður án vafa í framboði fyrir hann.

Fyrir Samfylkinguna er að duga eða drepast á næstunni. Formaðurinn virðist vera í sinni mestu pólitísku krísu til þessa og fátt sem minnir á sigursæla daga hennar sem borgarstjóra félagshyggjuaflanna í Reykjavík. Þetta virðist stefna í að verða pólitískur lífróður hennar. Fái Samfylkingin afhroð af þessum skala verður henni vart sætt lengur í fylkingarbrjósti þar. Hún bauð sig fram sem leiðtoga er gæti unnið stóra sigra. Ef þetta verður reyndin mun formannsferill hennar verða metin sem pólitísk sorgarsaga.

Lífróðurinn gæti orðið af slíkum skala að tryggja fyrst og fremst að þetta verði ekki síðasta kosningabarátta hennar - vonarstjörnunnar fornu sem þrisvar sigraði borgarstjórnarkosningar í stafni sameinaðs kosningabandalags en hefur aldrei fundið taktinn sem flokksleiðtogi. Hún virðist eiga erfitt verkefni framundan. Úr þessu dugar henni ekkert minna en pólitískt kraftaverk.

mbl.is Vinstri grænir mælast með 21% fylgi í nýrri Gallupkönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórgott innleg. Helfró Samfylkingar verður stutt.

Bollaspá (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Við stöndum þetta af okkur Stebbi minn, Ingibjörg Sólrún er enginn eymingi og kvoðnar ekki niður við mótlætið. Það er auðvitað erfitt að slást við kosningaskrifstofur í ráðuneytum en við gefumst ekki upp þó móti blási;-)

Lára Stefánsdóttir, 1.2.2007 kl. 23:32

3 Smámynd: Ragnar Ólason

Ingibjörg gerði auðvitað mistök að fara úr borgarstjórnarstólnum. En hún sá forsætisráðherrastóllin í hyllingum og hélt að hún yrði forsætisráðherra eins auðveldlega og hún varð borgarstjóri.

Ragnar Ólason, 2.2.2007 kl. 05:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband