Dimmustu heimar netsamfélagsins

devilcomputer Ég fylltist eiginlega óhug við að lesa þessa frétt. Þvílíkt og annað eins ógeð sem víða fyrirfinnst á netinu. Sá þessa frétt á vef BBC í kvöld sem moggafréttir vitna í og fannst hún eiginlega enn meira afgerandi. Þetta er harður heimur og netheimarnir er engin undantekning. Ógeðið og lágkúran sem víða finnast þar virðast fá sem engin takmörk eiga.

Það eru aðeins nokkrar vikur síðan að Stöð 2 afhjúpaði harða heima netsins og það sem getur gerst á einkamálasíðum og flétti hulunni af sjúkum sálum sem virðast þar þrífast. Kompás og umsjónarmenn þess þáttar eiga hrós skilið fyrir vandaða umfjöllun, þetta er heimur sem varð að afhjúpa og fjalla um - þessi umfjöllun var allavega mikilvæg. Það verður seint sagt að það sé ánægulegt að horfa á svona efni, en það var nauðsynlegt að afhjúpa það sem greinilega gerist á netinu.

Það má spyrja sig að því í hvaða átt heimurinn er að snúa. Kompás sýndi okkur hvernig sjúkar sálir ráðast inn í huga ómótaðra barna og enn annan daginn heyrast fréttir um að lögregla sé kvödd að heimilum fólks til að grípa inn í heimilisátök þar sem foreldrarnir reyna að hafa stjórn á netnotkun barna sinna og missa stjórn á stöðunni - lögreglan verður aðilinn sem aðeins getur lægt öldur. Það er margt mjög hart í gangi. Það eru svo sannarlega bæði ljósir og dökkir heimar til í samfélaginu.

mbl.is „Tálbeita" fundin sek um að leggja á ráðin um nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einmitt Stebbi minn,

það sem þú getur ekki sagt í andlitið á fólki segir þú bara alls ekki.

Þetta kennum við börnunum okkar öll sem ein!

Takk fyrir innleggið ég er sammála þér.

Stöndum vörð um rétt einstaklinga þó svo að þeir séu mölbrotnir.

kveðja,

JB

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 00:22

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Í kringum árið 1993 var ég í viðtali við Times í Bretlandi um Internetið sem þá var talsverð nýjung fyrir alþýðu manna og blaðamaðurinn vildi að ég sannaði fyrir sér að Netið væri öruggt. Ég var orðin býsna þreytt á honum því hvernig er hægt að lofa því. Fólk er einfaldlega gott og vont hvort sem það notar Netið eða ekki. Því hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar það menn þurfi að gera skýra grein fyrir hvað ákveðin vefsvæði standa fyrir þannig að menn geti varað sig á tvínsýnustu stöðunum þar sem líklegt má teljast að vafasamt fólk venji komur sínar. En ég reikna með að það taki talsverðan tíma í viðbót enda er Netið mjög ungt fyrir flesta. Ég hef verið á því í ýmsu samhengi nú líklega í rúm 16 ár og því kemur mér verulega á óvart að þegar verið er að ræða um almennar siðareglur þá hleypur fólk í upphrópanir um ritskoðun og bönn. Ef fólk yfirfærði hegðun sína á daglegt líf þá vissi það að það væri út úr kortinu. En fólk leyfir sér fáránlegustu hluti í skjóli Netsins.

Hvað varðar hinsvegar þau varmenni sem fréttin fjallar um þá held ég að Netið sé kannski ákveðinn bjargvættur því oft er hægt að finna þá þar sem þeir skilja eftir sig skýrari spor á Netinu en í daglega lífinu. Ég held nefninlega að þeir séu jafn vondir hvort sem Netið er til eða ekki.

Lára Stefánsdóttir, 6.2.2007 kl. 00:23

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Jónína: Já, ekki spurning. Þetta er kjarni málsins. Það sem við getum ekki sagt við fólk með heiðarlegum hætti verður aldrei metið annað en ómerkilegt. Sama gildir um nafnlaus skrif, þau eru bara skrif og teljast marklaus. Ég hef lesið og talað við nafnleysingja í eitthvað um áratug. Þeir eru mismunandi; sumir í lagi, aðrir ekki. Þetta er bara svona. En eitt er víst; þeir sem þora að segja og skrifa það sem þeim finnst með heiðarlegum hætti er tekið mark á; þeir sem þora að leggja nafn við skrifin. Það er mjög einfalt mál.

Lára: Takk kærlega fyrir þessi skrif Lára. Mjög góðir punktar þarna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.2.2007 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband